Skip to main content
search
Fréttir

HATURSGLÆPUR Í FÆREYJUM – RÁÐIST Á PILT FYRIR ÞAÐ EITT AÐ VERA HOMMI

By 12. október, 2006No Comments

Færeyski tónlistarmaðurinn Rasmus Rasmussen varð fyrir fólskulegri árás á skemmtistaðnum Glitni í Þórshöfn fyrir rúmum tveimur vikum. Rasmus er 26 ára gamall og einn af fáum opinberum hommum sem búsettir eru í landinu en einnig þekktur sem gítarleikari rokksveitarinnar Makríl. Mikil umræða hefur skapast í kjölfarið um stöðu samkynhneigðra og virðist sem þessi hörmulegi atburður muni að einhverju leiti þoka málum áleiðis. Færeyski tónlistarmaðurinn Rasmus Rasmussen varð fyrir fólskulegri árás á skemmtistaðnum Glitni í Þórshöfn fyrir rúmum tveimur vikum. Rasmus er 26 ára gamall og einn af fáum opinberum hommum sem búsettir eru í landinu en einnig þekktur sem gítarleikari rokksveitarinnar Makríl. Samkvæmt Dimmalætting, stærsta dagblaði Færeyja, varð hann þetta kvöld fyrir síendurteknu niðrandi tali og grófum athugasemdum um kynhneigð sína frá nokkrum ókunnum mönnum. Að lokum svaraði hann fyrir sig og það leiddi til þess að fjórir menn réðust að honum með höggum og spörkum. Hann meiddist þó ekki alvarlega því að starfsfólk skemmtistaðarins náði að stía mönnum frá, henda ofbeldismönnunum út og loka staðnum.

Áður en langt um leið hópuðust hins vegar fleiri að, um fjörutíu manns, og umsátursástand myndaðist þegar æstur skríllinn reyndi að komast inn til þess að leggja hendur á Rasmus. Lögreglan var kvödd á staðinn og varð að beita kylfum og hundum til þess að leysa upp hópinn. Tveir voru handteknir fyrir mótþróa gegn lögreglunni.

Morðhótun

Eftir atvikið samþykkti Rasmus að eiga opinskátt viðtal við Dimmalætting þar sem frétt og mynd af honum birtist á forsíðu: „Eftir að fréttin birtist fann ég fyrir miklum stuðningi vina minna og fjölskyldu. Ég tók mér frí frá vinnu og reyndi að jafna mig á því sem hafði gerst. Ég var bæði sorgmæddur og reiður en vonaði að með viðtalinu myndu þessir menn átta sig á því að þeir hefðu brotið af sér og létu mig í friði,“ segir Rasmus við vefsíðu Samtakanna ’78. Honum varð hins vegar ekki að ósk sinni því eftir að viðtalið birtist var tvívegis hringt á heimili hans og honum hótað lífláti. Lögreglan náði að rekja símtalið og málið er nú í rannsókn. Rasmus fékk hins vegar taugaáfall og var lagður inn á sjúkrahús.

Mortan faðir Rasmusar átti langt forsíðuviðtal við Dimmalætting 5. október sl. og ræddi síðan málið ítarlega í útvarpi þar sem hann lýsti yfir stuðningi fjölskyldunnar við Rasmus. Þar með braut Mortan Rasmussen blað í færeyskri sögu með því að koma opinberlega fram sem styðjandi faðir. Almenningur hefur einnig tekið rækilega til máls við þessi hetjulegu viðbrögð fjölskyldu Rasmusar og mikil stuðningsalda við samkynhneigða fer nú um færeyskt samfélag.

Megum ekki verja homma og lesbíur

Verndarákvæði til handa minnihlutahópum í færeysku hegningarlögunum ná ekki til samkynhneigðra, og tillögur þess efnis hafa tvívegis verið felldar á Lögþingi Færeyja, árin 1989 og síðan í fyrra, þegar 12 greiddu atkvæðu með slíkri tillögu Þjóðveldisflokksins en 20 voru á móti. Nauðsyn slíkra verndarákvæða eru mjög í umræðunni þessa dagana því að aðstoðarlögreglustjórinn í Þórshöfn lýsti því yfir á dögunum að lögreglan hefði ekki lagaheimild til að vernda og verja samkynhneigða þegna landsins ef að þeim væri sótt með hótunum og ofsóknum. Þá ofbauð mörgum góðum Færeyingi og tvær grímur runnu á þá þingmenn sem hingað til hafa reynt að leiða málin hjá sér. Er það álit margra að leita þurfi alla leið til forhertustu einræðisríkja heimsins til að finna hliðstæður við þessar síðustu yfirlýsingar Jóns Klein Olsen, aðstoðarlögreglustjóra.

Staða samkynhneigðra í Færeyjum

Ástand mála í Færeyjum er að mörgu leyti líkt því sem var á Íslandi fyrir 20-30 árum. Samkynhneigðir yfirgefa í hópum heimaland sitt til þess að geta notið sín á eðlilegan hátt í samfélagi við aðra menn. Lögþing Færeyja hefur ítrekað hafnað réttarbótum til handa hommum og lesbíum og því hefur landið dregist langt aftur úr öðrum norrænum þjóðum í þessu efni. Færeyjar eru nú eina þjóð Norðurlanda sem ekki hefur sett lög um staðfesta samvist, og Færeyingar eru einnig eina norræna þjóðin sem ekki hefur enn sett verndarákvæði til handa samkynhneigðum inn í hegningarlög sín. Sértrúarflokkar eiga gríðarleg ítök í pólitísku lífi þjóðarinnar og fúndamentalistar trúarinnar eru tengdir auði og völdum á rótgróinn hátt. Hið sorglega ofbeldismál virðist þó hafa hreyft rækilega við umræðunni og nú í vikunni lögðu fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka fram frumvarp um setningu verndarákvæðis í lög. Því virðist sem þessi hörmulegi atburður muni að einhverju leyti þoka málum áleiðis.

Aðgerða er þörf

Það má ljóst vera að hér berum við öll ábyrgð og samtökum samkynhneigðra á Norðurlöndum er skylt að vekja athygli stjórnmálamanna í heimalöndum sínum á ástandi mála í Færeyjum. Eitt af helstu hlutverkum Norðurlandaráðs norrænna þingmanna er að knýja á um samræmingu löggjafar meðal aðildarþjóðanna og tryggja mannvernd í hverju landi. Því telja Samtökin ’78 brýnt að taka stöðu lesbía og homma í Færeyjum upp til umræðu á næsta þingi ráðsins. Fyrir 25 árum var slíkum þrýstingi beitt í Norðurlandaráði gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum sem á þeim árum lokuðu augunum fyrir landflótta og ofsóknum hér á Íslandi. Nú er lag að endurtaka slíkt með fyrirspurn og áskorun til landstjórnar Færeyja og stuðla þannig að því að háskaleg afturhaldsstefna færeyskra stjórnmálamanna komist í hámæli á samnorrænum vettvangi. Við hljótum að spyrja: Er það ætlun þeirra að hafa líf samkynhneigðra þegna á samviskunni í Færeyjum?

–HTS

Leave a Reply