Skip to main content
search
Fréttir

Sidney – Ástralía – Íslendingur keppir í sleggjukasti

By 1. október, 2002No Comments

Frettir Í byrjun nóvember verða Alþjóðaíþróttaleikar samkynhneigðra haldnir í Sidney í Ástralíu. Þetta er í sjötta sinn sem leikarnir eru haldnir í heiminum og búist er við um það bil fimmtán þúsund þátttakendum að þessu sinni. Keppnisgreinum hefur fjölgað talsvert frá síðustu leikum fyrir fjórum árum og mikill hugur er í Áströlum, enda hefur fátt orðið til að breyta heimi samkynhneigðra jafn mjög og þessi yfirlýsti og skipulagði íþróttaáhugi. Til að lesa meira um leikana er vænlegt að fara inn á vefsíðuna www.sydney2002.org eða www.gay.australia.com og leita þaðan áfram að upplýsingum. Einnig er mikið um dýrðir í skemmtana- og menningarlífi lesbía og homma í Sidney þessar vikur sem leikarnir standa.

Gegn hómófóbíu

Íþróttaheimurinn hefur löngum verið eitt helsta vígi hómófóbíunnar í heiminum og það var beinlínis til að vinna gegn henni að samkynhneigðir tóku höndum saman fyrir tuttugu árum um að halda alþjóðlega íþróttaleiki, The International Gay Athletic Games, eða The Gay Games eins og þeir eru oftast nefndir. Þeir þjóna svipuðu hlutverki til eflingar íþróttum meðal samkynhneigðra og smáþjóðaleikarnir meðal dvergríkja Evrópu sem eiga erfitt uppdráttar á íþróttaleikum milljónaþjóða. Upphaflega hlutu leikarnir nafnið Gay Olympics en ólympíunefnd Bandaríkjanna höfðaði mál gegn leikunum og vann sigur. Samkynhneigðir skyldu ekki voga sér að nota ólympíunafnið á íþróttaleika sína þó svo að ótal aðrir hópar samfélagsins fengju óáreittir að tengja ólympíunafnið við keppnir sínar, jafnvel hundar og froskar. Þar er enn eitt dæmi af ótal mörgum um ótta íþróttaheimsins við samkynhneigt fólk.

Vaxandi vinsældir

The Gay Games voru fyrst haldnir í San Francisco síðla sumars 1982 og urðu brátt vinsæll viðburður í íþróttaheiminum. Kannski voru það samkynhneigðir sjálfir sem undruðust mest tilurð leikanna. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því fyrr hve íþróttaáhugi var almennur og hæfileikarnir miklir meðal samkynhneigðra. Svo sannarlega þjónuðu leikarnir því yfirlýsta markmiði sínu að að efla ólympíuhugsjónina meðal lesbía og homma, kenna þeim að gera sitt besta í hverri keppni og efla eigið stolt og sjálfsvirðingu. Árið 1994 tóku fimmtán þúsund keppendur frá fjörutíu þjóðum þátt í leikunum í New York, þar á meðal ýmsar frægar íþróttastjörnur. Þegar leikarnir voru í fyrsta sinn haldnir utan Bandaríkjanna, í Amsterdam 1998, voru keppendur einnig um fimmtán þúsund en þátttökuþjóðirnar orðnar sjötíu og átta.

Reynir Þór Sigurðsson á vellinum í Sidney

Í Amsterdam 1998 mættu tveir Íslendingar til leiks, þau Harpa Fold Ingólfsdóttir og Páll Price, og kepptu í bridge sem líka er ólympíuíþrótt eins og kunnugt er. Nú kemur þriðji Íslendingurinn við sögu leikanna. Það er Reynir Þór Sigurðsson sem keppir í sleggjukasti í Sidney aðra vikuna í nóvember.

Reynir lýsir eftir öðrum Íslendingum sem kunna að verða í Sidney á íþróttaleikum samkynhneigðra en hann stundar nám í Kaupmannahöfn í vetur. Reynir leggur í hann 29. október og kemur til baka til Kaupmannahafnar 19. nóvember. Að þessu tilefni er sleggjukastarinn ungi búinn að stofna lið – Team Iceland – sem fylkir liði inn á leikvanginn á opnunarhátíðinni. Því er um að gera fyrir alla þá sem ætla til Sidney í byrjun nóvember að hafa samband við hann í tæka tíð. Netfang Reynis er isnyer@hotmail.com og símanúmer hans +45 4098 7919.

Góða ferð, Reynir, og gangi þér vel í sleggjunni!

Leave a Reply