Skip to main content
search
Fréttir

ALDREI FJÖLMENNARI EN NÚNA

By 12. ágúst, 2007No Comments

Hinsegin dagar í Reykjavík voru haldnir í níunda sinn dagana 9. – 12. ágúst. Gríðarleg þátttaka var í hátíðinni að þessu sinni og sló aðsóknin í þetta sinn öll fyrri met. Að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar voru um 80.000 gestir á götum Reykjavíkur á aðalhátíðisdaginn, 11. ágúst, og nutu sólar og veðurblíðu meðan þeir fylgdust með gleðigöngu og útitónleikum á Arnarhóli.

Hinsegin dagar í Reykjavík voru haldnir í níunda sinn dagana 9. –12. ágúst. Gríðarleg þátttaka var í hátíðinni að þessu sinni og sló aðsóknin í þetta sinn öll fyrri met. Að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar voru um 80.000 gestir á götum Reykjavíkur á aðalhátíðisdaginn, 11. ágúst, og nutu sólar og veðurblíðu meðan þeir fylgdust með gleðigöngu og útitónleikum á Arnarhóli.

FORLEIKURINN

Hátíðin hófst að vanda á fimmtudegi, en þá skemmti hljómsveitin GSX og Sarah Greenwood á Domo og Q-Boy tróð upp á Q-Bar við Ingólfsstræti til upphitunar. Á föstudagskvöldi var síðan hin eiginlega opnunarhátíð haldin í Loftkastalanum, en þar tróðu upp nokkrir af þeim skemmtikröftum sem boðnir voru til landsins í tilefni Hinsegin daga, m.a. heiðursgestur hennar, Miss Vicky frá Bandaríkjunum, indverski dansarinn Sunny, breski hip-hop rapparinn Q-Boy, sænska kvennahljómsveitin Pay TV að ógleymdir Möggu Stínu sem átti salinn með túlkun sinni á söngvum Megasar.

HÁTÍÐISDAGURINN

Hinsegin fólk og aðstandeudur þeirra tóku daginn snemma. Klukkan sjö að morgni var hafist handa við blöðrublástur og andlitsmálningu í óteljandi baðherbergjum, eldhúsum og verkstæðum hátíðarinnar og klukkan eitt eftir hádegi tóku þátttakendur að „stilla upp“ fyrir gönguna á Hlemmi. Aldrei hafa atriðin verið fleiri, um þrjátíu talsins í ár, en stundvíslega klukkan tvö hélt svo hersingin af stað niður Laugaveg. Að vanda er þetta ein áhrifamesta stund hátíðarinnar fyrir þau sem taka þátt í Hinsegin dögum eftir að hafa setið að undirbúningi í heilt ár, stund fagnaðar og staðfestingar á eigin tilveru.

Þegar gangan fór framhjá útisviðinu við Arnarhól sá kynnirinn, Árni Pétur Guðjónsson, um að lýsa hverju atriði sem fram hjá fór og þegar síðasti vagn var í höfn hófust útitónleikar hátíðarinnar. Ræðumaður dagsins var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir en skemmtikraftarnir voru Hafsteinn Þórólfsson, Friðrik Ómar, Tommi Tomm og vinir, Hara systur (sem hétu reyndar Hýru systur þennan dag), Páll Óskar að ógleymdum erlendum gestum hátíðarinnar. Það voru þau Sarah Greenwood og GSX, Q-Boy og hljómsveitin Pay TV. Svo mikil var veðurblíðan að Arnarhóllinn var þéttsetinn fram eftir degi allt þar til hátíðinni lauk, og sumir vildu helst ekki heim fara.

Á sunnudegi var síðan efnt til sýningar á kvikmyndinni Hairspray í Háskólabíói og um kvöldið var regnbogamessa í Laugarneskirkju þar sem prestarnir, Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir, predikuðu í samtalspredikun en hópur úrvals tónlistarfólks annaðist söng og hljóðfæraleik.

FAGFÓLK AÐ STÖRFUM

„Undirtektir Íslendinga við Hinsegin dögum er enn og aftur sönnun þess að hátíðin er komin til að vera,“ segir Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, í viðtali við vefsíðuna. „Þetta er hátíð stoltsins og gleðinnar og alltaf ný fyrir okkur sem tökum þátt í henni. Á hverju ári kemur fjöldi fólks í gönguna sem ekki lagði í það að vera með í fyrra, og til landsins streyma gestir, ekki bara útlendingar, heldur líka Íslendingar sem einu sinni kvöddu land sem var þeim óbærilegt, en koma nú aftur heim til að sættast við fortíðina og fagna því að gildismat þjóðarinnar hefur breyst. Áhrifamest finnst mér að mæta þessu fólki en um leið finnur maður til svolítils trega þegar maður hugsar til náinna vina sem eru löngu horfnir og ekki náðu að upplifa annan eins dag og 11. ágúst 2007. Þá hugsa ég líka með stolti og þakklæti til allra félaga minna sem kunna að skapa stóra og flókna hátíð eins og þessa, og fá hana í þokkabót til að renna áfram snurðulaust, án vandræða eða mistaka. Það er hverri þjóð dýrmætara en orð fá lýst að eiga til stóran hóp fólks sem kann að halda hátíð af þessari stærðargráðu og haga sér um leið eins og ekkert sé auðveldara. Því að Hinsegin dagar eru flókið mál í framkvæmd þótt fagfólkið okkar beri það ekki utan á sér.“

Hátíð Hinsegin daga í Reykjavík verður næst haldin að ári, dagana 7. –10. ágúst 2008, en þá er ætlunin að minnast tíu ára afmælis hátíðarinnar með glæsibrag.

-HTS

Mynd: Geir Ragnarsson. Fleiri myndir Geirs má finna hér auk þessara mynda sem Svavar Ragnarson tók.

Leave a Reply