Skip to main content
Fréttir

REGNBOGAMESSA Í AKUREYRARKIRKJU

By 26. október, 2007No Comments

Sunnudaginn 21. október var haldin Regnbogamessa í Akureyrarkirkju. Aðstandendur hennar voru samtök sem kalla sig Gulur, rauður, grænn. Fjölmenni var við messuna sem og dagskrá fjölmenn.

Sunnudaginn 21. október var haldin Regnbogamessa í Akureyrarkirkju. Aðstandendur hennar voru samtök sem kalla sig Gulur, rauður, grænn, en þar er um að ræða Akureyrarkirkju, Norðurlandshóp Samtakanna 78 (S78N) og Norðurlandsdeild FAS, samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. Sami hópur gekkst fyrir Regnbogavöku í vor er leið í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Fjölmenni var á Regnbogamessunni, um 200 manns, og dagskrá fjölbreytt. Í upphafi söng Stúlknakór Akureyrarkirkju. Stúlkurnar sátu á enda kirkjubekkjanna og stóðu upp ein af annarri þannig að sífellt fjölgaði röddum, uns allar voru risnar á fætur, en þá gekk Aðalsteinn Vestmann, formaður nýstofnaðs Ungmennahóps Samtakanna 78 á Norðurlandi, inn með regnbogafánann. Honum fylgdi hópur samkynhneigðra og aðstandenda þeirra. Það var hrífandi innganga og hátíðleg. Fáninn var settur við kórdyr, en annar regnbogafáni hafði verið strengdur framan á prédikunarstólinn.

Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson bauð gesti velkomna með bæn og ávarpi þar sem hann lagði út frá sálmi Sigurbjörns Einarssonar, Þú, mikli guð, ert með okkur á jörðu, sem kirkjugestir sungu ásamt stúlknakórnum. Gunnur Ringsted las úr ritningunni og Páll Óskar Hjálmtýsson flutti tvö lög veið undirleik Eyþórs Inga Jónssonar kórstjóra og organista, og fylgdi lögunum úr hlaði með eftirminnilegum kynningum. Séra Óskar fór með ritningarorð og fjallaði um stöðu samkynhneigðra, en svo vildi til að guðspjall dagsins bar yfirskriftina “Boðið til brúðkaups.” Því tengdi séra Óskar þau orð og þá umræðu sem þessa daga fer fram í samfélaginu um afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðar og vilja sumra kirkjunnar manna að fara í manngreinarálit þegar um hjónavígslu er að ræða. Hann kvaðst ala þá von í brjósti að á endanum næðist fullt jafnrétti, ef ekki innan kirkjunnar einnar þá með tilstyrk löggjafarvaldsins.

Páll Óskar söng þessu næst, ásamt Stúlknakórnum undir stjórn og undirleik Eyþórs Inga, splunkunýjan sálm, Á handlegg minn er húðflúraður efinn, eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur við lag Atla Heimis Sveinssonar. Í kjölfar þess sté í prédikunarstól Guðfríður Lilja Grétarsdóttir forseti Skáksambands Íslands og flutti afar áhrifamikla hugvekju, sem fól í sér hvort tveggja einlæga upprifjun eign reynslu og heita von og hvöt til þess að kirkjan mætti verða samkomustaður allra, án nokkurra fordóma, í anda guðs og sonar hans Jesú Krists. Að hugvekjunni lokinni fluttu Páll Óskar og Eyþór Ingi eitt lag.

Lokatriði messunnar var innlegg þriggja félaga úr Ungmennahópi Samtakanna 78 á Norðurlandi, þar sem Aðalsteinn formaður sté í prédikunarstólinn regnbogaklædda, Rakel varaformaður gekk um kirkjugólf og Sandra sat á þrepunum í kórdyrum og þau fluttu stuttar hugvekjur um stöðu homma, lesbía, tvíkynhneigðra og transgender fólks, ekki síst ungmenna, sem taka þann kost sífellt yngri, jafnvel úti í hinum dreifðu byggðum landsins, að mæta samfélaginu á sínum eigin forsendum, án þess að fela sig fyrir sjálfum sér eða öðrum.

Í blálokin gengu allir kirkjugestir upp að kórdyrum og kveiktu á kertum, táknum samstöðu, friðar og virðingar.

Í einu orði má segja að þessi Regnbogamessa hafi tekist framúrskarandi vel. Kirkjugestir luku upp einum munni um það en nær allir komu í kaffi og kleinur úr Bárðardal í Safnaðarheimilinu að messu lokinni. Sérhverju atriði messunnar var fagnað með lófataki og gleði og einurð var einlæg í þessu guðshúsi, sem sumir viðstaddra heimsækja að jafnaði ekki, en höfðu á orði að góðan málstað bæri að styðja með öllum aðferðum.

Samtökin ´78 og Saga Capital fjárfestingabanki á Akureyri veittu Gulum, rauðum, grænum, myndarlega styrki til að standa undir kostnaði við þessa fjölmennu hátíð, en Gulur, rauður, grænn mun áfram láta til sín taka í réttlætismálum samkynhneigðra á Norðurlandi.

-Sverrir Páll Erlendsson

 

 

Leave a Reply