Skip to main content
search
Fréttir

Sierra Leone – Baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra myrt

By 21. október, 2004No Comments

Frettir Fannyann Eddy, baráttukona fyrir réttindum lesbía og homma í Sierra Leone, fannst myrt á skrifstofu sinni í síðasta mánuði. Hún var brautryðjandi fyrir auknum réttindum samkynhneigðra í landinu og stofnaði meðal annars SLLAGA, landssamtök lesbía og homma í Sierra Leone. Það var einmitt á skrifstofu SLLAGA að ráðist var að henni þar sem hún var við störf, henni nauðgað og misþyrmt áður en hún var myrt. Tölvum og öðrum gögnum var svo stolið af skrifstofunni. Fannyann Eddy sýndi ólýsanlegt hugrekki í baráttu sinni fyrir jöfnum rétti minnihluta hópa í landinu – hugrekki sem á endanum kostaði hana lífið.

Hómófóbía er gríðarlegt vandamál í Sierra Leone og grófar líkamsárásir og morð algeng birtingarmynd hennar. Ekki bætir úr skák að yfirvöld horfa gjarnan í gegnum fingur sér með ofbeldið þar sem árásarmönnum er ekki refsað fyrir ofbeldi gegn samkynhneigðum. Auk þess verður að hafa í huga að jafnrétti kynjanna er afar skammt á veg komið í landinu og er því hugrekki Eddy, að standa upp sem opinber lesbía við þessar erfiðu aðstæður, enn meira fyrir vikið. Mannréttindasamtök víða um heim hafa fordæmt verknaðinn og krefjast þess að stjórnvöld í landinu rannsaki málið til fullnustu og refsi þeim sem bera ábyrgð á verknaðinum.

Fannyann Eddy lét ekki aðeins til sín taka í heimalandinu. Hún var einnig áberandi baráttukona fyrir mannréttindamálum á alþjóða vettvangi, meðal annars sem fulltrúi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks hjá Sameinuðu þjóðunum og hjá mannréttindasamtökum í Afríku. Þeir sem þekktu hana lýsa henni sem lífsglaðri konu sem þrátt fyrir allt elskaði land sitt. Hún lætur eftir sig tíu ára son.

Leave a Reply