Skip to main content
search
Fréttir

Langþráður sigur í einu mesta mannréttindamáli Bandaríkjanna: – Hæstiréttur ógildir lög sem banna kynmök samkynhneigðra

By 9. júlí, 2003No Comments

Frettir Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum ógilti Hæstiréttur Bandaríkjanna nýverið lög í Texasríki sem banna samfarir einstaklinga af sama kyni. Forsaga málsins er sú að tveir Texasbúar, John Lawrence og Tyron Garner, voru staðnir að kynmökum á heimili sínu árið 1998. Nágranni þeirra hafði tilkynnt lögreglu að óður byssumaður væri í íbúð Lawrence en útkallið reyndist tilefnislaust. Þrátt fyrir það voru þeir Lawrence og Garner umsvifalaust færðir í varðhald enda grunaðir um brot á lögum ríkisins sem banna ?sódómísk kynmök?. Fyrir rétti voru þeir fundnir sekir og hvor um sig dæmdir til að greiða 200 dala sekt auk málskostnaðar. Þeir sættu sig ekki við niðurstöðuna og áfrýjuðu til Hæstaréttar.

Það eitt að Hæstiréttur Bandaríkjanna skyldi taka málið fyrir var sigur út af fyrir sig. Rétturinn fjallar eingöngu um grundvallar mannréttindarmál og um það hvort löggjöf samrýmist stjórnarskrá landsins, og vísar hann frá um 95% mála sem undir hann eru borin. Niðurstaða réttarins, sem klofnaði 6-3 í málinu, var sú að lög Texasríkis brjóti gegn friðhelgi einkalífsins og sjálfsákvörðunarrétti tveggja lögráða einstaklinga. Ógilti hann þar með hina ?and-sódómísku? löggjöf í Texas. Talið er öruggt að dómurinn muni einnig ógilda lög í þrettán öðrum ríkjum sem hafa sambærilega löggjöf, þar á meðal í Flórída, Kansas og Oklahoma.

Klofinn réttur – klofin þjóð

Stjórnarskrá Bandaríkjanna byggir á afar skýrri skiptingu ríkisvaldsins. Mörg dæmi eru þess að Hæstiréttur hafi tekið fram fyrir hendur forsetans eða þingsins og ógilt lög sem hann hefur talið að stangist á við stjórnarskrána. Oft hafa slík mál varðað umdeild siðferðismál svo sem dauðarefsingar, fóstureyðingar, réttindi blökkumanna, og nú síðast réttindi samkynhneigðra. Það er athyglivert í þessu ljósi að í umræddu máli ógildir Hæstiréttur eigin dóm frá árinu 1985 þar sem hann komst að þveröfugri niðurstöðu. Með niðurstöðunni nú er Hæstiréttur því í raun að taka pólitíska afstöðu. Um leið endurspeglar hann ákveðna hugarfarsbreytingu bandarísku þjóðarinnar til samkynhneigðra. Umræður í fjölmiðlum þar vestra bera þessu glöggt vitni.

Samtök samkynhneigðra og ýmis önnur frjálslynd mannréttindasamtök hafa að vonum fagnað dómnum og lýst honum sem sögulegum sigri. Lögmaður mannanna tveggja sem kærðu málið, Ruth Harlow, lofaði lyktir málsins: ?Við öll – allir Bandaríkjamenn – eigum rétt á að kjósa sjálf hvernig við tjáum ást okkar hvert til annars innan veggja heimilisins,?

Á hinn bóginn hafa íhaldsöm samtök, svo sem kristnir bókstafstrúarsöfnuðir sem eru óvenju áhrifamiklir í bandarískum stjórnmálum, fordæmt niðurstöðuna. Þeir heita því að herða baráttuna gegn auknum réttindum samkynhneigðra og koma með öllum tilækum ráðum í veg fyrir að dómurinn verði fyrsta skrefið að því marki að hjónabönd samkynhneigðra verði leyfðar. Þeir vara við fordæmi Kanada en þar í landi knúðu dómstólar nýlega fram breytingar á hjúskaparlöggjöfinni. Það er því langt frá því að einhugur ríki meðal bandarísku þjóðarinnar í þessu réttlætismáli. Niðurstaða Hæstaréttar er hins vegar tvímælalaust sögulegur og langþráður áfangasigur í réttindabaráttu samkynhneigðra.

– Hrafnkell Tjörvi Stefánsson

(Heimildir: BBC News; The New York Times, The Washington Post)

Leave a Reply