Skip to main content
Fréttir

Málþing í Háskóla Íslands – Réttindaskrá Evrópusambandsins

Tilkynningar Á síðasta aðalfundi Samtakanna ´78 veitti fundurinn forystu félagsins heimild til þess að ganga til viðræðna um aðild að Mannréttindaskrifstofu Íslands. Sú aðild er nú að verða að veruleika og munum við segja nánari fréttir af málinu um miðjan mánuðinn. Á þessum merku tímamótum viljum við vekja athygli á málþingi á mánudaginn sem fjallar um réttindaskrá Evrópusambandsins og birta almenna fréttatilkynningu sem send er út um málið. Réttindaskráin er ekki lagalega bindandi enn sem komið er, en verður það sennilega innan fárra ára. Réttindaskráin leggur meðal annars bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og það mun hafa mikil áhrif í mörgum ríkjum Evrópusambandsins.

Réttindaskrá Evrópusambandsins – Schuman-fyrirlestur og málþing
14. maí 2001 kl. 16.00-18:30 í hátíðasal Háskóla Íslands

Mánudaginn 14. maí n.k. kl. 16:00 býður Háskóli Íslands í samstarfi við fastanefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Osló til fyrirlestrar og málþings um réttindaskrá Evrópusambandsins. Dagskrá málþingsins er skipulögð í samstarfi við stjórnmálafræðiskor Háskólans, Félag stjórnmálafræðinga og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Schuman-fyrirlestur

Fundarstjóri: dr. Gerhard Sabathil, sendiherra fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB gagnvart Íslandi og Noregi.
Ávarp: dr. Páll Skúlason háskólarektor.
Fyrirlestur: “Towards a Europe of Common Values: The EU Charter of Fundamental Rights in Perspective”. Daniel Tarschys, prófessor við Háskólann í Stokkhólmi, fyrrum framkvæmdastjóri Evrópuráðsins og einn höfunda réttindaskrár Evrópusambandsins.

Málþing um réttindaskrá Evrópusambandsins og áhrif hennar á Ísland.

Fundarstjóri: Páll Skúlason rektor. Stjórnandi pallborðsumræðna dr. Baldur Þórhallsson, lektor í stjórnmálafræði. Framsögumenn og þátttakendur í pallborði eru: Björg Thorarensen lögfræðingur, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands; Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands; Herdís Þorgeirsdóttir stjórnmálafræðingur, sem vinnur að doktorsverkefni á sviði mannréttinda við lagadeild háskólans í Lundi og dr. Vilhjálmur Árnason heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Meðal umræðuefna:
– Hver er munurinn á efni réttindaskrár Evrópusambandsins, Mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland hefur lögtekið og mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar?
– Hver er formleg staða réttindaskrárinnar. Er hún vísir að evrópskri stjórnarskrá?
– Gerir réttindaskráin félagslegum, menningarlegum og efnahagslegum réttindum hærra undir höfði en gert er í Mannréttindasáttmála Evrópu?
– Tryggir réttindaskráin betur réttindi ákveðinna hópa í samfélaginu, svo sem kvenna, barna, samkynhneigðra, flóttafólks eða öryrkja?
– Er ástæða til að hafa réttindaskrána til hliðsjónar við næstu endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar?

Schuman-dagurinn – Evrópudagurinn

Hinn 9. maí árið 1950 kynnti Robert Schuman, utanríkisráðherra Frakklands, áætlun Jean Monnets um Kola- og stálbandalagið (European, Coal and Steel Community – ECSC) sem sameinaði kolavinnslu og stálframleiðslu Belgíu, Frakklands, Hollands, Ítalíu, Luxemborg og Þýskalands undir sameiginlegri, yfirþjóðlegri stjórn og markaði upphafið að Evrópusambandinu. Schuman sagði markmið samstarfsins vera að gera nýtt stríð ekki aðeins óhugsandi heldur óframkvæmanlegt. Hinn 9. maí er haldinn hátíðlegur sem Schuman-dagurinn eða Evrópudagurinn. Hans er nú minnst á Íslandi í annað sinn með svokölluðum Schuman-fyrirlestri sem Háskóli Íslands og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins efna til með aðstoð sænska forsætisins.

Réttindaskrá Evrópusambandins

Evrópusambandið snýst ekki aðeins um hagnýta efnahagssamvinnu heldur einnig um sameiginleg gildi. Á leiðtogafundi ESB í júní 1999 urðu leiðtogar aðildarríkjanna ásáttir um að skipa starfshóp til að semja réttindaskrá sem skilgreindi þau grundvallarréttindi sem allir borgarar ESB eiga ófrávíkjanlega kröfu til. Fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna, þjóðþinga þeirra, framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins áttu sæti í starfshópnum, auk áheyrnarfulltrúa frá Evrópuráðinu, Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstól Evrópu. Leitað var ráða og ábendinga hjá frjálsum félagasamtökum og stofnunum og haldnir opnir samráðsfundir. Starfshópurinn kynnti tillögu að texta réttindaskrárinnar í október 2000 og var hann samþykktur af leiðtogaráðinu í desember sama ár. Áformað er að taka ákvörðun um réttarlega stöðu skrárinnar árið 2004.

Réttindaskráin mun liggja frammi á fundinum í óopinberri þýðingu og hana er einnig að finna á vef fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB á slóðinni: http://home.online.no/~europako/is/index.htm.

Inngangsorð réttindaskrár Evrópusambandsins eru þessi:

?Borgarar Evrópu eru staðráðnir í að eiga saman friðsama framtíð sem grundvallast á sameiginlegum gildum, með því að byggja stöðugt nánara samband sín á milli.

Evrópusambandið, meðvitað um andlega og siðferðislega arfleifð, er grundvallað á órjúfanlegum, altækum gildum um mannlega reisn, frelsi, jafnrétti og samstöðu. Það byggist á grundvallargildum um lýðræði og réttarríki. Evrópusambandið setur einstaklinginn í öndvegi með því að stofna til grundvallarréttinda innan sambandsins og skapa svæði frelsis, öryggis og réttlætis.

Evrópusambandið leggur sitt af mörkum til verndar og þróunar þessara sameiginlegu gilda á sama tíma og það virðir margbreytileika menningar og hefða þjóða Evrópu sem og þjóðernisvitund aðildarríkjanna og stjórnskipulag þeirra á landsvísu, á einstaka svæðum og sveitarstjórnarstigi; það leitast við að ýta undir sjálfbæra þróun og tryggja frjálsa för fólks, frjálsa vöruflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga og staðfesturétt. Til að ná þessum markmiðum er nauðsynlegt að styrkja vernd grundvallarréttinda í ljósi breytinga á samfélaginu, samfélagsgerð og vísindalegra og tæknilegra framfara með því að gera þessi réttindi sýnilegri í sérstakri réttindaskrá.

Þessi réttindaskrá staðfestir, með fullu tilliti til valdsviðs og verkefna Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins og nálægðarreglunnar, þau réttindi sem meðal annars eru til komin vegna stjórnarskrárlegra hefða, alþjóðlegra þjóðarréttarsaminga aðildarríkjanna, sáttmálans um Evrópusamband og Rómarsáttmálans ásamt síðari breytingum, Mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmála um félagsleg réttindi sem hafa hlotið samþykki Evrópubandalagsins og Evrópuráðsins og dómafordæmi Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þessi réttindi fela í sér skyldur og ábyrgð gagnvart öðrum einstaklingum, gagnvart samfélagi manna og komandi kynslóðum. Evrópusambandið staðfestir því réttindi, frelsi og viðmið sem hér fara á eftir.?

Fréttatilkynning

Leave a Reply