Skip to main content
Fréttir

Þýskaland – Hvað er fjölskylda?

By 16. maí, 2001No Comments

Frettir Þann 1. ágúst taka gildi í Þýskalandi lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra. Þau eru til orðin fyrir atbeina stjórnarliða hinnar vinstri-grænu stjórnar landins, eða hins rauð-græna samstarfs eins og það heitir þar í landi. Ekki eru þó allir sáttir við þessa réttarbót til handa lesbíum og hommum og hefur öflugasti andstæðingur hennar verið hinn gamli valdaflokkur íhaldins, Kristilegir demókratar, með núverandi formann, Angelu Merkel í fylkingarbrjósti.

Flokkurinn hefur ekki farið leynt með andstöðu sína og háði baráttu gegn frumvarpinu undir slagorðinu: ?Umburðarlyndi já, hjónaband nei.? Rökin gegn lögunum eru vel þekkt – sambúð homma og lesbía getur engan veginn talist fjölskyldulíf og lög sem hana styðja vega að rótum siðgæðis og hjónalífs.

Eftir viðtal við frú Merkel í Die Welt í apríl þar sem hún áréttaði enn þær skoðanir sínar og flokksins að samlíf homma og lesbía ætti ekkert skylt við eðlilegt fjölskyldulíf, gripu amtök homma og lesbía í Þýskalandi, LSVD, til gagnaðgerða. Farið var af stað með veggspjalda herferð undir yfirskriftinni , ?Hvað er fjölskylda?? Veggspjaldið sýnir annars vegar tvær lesbíur ásamt fjórum börnum á heimili sínu en hins vegar hina barnlausu frú Merkel með eiginmanni í kvöldklæðnaði á leið í opinbera móttöku.

Ein milljón samkynhneigðra foreldra

?Í Þýskalandi er nálægt einni milljón samkynhneigðra foreldra,? segir talsmaður samtakanna, Halina Bendkowsky. ,?Meirihlutinn er lesbísk pör sem ekki njóta jafnréttis fyrir lögum. Það verður ekki þolað að börn samkynhneigðra foreldra séu skilin út undan.? Annar talsmaður samtakanna, Michael Schmidt, segir jafnframt: ?Bæði bókstafur og andi stjórnarskráinnar ná óumdeilanlega til allra barna hvort sem foreldrar þeirra eru samkynhneigð eða gagnkynhneigð.? Hann bætir við að það sé í hæsta máta ósvífið hvernig Angela Merkel reynir að telja mönnum trú um að börn samkynhneigðra eigi sér ekki fjölskyldu. ?Hún á eftir að sjá hvað hommar og lesbíur geta rótað upp miklu moldviðri ef hún beinir spjótum sínum að okkur.?

Ekki góðar tvíbökur

Að LSVD skuli beina spjótum að persónu frú Angelu Merkel þykja hins vegar ekki góðar tvíbökur í herbúðum hennar. Talsmaður Kristilegra demókrata, Norbert Geis, sagði til dæmis. ?Samtökin, eins og þau nefna sig, lifa í heimatilbúinni veröld og eru fórnarlömb eigin áróðurs og veruleikafirringar þegar þau líkja samlífi sínu við hjónaband.?

Michael Schmidt hefur aftur á móti þetta að segja um það af hverju persóna frú Angelu Merkel er beinlínis höfð að skotspæni: ?Hver sá sem traðkar á tilfinningum samkynhneigðra og ástvina þeirra þarf ekki að undrast þó viðbrögðin verði á persónulegum nótum.?

Þeir sem vilja kynna sér málflutning LSVD geta gert það á www.lsvd.de/presse Þeir sem vilja kynna sér málflutning frú Merkel og félaga geta gert það á www.cducsu.de/presse

Jón St. Kristjánsson, Berlín

Leave a Reply