Skip to main content
search
Fréttir

Stuðningur – ráðgjöf – leiðir til úrlausna – Félagsráðgjafi Samtakanna ´78

By 8. febrúar, 2001No Comments

Tilkynningar Samtökin ´78 bjóða upp á þjónustu félagsráðgjafa í húsnæði félagsins á Laugavegi 3. Anni G. Haugen annast þessa þjónustu og býður hún samkynhneigðum og aðstandendum þeirra upp á viðtöl og ráðgjöf fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði, kl. 16:30-19:30.

Þeir sem óska eftir viðtali við félagsráðgjafann geta haft samband við skrifstofu félagsins milli kl. 14-16 daglega þar sem framkvæmdastjóri tekur við bókunum. Með slíkar beiðnir svo og öll málefni skjólstæðinga er ætíð farið sem fyllsta trúnaðarmál. Anni G. Haugen á að baki langt og farsælt starf sem félagsráðgjafi, hún starfaði um árabil hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar en er nú félagsráðgjafi á Barnaverndarstofu.

Fólk leitar til félagsráðgjafa Samtakanna ´78 af mismunandi tilefni. Í fyrsta lagi er um að ræða einstaklinga sem eru að reyna að átta sig á kynhneigð sinni og glíma við þá spurningu hverjum og hvernig þeir eigi að segja frá því. Í öðru lagi leita foreldrar til ráðgjafarinnar, annaðhvort einir eða með samkynhneigðum börnum sínum. Erindið er þá oftast það að reyna að átta sig á því um hvað heimur samkynhneigðra snýst og hvernig þeir geti best stutt við bakið á barni sínu. Í þriðja lagi má nefna erindi af ýmsu tagi. Þar er til dæmis um að ræða lesbíur eða homma sem eru löngu komin úr felum en eru einmana og finnst erfitt að fóta sig í tilverunni, aðrir glíma við margvíslega lífskreppu og enn aðrir vilja vita vissu sína í réttindamálum.

Ýmsir samkynhneigðir kunna að segja frá því að þeir hafi einhvern tíma ævinnar hikað við að leita réttar síns innan félagslegra þjónustustofnana samfélagsins af ótta við höfnun og skilningsleysi. Ef svo er, þá er kjörið tækifæri að leita til félagsráðgjafa Samtakanna ´78 sem kann að leiðbeina lesbíum og hommum um rétt þeirra og möguleika og benda á úrlausnir í vanda.

Viðtalið við félagsráðgjafann kostar 1.500 kr. en félagsmenn í Samtökunum ´78 njóta afsláttar.

Leave a Reply