Skip to main content
search
Fréttir

Foreldrar og aðstandendur samkynhneigðra á Norðurlandi – Vetrarstarfið er hafið

By 20. október, 2004No Comments

Frettir Hópur foreldra og aðstandenda samkynhneigðra á Norðurlandi hóf starf á síðasta hausti og kom saman einu sinni í mánuði allan síðasta vetur. Þátttaka var mjög góð og kom í ljós að mikil þörf var og hafði verið fyrir vettvang þar sem aðstandendur lesbía, homma og tvíkynhneigðra gætu hist, fræðst og hjálpast að við að finna svör við gömlum og nýjum spurningum og fundið leiðir til að styðja börn sín í lífi og starfi. Þessi aðstandendahópur naut auk þess mikils stuðnings Norðurlandshóps Samtakanna 78, hóps homma og lesbía sem starfað hefur hér um slóðir undanfarin 3 ár.

Fólki sem á langt að sækja til Akureyrar eða á af öðrum sökum ekki heimangengt er bent á að unnt verður að vera í sambandi við hópinn í tölvupósti, venjulegum pósti og með símasambandi.

Markmið starfs í hópi foreldra og aðstandenda samkynhneigðra hér er eins og markmið FAS: Að hittast og deila hvert með öðru reynslu okkar, styrk og vonum. Við leggjum rækt við okkur sjálf og teljum að með því séum við betur aflögufær til að vera bakhjarlar við ástvini okkar. Við vinnum að fræðslu bæði opnum fundum og einnig innan okkar hóps. Markmið okkar er að efla umræðu í okkar nánasta umhverfi og út í samfélagið, til að auka skilning og þekkingu á samkynhneigð sem er fjölskyldumál.

Loks má geta þess að fulltrúar hóps foreldra og aðstandenda samkynhneigðra á Norðurlandi tóku þátt í Gay Pride 2004 í Reykjavík, bæði með foreldrahópnum FAS og Norðurlandsdeild Samtakanna 78, S78N.

Leave a Reply