Skip to main content
search
Fréttir

Íslandsdeild Amnesty International – Stofnun LGBT hóps

By 27. október, 2003No Comments

Frettir Frá upphafi 10. áratugs síðustu aldar hefur Amnesty International unnið sérstaklega að málefnum lesbía, homma, tvíkynhneigðra og kynskiptinga. Í því skyni hafa svokallaðir LGBT hópar (lesbian, gay, bisexual and transgender) verið stofnaðir víða um heim.

Víða er fólki mismunað sökum kynhneigðar sinnar og oft á tíðum er því refsað grimmilega. Amnesty International lítur á einstaklinga sem fangelsaðir eru eða sviptir frelsi sínu af þessum sökum sem samviskufanga. Þetta starf samtakanna hefur aukist mjög mikið undanfarið og áhersla verið lögð á að vera í nánu samstarfi við réttindasamtök lesbía og homma um allan heim. Samtökin hafa tvisvar tekið þátt í GayPride göngunni hér á landi og þannig minnt á mannréttindi samkynhneigðra og afstöðu Amneysti International hreyfingarinnar til málefna þeirra. Amnesty International á Íslandi hefur nú hug á að stofna LGBT hóp innan deildarinnar hér á landi.

Það er von okkar að sem flestir sjáir sér fært að taka virkan þátt í þessu starfi. Stofnfundur hópsins verður nánar auglýstur síðar.

_______________________________________________________

Amnesty International er alheimssamtök fólks sem berst fyrir mannréttindum. Starfsemin er byggð á vandlega unnum rannsóknum og mannréttindaviðmiðum sem viðurkennd eru í hinu alþjóðlega samfélagi. Samtökin eru óháð stjórnvöldum hvar sem er, stjórnmálastefnum, fjárhagslegum hagsmunum og trúarbrögðum.

Amnesty International fær sjálfboðaliða til starfa – fólk sem gefur tíma sinn og orku til að sýna fórnarlömbum mannréttindabrota samstöðu. Félaga samtakanna og stuðningsmenn er að finna í meira en 140 löndum. Við komum úr öllum áttum samfélagsins og höfum mjög ólíkar stjórnmálalegar og trúarlegar skoðanir, en sú ákvörðun sameinar okkur að vilja vinna að því að skapa heim þar sem allir njóta mannréttinda. Amnesty International stuðlar að því að auka virðingu fyrir Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna með því að grípa til aðgerða þegar grundvallarréttindi fólks eru fótum troðin.

Íslandsdeild Amnesty International var stofnuð 15. september árið 1974. Frá stofnun deildarinnar hefur fólk úr öllum þjóðfélagshópum tekið þátt í starfinu og unnið að framgangi markmiða Amnesty International. Starfsemi deildarinnar byggir fyrst og fremst á félagsgjöldum og sölu jólakorta. Til að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni hafnar deildin opinberu fé. Frá stofnun Íslandsdeildarinnar hafa grundvallarmarkmið hennar verið óbreytt þ.e. að hvetja fólk til þátttöku í aðgerðum til að ná fram jákvæðum breytingum til handa fórnarlömbum mannréttindabrota.

Íslandsdeild Amnesty International hefur stuðlað að aukinni þekkingu á mannréttindum hér á landi og haft jákvæð áhrif á líf fjölda fórnarlamba mannréttindabrota. Deildin byggir allt sitt starf á óhlutdrægni, sjálfstæði og alþjóðlegri samstöðu. Íslandsdeildin er vettvangur fyrir hinn almenna borgara til að hafa jákvæð áhrif á mannréttindaástandið í heiminum í dag. Félagar innan Íslandsdeildarinnar eru um 2.500 og um er að ræða einstaklinga úr öllum þjóðfélagshópum.

Skrifstofa Íslandsdeildar Amnesty International er að Hafnarstræti 15, 101 Rvk Skrifstofan er opin virka daga milli kl. 9-17

Sími á skrifstofu er: 551 6940
Fax á skrifstofu er: 561 6940
Netfang skrifstofu er: amnesty@amnesty.is< Veffang Íslandsdeildarinnar er: http://www.amnesty.is/

Leave a Reply