Skip to main content
search
Fréttir

Finnland – Ættleiðingar leyfðar?

By 23. september, 2003No Comments

Frettir Nefnd á vegum finnska Félagsmálaráðuneytisins mælir með því að ákvæði um stjúpættleiðingar og sameiginlega forsjá barna samkynheigðra verði bætt inn löggjöfina um staðfesta samvist þar í landi.

Hinn 28. september 2001 samþykkti þjóðþing Finnlands, Suomen Eduskunta, lög um staðfesta samvist fyrir pör af sama kyni. Lögin voru naumlega samþykkt á finnska þinginu með aðeins 15 atkvæða mun og varð Finnland þar með síðasta sjálfstæða Norðurlandaþjóðin til þess að samþykkja slíka löggjöf. Finnsku lögin eru í meginatriðum eins og löggjöf hinna Norðurlandanna á þessu sviði. Þó er sá hængur á að pör í staðfestri samvist í Finnlandi hafa ekki rétt til neins konar ættleiðinga líkt og á Íslandi og í Danmörku þar sem stjúpættleiðingar eru leyfðar. Nú er rætt um að breyta þessu með það fyrir augum að tryggja rétt barna sem alast upp í samkynheigðum fjölskyldum, enda er talið að þeim sé að mörgu leyti ábótavant við núverandi aðstæður. Nefnd Félagsmálaráðuneytisins telur að umræddar breytingar á löggjöfinni myndu bæta sálræna líðan og efnhagslegt og réttarfarslegt öryggi þeirra barna sem um ræðir. Ekki er þó rætt um að ganga skrefið til fulls og leyfa frumættleiðingar, en athygli hefur vakið að mælt er með því að samkynheigð pör fái rétt til þess að taka í fóstur börn náinna ættingja, til dæmis við fráfall foreldra. Þó enn sé langt í land að þessar breytingar nái fram að ganga þá eru orð til alls fyrst og vonandi að skriður komist á málið.

-HTS

Leave a Reply