Skip to main content
search
Fréttir

Litróf mannlegra tilfinninga

By 26. apríl, 2006No Comments

Hefur það gerst að einstaklingur sem hefur verið viss í sinni sök að hann sé samkynhneigður, allt í einu orðið hrifinn af þá gagnstæði kyni? Spurt: Þannig er mál með vexti að áður en ég komst á kynþroskaaldurinn þá voru það stelpur sem ég varð eins hrifinn og lítill polli getur orðið hrifinn. Síðan komst ég á kynþroskaaldurinn og mér fór að finnast strákar „sætari“ en stelpur og loksins dvínaði áhugi minn á stelpum og ég farinn að telja sjálfan mig samkynhneigðan. Ég sagði vinum mínum þetta og eignaðist gay vini líka.

Svo þegar ég var loksins búinn að safna nógu miklum kjarki til að segja foreldrum mínum þetta þá gerist það að ég verð hrifinn af stelpu. Þetta hefur nú í nokkra mánuði sett sálarlíf mitt á annan endann. Ég hef alltaf verið mjög hress strákur og er núna í blóma lífsins ef svo má segja, en þessa tilfinningar sem ég er að finna núna hafa dregið úr mér allan þrótt og ég er orðinn að ég tel alvarlega þunglyndur. Mér finnst eins og ég hafi svikið vini mína og logið að þeim með því að segjast vera samkynhneigður en svo orðið hrifinn af stelpu. Ég bara get ekki fengið sjálfan mig til að segja neinum þetta því að ég „skammast“ mín fyrir það.

Til að gera langt bréf stutt þá myndi spurning mín hljóma einhvern veginn svona: Hefur það gerst að einstaklingur sem hefur verið viss í sinni sök að hann sé samkynhneigður, allt í einu orðið hrifinn af þá gagnstæði kyni. Ég bara einfaldlega neita að trúa að ég sé einn af næstum sjö milljörðum manna sem hefur gengið í gegnum eitthvað svona. Hvað þá af þessum yfir 100 milljörðum sem talið er að hafi lifað á jörðinni.

Með fyrirfram þökk,
Átján ára mjög svo ringlaður drengur.

Svar: Þú ert sannarlega ekki einn um þessa reynslu þótt ómögulegt sé að nefna þér nokkrar tíðnitölur. Algengast er það að fólk afneiti eigin samkynhneigð og þvingi sig til að lifa gagnkynhneigðu lífi, en komi svo síðar út með sinn innsta mann. Þú hefur “öfuga” sögu að segja og það er gott og gilt, en sárt að lesa að þú skulir þjást af þeim sökum. Þunglyndi er það ástand sem hellist yfir okkur þegar við göngum í gegnum mikið álag og flóknar tilfinningar án þess að eygja útleið. Sem betur fer vinnur hugurinn að lausninni og þá léttir þunglyndinu, en stundum þurfum við hjálp til að komast út úr sjálfheldunni. Vonandi hefurðu einurð í þér til að leita þér að faglegri ráðgjöf ef þú telur að þú komist ekki hjálparlaust upp úr geðlægðinni. Samtökin ´78 vísa gjarnan á skilningsríka sálfræðinga ef þess er óskað. Ennig starfa menntaðir ráðgjafar á vegum félagsins sem þekkja vandamál eins og þitt, og þær bjóða upp á einkaviðtöl sem hafa hjálpað mörgum til að komast áleiðis. Umfram allt máttu ekki líta á tilfinningar þínar sem byrði, heldur sem verkefni til að takast á við og sættast við. Ef þú átt erfitt með að sjá að tilfinningar þínar séu þér annað en byrði, þá ræddu fljótt við kunnáttumanneskju sem getur hjálpað þér við að greiða þær í sundur.

Ég á kunningja sem lifði sem hommi frá því hann var tæplega tvítugur og þar til hann var að verða fertugur. Hann bjó með karlmanni um árabil og ég efaðist aldrei um að hann væri hommi, hafði ekki ástæðu til þess. Svo gerist það fyrir nokkrum misserum að hann verður ástfanginn af konu og þráði ekkert heitar en að verja lífinu með henni hvað hann gerði og nú eiga þau dreng saman og ég veit ekki til þess að hann sakni karlmanna tiltakanlega til ásta. Sennilega telur hann sig tvíkynhneigðan núna en áttaði sig seint á því að tilfinningar hans voru kannski samsettari en hann ætlaði eða sagði okkur félögum sínum frá. Þegar hann sagði mér þetta og ég sá hvað hann var glaður og í góðu jafnvægi gladdist ég með honum og fannst þetta hvorki skrýtið né flókið. En fann samt að hann átti erfitt með að segja mér þetta, hann var greinilega að búa sig undir að fara í vörn, hélt að ég myndi saka hann um að vera að „svíkja lit“. Kannski hafði hann mætt slíkum fordómum frá öðrum.

Einu svikin sem hér skipta máli eru þau að svíkja sjálfan sig og það vona ég að þú gerir aldrei. Ef þú vilt kvenfólk fremur en karlmenn til ásta, þá stattu við það. Ef fólk hæðist að þér, særir þig eða reynir að gera lítið úr tilfinningum þínum á einhvern hátt fyrir það, þá hefur þú aðeins einu að svara: „Vinátta við þig er ekki þess virði að rækta hana.“ Raunverulegir vinir eða góð fjölskylda standa með manni þó að leiðin til hamingjunnar sé stundum ekki bein og greið.

Þú spyrð hvernig maður viti með hvaða kyni maður vill verja ævinni með. Það veit maður ekki fyrr en maður mætir manneskjunum og fer að rækta samband við þær, lifa virku kynlífi, stofna til náinna kynna. Sá sem þetta ritar átti sjálfur í samböndum við stúlkur framan af ævi en áttaði sig svo á því að tilfinningar hans til pilta voru miklu sterkari. Í þínu tilviki skiptir það mestu máli að þú reynir að rekja það í sundur með sjálfum þér hvað er hvað í tilfinningum þínum. Er það girndin, ástríðan, öryggistilfinningin, félagsskapurinn sem vegur þyngst þegar þú reynir að meta samband þitt við stúlkuna sem þú ert hrifinn af. Kannski er það allt af þessu, kannski er eitt öðru sterkara. Hér er mikilvægt að átta sig á því hvað er hvað. Við sem lítum á okkur sem homma höfum yfirleitt reynt að hversu mjög sem við höfum átt konur að sálufélögum og vinum og liðið vel með þeim, þá beinist ástríða okkar og girnd umfram allt af karlmönnum og þar með talin þessi óviðráðanlega hrifning sem stundum kemur yfir mann og heitir að verða ástfanginn, hún grundvallast á girndinni, ástríðunum, og það er sammannlegt einkenni. Að þessu kemst maður ekki fyrr en maður lifir virku ástarlífi. Þá fær maður svör við mörgu, þá er eins og maður viti hvar maður „á heima“. Að sumir eigi heima á tveimur stöðum, í faðminum á konu og faðminum á karli, þýðir aðeins það að maður eigi kost á „tveimur heimilum“ ef svo má segja. Þar með er ekki sagt að maður finni þörf eða hvöt hjá sér til að „halda tvö heimili“. Síður en svo. Sumir telja að tvíkynhneigðir eigi erfiðara en aðrir af þessum sökum en það er ein af bábiljum og ranghugmyndum fólks um tvíkynhneigða. Þegar maður verður ástfanginn af einhverjum sem maður girnist þá hefur maður valið viðkomandi manneskju og það val stendur svo lengi sem neistinn logar á milli.

Sá sem les bréfið þitt veltir því meðal annars fyrir sér hvaða reynslu þú hafir af kynlífi. Það er nú einu sinni svo að þegar maður eignast slíka reynslu þá er eins og maður viti svo miklu betur hver maður er. Þegar sá sem hér svarar lá með karlmanni í fyrsta sinn þá fannst honum hann allt í einu vera „kominn heim“ og fann um leið að með konum hafði hann aldrei fyllilega „verið heima“ í ástum. Kannski sannfærist þú um það eftir að öðlast reynslu í kynlífi og ástum að þú sért „eins og heima hjá þér“ í í tvenns konar faðmi, jafnt kvenna og karla. Líttu á það sem góðan eiginleika. Þegar því kemur að velja þér lífsförunaut velur þú vonandi það sem þú sjálfur þráir mest en ekki það sem þú heldur að öðrum finnist rétt og gott fyrir þig.

Og hafðu þetta líka í huga: Ef þú sannfærist um það að þú sért tvíkynhneigður þá þýðir það engan veginn það að þú sért dæmdur til að vera á endalau
su „flandri“ milli karla og kvenna um alla framtíð. Þú velur þér ekki ákveðið kyn að lífsförunaut, þú velur þér ákveðna manneskju.

Þorvaldur Kristinsson

Leave a Reply