Skip to main content
Fréttir

Hinsegin dagar 2001 – Glæsileg hátíð í vændum

By 20. maí, 2001No Comments

Tilkynningar Undirbúningi að Hinsegin dögum 2001 í Reykjavík miðar markvisst áfram. Nú er nokkurn veginn búið að skipuleggja útitónleikana 11. ágúst en eiginlegur undirbúningur göngunnar hefst fyrir alvöru í byrjun júní. Þann 10. maí kom út miðbæjarkort í miklu upplagi sem kynnir ferðamönnum hátíðahöldin í ágúst og vekur athygli á stuðningsaðilum Hinsegin daga.

Samstarfsnefnd um Hinsegin daga 2001 í Reykjavík hefur fundað hálfsmánaðarlega frá því um áramót en nú þegar nær dregur herðir hún sóknina og kemur saman vikulega. Í samstarfsnefnd starfa saman fulltrúar úr nokkrum félögum og hreyfingum samkynhneigðra hér á landi, en allir eru velkomnir á fundina sem eru haldnir á mánudags-kvöldum á Laugavegi 3, kl. 20.

Hinsegin helgi á Akureyri

Sú hugmynd vaknaði í fyrra að efna til hinsegin hópferðar til Akureyrar á miðju sumri en ekkert varð af því, enda umsvifin ærin í Reykjavík. Nú hefur þessi góða hugmynd aftur verið vakin af svefni og ætlunin er að halda í rútulest norður heiðar í laugardaginn 23. júní til þess að halda þar hátíðlegan Christopher Street daginn, alþjóðlegan hátíðisdag samkynhneigðra, með dansleik á Dátanum, en svo nefnist efri hæðin í Sjallanum. Samstarfsnefndin væntir þess að eiga gott samstarf við systur okkar og bræður á Akureyri og halda fjörugt gay ball í samstarfi við þau aðfararnótt 24. júní. Norræna ferðaskrifstofan býður okkur hagstæðan pakka sem ýmist er bara rútuferð eða rútuferð og gisting. Leitið nánari upplýsingar á skrifstofu Samtakanna ´78 alla virka daga milli kl. 14-16, og bóka sig þar í ferðina.

Kvennaleikhús 10. ágúst

Þá mun leikkonan Mina Hartong heimsækja land og þjóð í ágúst og stíga á svið í Kaffileikhúsinu Hlaðvarpanum með sitt sjóv. Mina hefur notið mikilla vinsælda á gay pride hátíðum víða um Evrópu sem stand-up comedienne, en í Reykjavík mun hún spjalla við gesti á þann hátt sem lesbískum grínista úr New York er einni lagið og sýna brot úr leikverki sínu, Wet, Dykey and American. Vonandi taka hinsegin leikhúsunnendur vel á móti Minu Hartong í Hlaðvarpanum kvöldið fyrir aðalhátíðisdaginn.

Út úr skápnum ? út á torg

Í júlí kemur svo út dagskrárbæklingur Hinsegin daga með nánari kynningu á dagskráratriðum. Nú er um að gera að taka frá helgina í Reykjavík og stefna ættingjum og vinum í miðborgina laugardaginn 11. ágúst og á dansleikinn á Spot-Light um kvöldið. En á meðan við bíðum eftir okkar þjóðhátíð sem í ár er haldin um allan heim undir yfirskriftinni Fögnum fjölbreytni ? Embrace diversity, hvernig væri þá að hvert og eitt okkar setti sér það markmið að draga svo sem eina hinsegin sál, sem enn hefur ekki litið dagsins ljós, með þéttu en blíðlegu taki út úr skápnum þennan dag, niður á Laugaveg og út á torg. Því ef marka má rannsóknir umhverfisráðs er snöggtum vistvænna þar en heima í skápnum. Hvað segir ekki líka í þessum ævaforna húsgangi:

Skápinn sprengdi Sigurlinni,

og sagði heldur þröngt þar inni.

Leave a Reply