Skip to main content
search
Fréttir

Á bleiku nótunum – Alþjóðlegt kóramót lesbía og homma í Berlín

By 22. maí, 2001No Comments

Frettir Um þessar mundir stendur yfir í Berlín 10. alþjóðlegt kóramót homma og lesbía sem ber heitið Various Voices 2001. Hugmyndina að mótinu má rekja aftur til ársins 1985, en þá komu fjórir kórar saman í Köln og síðan hefur framtakið vaxið svo um munar. Nú í ár taka 70 kórar með samtals 1500 söngvurum þátt í mótinu og þenja sig á maraþonkonsertum um tæprar viku skeið. Fyrirtæki sem þetta er gríðarlega umfangsmikið og þrátt fyrir fjárhagslegan stuðning fyrirtækja og átta milljón króna framlags úr menningarsjóði Berlínarborgar (170.000 mörk), hefur mest af undirbúningsvinnunni hvílt á harkaliði áhugamanna sem varið hafa frítíma sínum, og stundum svefntíma, undanfarna mánuði í skipulagningu.

Verndari mótsins er dómsmálaráðherra landsins, Herta Daeubler-Gmelin, sem kallar það salt í graut hins opna, fordómalausa samfélags.

Geta og stíll þessara kóra er með ýmsu móti, hjá sumum gengur músíkölsk slípun fyrir öllu, en aðrir setja hið félagslega vægi kórstarfsins í öndvegi. En flestir eiga það sameiginlegt að kenna sig á einhvern hátt við samkynhneigðan uppruna sinn eða húmor samkynhneigðra og heita nöfnum eins og Rosa Cavaliere (Bleiku kavalerarnir) VielHOMOnie, PhilHOMOniker, Classical Lesbians, Rosa Noten (Bleikar nótur) að ógleymdum Deep C Divas, The Pink Singers og Sisters Ahoi!

Sem fyrr segir stendur mótið yfir í tæpa viku, en mánudaginn 21. maí var það sett með miklum glæsibrag í Friedrichstadtpalast. Það eitt að fá inni í Friedrichstadtpalast ljáir athöfninni sérlegan ljóma í augum Þjóðverja því þar troða ekki aðrir upp en stjörnur og aðeins stórsýningar í anda Las Vegas eru settar þar upp. Svipað fyrirkomulag var haft á og þegar áhugaleikfélög koma og sýna í Þjóðleikhúsinu: Undir er lagður frídagur hússins og allt verður að gerast á einum degi. Og víst er að aðstandendur, sýningastjórar og tæknimenn hafa unnið afrek með því að setja saman fjögurra stunda litríka og tæknilega flókna sýningu á einum degi.

Ekki sungu hinir 70 kórar við setninguna heldur samanstóð dagskráin af númerum frá Berlín sem hægt var að æfa og samstilla fyrirfram. Nokkrir Berlínarkórar tróðu vissulega upp með eigin atriði og til stuðnings sólóistum en þar fyrir utan gaf að heyra og sjá popp, big band músík, kammerhljómsveit svo og þekkta leikara og söngvara úr röðum homma og lesbía, eða uppáhalda þeirra, sem þarna komu fram. Stemningin var gríðarleg í fjóra tíma samfleytt og öll atriðin hyllt af ákafa, hvort heldur áttu í hlut atvinnumenn eða áhugafólk. Og eins þótt ekki væru allir yfirburðalistamenn í sinni túlkunarþrá. Því vissulega var listrænn staðall stundum upp og ofan. En þó ekki sé alltaf vakurt þótt riðið sé ? er aðalatriðið að það sé riðið.

Jón St. Kristjánsson, Berlín

Leave a Reply