Skip to main content
search
Fréttir

FSS – Vel heppnuð afmælisveisla

By 22. janúar, 2004No Comments

Frettir Það voru fjölmargir vinir og félagsmenn FSS sem komu til afmælisboðsins í Stúdentakjallaranum mánudaginn 19. jánuar, en þann dag átti FSS fimm ára afmæli. Boðið byrjaði klukkan fimm en nokkrir félagar höfðu mætt áður til þess að skreyta Kjallarann.

Eftirtektarverðast var án efa vinna hóps innan FSS sem hafði útbúið nokkurs konar annál félagsins á spjöldum um starf síðustu ára. Á spjöldunum var lítillega sagt frá atburðum og þau skreytt með ljósmyndum. Á meðan örstuttum ræðuhöldum stóð snæddi fólk marsípanköku og drakk með því kaffi og gos, enda þótti það mjög svo við hæfi í 5 ára afmæli! Eftir kaffidrykkju og ræðuhöld spiluðu Monica og Páll Óskar nokkur lög eins og þeim einum er lagið.

Afmælisgestum var þá boðið út að framanverðri Aðalbyggingu Háskólans til þess að sjá þegar hann yrði lýstur upp í regnbogalitunum. Þetta er í annað sinn sem FSS gerir þetta í tilefni afmælis síns, en með þessu er FSS að vekja athygli á tilveru sinni innan Háskólans. Þessi gjörningur var einnig fyrsti liður í Lista- og menningardögum Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Eftir afmælispartýið fóru félagsmenn og aðrir velunnarar félagsins á Vegamót til að fagna áfram afmælinu yfir góðum veigum. Kvöldið var svo nýtt í að kveðja félaga úr BLUS, systurfélagi FSS í Danmörku, sem hér voru í heimsókn.

Stjórn FSS þakkar öllum þeim sem sýndu félaginu stuðning og hlýhug á afmælisdaginn. Sérstaklega viljum við þakka vinum okkar og stuðningsaðilum bæði fyrir komuna og hlýan hug. Megi samstarf og vinátta okkar allra vera stuðningur fyrir félagið.

-Stjórn FSS

Leave a Reply