Skip to main content
search
Fréttir

Bandaríkin – Misskilningur varðandi varnargildi smokka

By 8. ágúst, 2001No Comments

Frettir Nýlega voru kynntar niðurstöður rannsóknar sérfræðingahóps á vegum National Institutes of Health (NIH) í Bandaríkjunum á varnargildi smokka gegn kynsjúkdómasýkingum. Rannsóknin fólst í því að skoðaðar voru niðurstöður 138 fyrri rannsókna á smokkanotkun og kynsjúkdómum og dregnar ályktanir um varnargildi smokka út frá þeim. Niðurstaðan sýndi að karlmenn, sem sögðust alltaf nota smokk, drógu úr líkum á HIV-smiti um 85%. Þá var sýnt fram á að smokkanotkun dró stórlega úr líkum á að smitast af lekanda. Niðurstöður hvað varðar aðra kynsjúkdóma voru ófullnægjandi. Í skýrslu sinni tekur hópurinn fram að fyrir utan langtímasamband tveggja ósmitaðra einstaklinga sé smokkurinn eina vörnin gegn HIV og lekanda fyrir þá sem lifa virku kynlífi.

Nokkurs misskilnings hefur gætt varðandi túlkun niðurstaðnanna, sérstaklega hvað varðar aðra kynsjúkdóma en HIV og lekanda. Hefur sú rangtúlkun komið fram að þarna sé varnargildi smokka gegn öðrum kynsjúkdómum, svo sem sárasótt, klamedíu, papilloma eða herpes, dregið í efa. Þetta er alls ekki svo. Hið rétta er að vegna skorts á gögnum var ekki hægt að draga neinar tölfræðilega marktækar ályktanir varðandi smokkanotkun og aðra kynsjúkdóma en HIV og lekanda. Þetta þýðir hins vegar alls ekki að varnargildi smokksins gegn þessum sjúkdómum hafi verið dregið í efa.

Samtök samkynhneigðra lækna í Bandaríkjunum hafa að þessu tilefni sent frá sér yfirlýsingu, þar sem mikilvægi smokkanotkunar er ítrekað. Vara þau jafnframt við meðvitaðri mistúlkun rannsóknarniðurstaðna í pólitískum tilgangi.

Fréttatilkynningu varðandi niðurstöður rannsóknarinnar er að finna á heimasíðunni http://www.hhs.gov/news/press/2001pres/20010720.html

Yfirlýsingu samtaka samkynhneigðra lækna er að finna á heimasíðunni http://www.glma.org/news/releases/n010723condoms.htm

Leave a Reply