Skip to main content
search
Fréttir

Ráðstefna á Akureyri – ?Hver er sá veggur??

By 11. apríl, 2005No Comments

Frettir Ráðstefnan ?Hver er sá veggur? var haldin á Akureyri föstudaginn 8. apríl sl. Hún fjallaði um samkynhneigð og tvíkynhneigð í skóla- og tómstundastarfi ungs fólks, um vandamál sem geta komið upp vegna kynhneigðar og um árangursríkar leiðir til úrbóta í þeim málum. Ráðstefnan var einkum ætluð fagfólki sem vinnur með ungu fólki svo sem kennurum, félagsráðgjöfum og leiðtogum unglinga í tómstunda- og íþróttastarfi á Norðurlandi. Þátttaka var til fyrirmyndar en um eitt hundrað manns mættu til leiks, kennarar, námsráðgjafar, tómstundaleiðtogar, hjúkrunarfræðingar og læknar svo og bæjarfulltrúar á Akureyri. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ráðstefna er haldin á Akureyri en kveikjan að henni var vel heppnuð ráðstefna af sama tagi sem haldin var á Selfossi vorið 2004.

Jón Már Héðinsson, skólameistari setti ráðstefnuna og minnti m.a. á það í ávarpi sínu á það að velferð samkynhneigðra unglinga væri ekkert einkamál hagsmunasamtaka þeirra heldur á ábyrgð okkar allra, ekki síst skóla og menntakerfis þessa lands. Sverrir Páll Erlendsson, menntaskólakennari sleit ráðstefnunni, en Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði fundi og leiddi umræður. Alls voru flutt átta erindi sem spönnuðu vítt svið. Mikla athygli vakti erindi Klöru Bjartmarz um samkynhneigða og íþróttir, en um þann þátt hefur ákaflega lítið verið fjallað á Íslandi.

Stutt ágrip úr erindum

Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri, fjallaði í fyrirlestri sínum um hugtökin kynhneigðarhroka (homophobia) og gangkynhneigðarrembu (heterosexism). Hún benti á að kynhneigðarhrokinn væri einstaklingbundin meðvituð tilfinningaviðbrögð við samkynhneigð, oftast merkjanleg en gagnkynhneigðarremban væri hins vegar menningartengt fyrirbæri, oftast dulið. Þar væri gengið út frá því að allir séu gagnkynhneigðir, annað hvorki umrætt né viðurkennt, jafnvel þótt í hópi séu samkynhneigðir, ekki um þá rætt og tilvist þeirra tæplega viðurkennd. Sigrún benti á nauðsyn þess að skólar og aðrar uppeldisstofnanir væru sterk vopn í baráttunni gegn þessu ástandi. Hún tók dæmi frá Bandaríkjunum og Kanada, þar sem ljóst væri sérstaklega að Kanadamenn nýttu vel samtök kennara til að koma á jafnréttisumræðu um kynhneigð og fræðsluefni um þessi mál væri áberandi meira í Kanada en annars staðar, ekki þyrfti annað en leita á vefnum til að sjá það. Þótt ýmislegt hefði áunnist í íslensku samfélagi mætti stórlega bæta ástandið með því að endurmennta kennara, sín reynsla væri sú að þegar manni opnaðist ný sýn á veruleikann þyrfi að aflæra gömul gildi og læra ný. Þetta væri ekki æskilegt heldur lífsspursmál.

Sara Dögg Jónsdóttir, grunnskólakennari og fræðslufulltrúi Samtakanna ´78, fjallaði í fyrirlestri sínum um vanda samkynhneigðra nemenda í skólum þar sem hvergi væri gert ráð fyrir að rætt væri um kynhneigð og þeir fyndu þar af leiðandi ekki að þeir væru í samfélagi sem væri þeirra eigið. Hún benti á nauðsyn þetta að fræðsla um kynhneigð kæmist inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla og yrði reglulega fjallað um hana, til dæmis í lífsleiknikennslu. Sara Dögg fjallaði líka um stöðu barna samkynhneigðra foreldra, sem á sama hátt skynjuðu ekki samfélag sitt í skólunum þar sem ekki væri minnst á fjölskyldumynstur þeirra. Hvor tveggja, börn samkynhneigðra og samkynhneigðir nemendur yrðu beint og óbeint fyrir aðkasti eða óþægindum vegna þessa. Í þriðja lagi minntist Sara Dögg á þann vanda sem samkynhneigðir kennarar eiga við að stríða. Sannleikurinn væri sá kennarar hefðu ekki átt þess kost að koma út úr skápnum af ótta við að missa vinnuna, rétt eins og kynhneigð þeirra væri smitandi sjúkdómur. Sem betur hefði viðhorf til samkynhneigðra kennara breyst til batnaðar á undanförnum árum og að minnsta kosti þekkti hún talsvert fleiri kennara hérna megin skáphurðarinnar en fyrir fáeinum árum.

Klara Bjartmarz, félagsfræðingur og starfsmaður Knattspyrnusambands Íslands, fjallaði um samkynhneigða og íþróttir. Meðal annars kom fram í máli hennar að samkynhneigð væri mjög viðkvæmt mál innan íþróttahreyfingarinnar, sérstaklega í flokkaíþróttum eins og knattspyrnu eða handbolta karla, þar sem þetta væru greinar þar sem atvinnumenn væru á mjög háum launum og óttinn við að fá á sig hommastimpil ógnaði atvinnuöryggi þeirra. Samt væri svo undarlegt að einmitt í þessum harðneskjulegu kraftíþróttum leyfðist karlmönnum frammi fyrir þúsundum manna og milljónum sjónvarpsáhorfenda að gera það sem körlum væri jafnan ekki leyft án þess að fá á sig umræddan stimpil, þ.e. að faðmast og kyssast og fagna árangri með meiri líkamlegri snertingu en annars staðar. Klara fjallaði einnig um hópíþróttir kvenna og erfiða baráttu þeirra við á ná fjölmiðlaathygli á jafnræðisgrundvelli. Hún tók sem dæmi auglýsingaherferð íslenska landsliðisns í fótbolta, sem hefði valdið undrun og jafnvel reiði jafnréttissamtaka, en haft þau áhrif að umfjöllun og áhorf hefði stóraukist. Hún benti á að samkynhneigðir veldu margir frekar einstaklingsíþróttir en hópíþróttir til að komast hjá vanda vegna kynhneigðar sinnar og fordóma. Erlendis væri talsvert um að haldin væru sérstök íþróttamót samkynhneigðra, en það hlyti að verða að setja stórt spurningarmerki við það hvort æskilegt sé að þeir loki sig þannig inni í íþróttaskápnum líka eða átak verði gert til að gera öllum jafnauðvelt að starfa í hefðbundum íþróttafélögum. Hún benti líka á undarlegar upplýsingar um þátttöku samkynhneigðra í stórmótum eins og Ólympíuleikunum. Í bandarískumm upplýsingum um Ólympíuleikana í Aþenu kæmi fram að keppendur hefðu verið 10.500 og í þeim hópi 7 samkynhneigðir. Forvitnilegt væri hvernig sú tala væri fundin, ekki síst í ljósi þess að 5-10% mannfólksins eru samkynhneigð.

Dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, flutti fyrirlestur sem hann kallaði Viðhorf almennings og samkynhneigð. Þar fjallaði hann á margvíslegan hátt um það hvernig viðhorf almenings til ólíklegustu málefna virðast mótast af aðstæðum, ekki síst trú, efnahag og þjóðfélagsástandi. Menning og grundvallargildi séu mismunandi eftir löndum og heimshlutum og geti breyst. Hann tók dæmi af viðhorfum til fjölmargra þátta, til dæmis til stjórnvalda, kynþáttamismunar, stöðu kvenna í samfélagi, fóstureyðinga og samkynhneigðar. Hann sýndi meðal annars fram á að breytingar á viðhorfum gætu tekið langan tíma og kannanir sýndu að jákvæð viðhorf til breytinga á fornum gildum virtust ganga hraðar og betur hjá þjóðum þar sem efnahagur væri góður og sátt og almenn lífshamingja mældist meira en annars staðar. Þannig væru viðhorf til mála eins og hjónaskilnaðar, fóstureyðinga, samkynhneigðar og þess að eiga samkynhneigða nágranna jákvæðari í löndum eins og á Íslandi og í nágrannalöndunum en neikvæðari að mun til dæmis í fyrrum austantjaldslöndum. Greinilegt væri að fordómar gegn samkynhneigðum væru mismiklir eftir löndum, en jafnljóst væri að stórlega hefði dregið úr þeim fordómum á Vesturlöndum á síðustu árum. Hins vegar stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvað kunni að gerast ef efnahagur breytist og allt fer til hins verra, velmegunin hrynur. Stöndum við þá hugsanlega frammi fyrir vaxandi fordómum gegn þeim sem hafa hlotið jákvæða meðferð í góðærinu? Þarf þá aftur að fara að berjast hatrammri baráttu fyrir grundvallarrétindum samkynhneigðra, lifa söguna upp á nýtt?

Harpa Njáls, félagsf
ræðingur og formaður FAS, Samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra,
fjallaði í sínum fyrirlestri um mikilvægi þess að foreldrar og aðstandendur samkynhneigðra stæðu saman og stæðu með börnum sínum, hommum, lesbíum og tvíkynhneigðum, sem kæmu út úr skúmaskotum lífs síns og auðvelduðu þeim á sem flestan hátt að vera það sem þau væru, tilbrigði við litróf lífsins miklu frekar en minnihlutahópur. Hún fjallaði um aðdragandann að stofnun FAS og starf þeirra, til dæmis tveggja ára samstarf við Prestafélag Íslands, en haldin hafa verið þrjú málþing um samkynhneigð, trú og kirkju, meðal annars vegna þess að kirkjan hefur ekki verið tilbúin að taka við þeim sem opinberað hafa samkynhneigð sína jafnt og öðrum þegnum samfélagsins. Harpa benti líka á að samkynhneigð væri ekkert einkamál og ekki heldur fjölskyldumál vegna þess að hún snerti svo marga. Ef miðað væri við hóflegustu tölur og sagt að 5% landsmanna séu samkynhneigðir, 15% þeirra eigi eitt barn, þeir eigi foreldra á lífi og afa eða ömmu og eitt systkini þá sé fjöldi þeirra sem tengjast samkynhneigðum með þessu móti um 75.000 manns á Íslandi í dag, eða fjórðungur þjóðarinnar. Ef dæmið sé gert raunverulegra, reiknað með því að hver samkynhneigður eigi tvö systkini og bæði afa og ömmu á lífi, föðurbróður og móðursystur, tvo góða vini og 5 vinnu- eða skólafélaga sem virði hneigð þeirra, þá standi talan nærri 260.000 manns eða 90% þjóðarinnar.

Ásta Ósk Hlöðversdóttir nemandi við Háskóla Íslands og formaður FSS, félags STK stúdenta fjallaði í sínum fyrirlestri um feril sinn, að vera sveitastelpa, sem fann það strax frá bernsku að hún var einhvern veginn öðruvísi en aðrar stelpur, gekk í sveitaskóla og upplifði heiminn með vinkonum, áttaði sig þegar í menntaskóla var komið á því að hún var ekki eins og allt þetta gagnkynhneigða fólk heldur var hún lesbía, en ákvað samt að bíða, láta ekki vita af því hvorki í skólanum né heima fyrr en hún færi enn lengra í burtu. Og allt þetta þrátt fyrir að einmitt á þeim tíma hafi verið mjög jákvætt landslag í MA, hópur af samkynhneigðum krökkum sem hittust og spjölluðu og allir vissu um. Að hluta til hefði þetta verið vegna fjölskyldunnar, hvað segðu foreldrarnir í sveitinni eða litla systir í 1. bekk. Því tryggilegar sem hún lokaðu skápnum hefðu einkunnirnar hækkað, en samt hefði hún komist að því í lok skólans að einhverjir vissu um hana. En að loknu stúdentsprófi hefði hún skipt um lífsstíl, skipt um útlit og gengið út úr skápnum þegar komið var til Reykjavíkur ? og síðan hefði nauðsynin knúið hana til að gera fjölskyldunni grein fyrir öllu þegar hún fór norður til Akureyrar í hópi félaga sinna í FSS. Fjölskyldan þyrfti vissulega sinn tíma til að melta það sem hún hefði sjálf verið búin að melta með sér árum saman, en það hefði gengið á endanum. Hins vegar væri fjarlægðin við sveitina viðfangsefni framtíðarinnar. Ef til vill ætti hún afturkvæmt í fámennið þegar hún hefði myndað sína eigin fjölskyldu og komið sér fyrir í starfi, sem hún gæti jafnauðveldlega unnið í fámenninu og öngþveitinu. Þar lægi framtíðin, ekki síst ef það tækist, sem verið er að vinna að, að fordómar minnkuðu eða hyrfu.

Valur Helgi Kristinsson, læknir, fjallaði um viðhorf heilbrigðisstéttanna til samkynhneigðar. Hann sagði að í heilbrigðisnámi væri nánast ekkert fjallað um samkynhneigð. Sjálfur hefði hann ekki heyrt á hana minnst í sínu námi nema rétt í tengslum við alnæmi. Þögnin um samkynhneigðina væri vissulega vandamál, en það væri auðvitað nauðsynlegt að læknum og öðru hjúkrunarfólki væri kennt að ræða um þessi mál. Læknar veigruðu sér við að taka skýrslur af sjúklingum um kynhneigð eða kynhegðun. Sýnilegt væri í skýrslum og könnunum erlendis að sumum læknum þætti óþægilegt að meðhöndla samkynhneigða en óöryggi og kunnáttuleysi væri slæmur fylgifiskur í svona stofnun og starfi. Þess vegna væri gagnkynhneigðarremban mjög áberandi ? að ræða málin alls ekki og ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut að allir séu gagnkynhneigðir. Valur nefndi ýmsa sjúkdóma og vandamál sem hommar og lesbíur ættu við að stríða og þyrftu að vera á varðbergi, jafnvel umfram aðra, en sókn þeirra til heilbrigðisstéttanna væri því miður minni en æskilegt væri. Hann sagði að það hlyti að vera liðin tíð að samkynhneigð væri dómur, sjálf erfðasyndin. Meðhöndlun á svokallaðri kynvillu eins og óbeitarmeðferð, hormónakúrar, gelding og heilahvelsskurður heyrði sögunni til og samkynhneigð væri ekki lengur álitin geðsjúkdómur. Hins vegar ættu heilbrigðisstéttirnar langt í land að menntast og þjálfast í réttlætanlegri umgengni við samkynhneigða.

Þorvaldur Kristinsson, bókmenntafræðingur og fyrrum formaður Samtakanna ´78, nefndi fyrirlestur sinn Hvar á ég heima? Um flóttann úr sveitunum, flóttann á mölina og flóttann frá lífinu. Hann tók mið af því þegar hann var sjálfur kaupstaðardrengur fyrir norðan og ræddi um þá breytingu sem orðin væri að unglingar, jafnvel í fámennum byggðum, gætu nú komið úr felum og lifað á sínum forsendum, eins og dæmin sönnuðu. En ekki væri styrjöldin öll unnin, aðeins nokkrar orrustur. Hann vísaði í því efni til bréfs sem ungur piltur skrifaði skólastjóranum sínum í sveitinni fyrr í vetur og sagði þar frá reynslu sinni af að hafa verið samkynhneigður nemandi í skóla þar sem aldrei var minnst á homma eða lesbíu eða að neitt væri til í kynhneigðarefnum sem hann hefði getað samsamað sig við. Pilturinn hefði í bréfinu lýst einsemd sinni og vanlíðan og óskað þess að einhvern tíma hefði í skólanum verið talað um heiminn og lífið sem hann væri hluti af. Þorvaldur tók mið af öðrum nemanda í fámennum skóla sem hefði þurft að þola einelti og illa meðferð vegna kynhneigðar sinnar, en síðan flutt í annan kaupstað og þá fengið tækifæri til að sýna sjálfum sér og öðrum að hann gæti lært og staðið sig vel í skóla, og ekki síst notið góðs lífs og velgengni eins og annað fólk ?þó að? hann væri hommi. Þorvaldur nefndi jafnframt hversu hættulega stutt væri frá vanlíðan eins og þessir ungu menn hefðu nefnt til þess að taka einföldu leiðina og svipta sig lífi. En mitt í þeim hremmingum væru ljós á veginum. Aukin umræða og vaxandi þekking fólks á því hvað það þýddi að vera hommi, lesbía eða tvíkynhneigður væri afar mikilvægt vopn. Það hlyti til dæmis að vera lífspursmál fyrir stað eins og Akureyri og Norðurland að hér skuli starfa hópur samkynhneigðra, hér skuli vera vaxandi ungliðahópur auk þess sem hér starfaði félag foreldra og aðstandenda. Auk þess væri jákvæð afstaða skólanna og vaxandi áhugi á fræðslu og endurmenntun á þessu sviði mjög jákvætt. Þess vegna væri nútíðin mun bjartari en fortíðin og mikið væri að vinnast þessi misserin í réttindamálum samkynhneigðra.

Fyrirlestur Þorvaldar er birtur í heild sinni hér á vefsíðunni, sjá Greinar ? Fyrstu skrefin, vitund og veruleiki

Veg og vanda að ráðstefnunni Hver er sá veggur? áttu Norðurlandshópur Samtakanna ´78 í samvinnu við Félag foreldra og aðstandenda samkynhneigðra á Norðurlandi.

?HTS

Leave a Reply