Skip to main content
search
Fréttir

Staðfest samvist og hjónaband

By 26. apríl, 2006No Comments

Er staðfest samvist alveg það sama og venjulegt hjónaband? Núna megið þið ættleiða börn, hver er þá munurinn? Spurt: Er staðfest samvist alveg það sama og venjulegt hjónaband? Núna megið þið ættleiða börn, hver er þá munurinn?

Svarað: Samkvæmt lögum svarar staðfest samvist fólks af sama kyni til hjónabands, með öllum þeim réttindum og skyldum sem hjónabandi fylgja. Þó eru á þessu nokkrar takmarkanir. Aðili í staðfestri samvist getur ættleitt barn maka síns ef hann hefur deilt forsjá barnsins með makanum. Þá er um að ræða barn sem ekki á annað foreldri sem sinnir skyldum og ábyrgð gagnvart því. Par í staðfestri samvist getur hins vegar ekki ættleitt barn þeim óskylt með því sem kallað er frumættleiðing. Svo að á möguleika para í staðfestri samvist til ættleiðingar eru ennþá umtalsverðar takmarkanir Þá er tveimur konum í staðfestri samvist ekki mögulegt að njóta opinberrar þjónustu sjúkrastofnana til tæknifrjóvgunar. Rétturinn til tæknifrjóvgunar og frumættleiðingar barna eru tvö nærtæk baráttumál samkynhneigðra hér á landi þegar til nánustu framtíðar er litið. Lög um staðfesta samvist hafa nú verið samræmd milli fjögurra Norðurlanda, þannig að íslenskt par, sem hefur staðfest samvist sína hér á landi og flytur til Noregs, Svíþjóðar eða Danmerkur, nýtur sömu sambúðarréttinda þar og á Íslandi. Sama mun einnig gilda um Holland, en annars staðar er þessi íslenski löggerningur ekki í gildi ef par í staðfestri samvist flyst búferlum til annarra landa.

Alfreð Hauksson

Leave a Reply