Skip to main content
search
Fréttir

KALDAR KVEÐJUR FRÁ BISKUPI ÍSLANDS

By 5. janúar, 2006No Comments

Í tilefni jólahátíðarinnar færði ungliðahópur Samtakanna 78 biskupi Íslands, herra Karli Sigurbjörnssyni, að gjöf hlýjan ullartrefil í regnbogalitunum og kvikmyndina Hrein og bein með kærri kveðju og ósk um gagnkvæma virðingu á nýju ári. Biskup svaraði í nýárspredikun í Dómkirkjunni með því að sýna þá liti sem fátt eiga skylt við regnbogann. Hann hnykkti síðan á skoðunum sínum í viðtali á NFS með því að segja hvað varðaði kröfu samkynhneigðra um blessun og lögformlega vígslu þeirra í kirkju að hann teldi “hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana”. Í tilefni jólahátíðarinnar færði ungliðahópur Samtakanna ´78 biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, að gjöf hlýjan ullartrefil í regnbogalitunum og kvikmyndina Hrein og bein með kærri kveðju og ósk um gagnkvæma virðingu á nýju ári. Biskup svaraði í nýárspredikun í Dómkirkjunni með því að sýna liti sem fátt eiga skylt við regnbogann. Hann hnykkti síðan á skoðunum sínum í viðtali á NFS með því að segja hvað varðaði kröfu samkynhneigðra um blessun og lögformlega vígslu þeirra í kirkju að hann teldi „hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana“.

Í predikun sinni lék biskup tveimur skjöldum, hann lýsti yfir stuðningi við réttarbætur til handa samkynhneigðum þar til hann vék að hjónabandinu og lét svo um mælt að það ætti „að njóta vafans” þegar kæmi boðuðum tillögum Guðrúnar Ögmundsdóttur á Alþingi um að heimila forstöðumönnum trúfélaga að staðfesta samvist samkynhneigðra para, með sömu lögformlegu áhrifum og þegar sýslumennn og fulltrúar þeirra eiga í hlut.

STUÐNINGUR VIÐ EINSTAKLINGA – EN EKKI PÖR?

Þó tók steininn úr þegar biskup kvað upp úr með þá skoðun sína í viðtali á NFS, að hann teldi „hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana“. Er það almenn skoðun samkynhneigðra að lítill hugur hljóti að fylgja máli þegar biskup kveðst í predikun sinni ítreka það að „þjóðkirkjan stendur heilshugar með samkynhneigðum sem einstaklingum og réttindum þeirra í samfélaginu“. Í viðtali við ríkissjónvarpið 2. janúar sagði formaður Samtakanna ´78, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að því tilefni: „Ætla mætti að biskup hafi gripið í gamla ræðu og skotið vitlausri rakettu á loft í nýársfárinu. Kannski eru það fréttir fyrir hann og þá kirkju sem hann talar fyrir að hjónaband samkynhneigðra, þ.e staðfest samvist, er nú þegar staðreynd og hefur verið það í tæpan áratug án þess að hafa haft nokkur áhrif á hjónabönd yfirhöfuð í þessu landi.“

GESTGJAFINN VILL EKKERT MEÐ MIG HAFA

Ummæli biskups í nýárspredikuninni og sjónvarpsviðtalinu hafa vakið hörð viðbrögð lesbía og homma og fjölskyldna þeirra og munu fjölmargir þeir, sem láta sig kirkju og kristni varða, hafa gert sér ferð á Hagstofu upp úr áramótum til þess að ganga úr þjóðkirkjunni – í aðrar kirkjudeildir eða til að standa utan trúfélaga á meðan samkynhneigðir eru látnir „njóta“ vafans á Laugavegi 31. Samkynhneigðir hafa almennt látið svo um mælt að ekki verði lengur setið undir skilaboðum sem ekki viti sitt rjúkandi ráð og afhjúpi í rauninni hörðustu fordóma. M.a. lýsti Ragnhildur Sverrisdóttir því yfir í grein í Morgunblaðinu 3. janúar sem síðan birtist hér á vefsíðunni, að hún hefði við þessar kveðjur gengið úr þjóðkirkjunni. Mál sitt rökstuddi Ragnhildur þannig: „Lengi vel taldi ég mér trú um að ég ætti kirkjuna mína sjálf og að yfirlýsingar einstakra starfsmanna hennar skiptu ekki máli. Til lengdar finnst mér hins vegar niðurlægjandi og lýjandi að sækja boð gestgjafa sem augljóslega vill ekkert með mig hafa, þótt ekki hafi hann kjark til að segja það berum orðum. Og jafnframt ber mér skylda til að vera dætrum mínum góð fyrirmynd. Það geri ég ekki með því að selja sjálfsvirðingu mína fyrir einstaka messu, þótt í góðri sókn sé.“

Nú spyrja samkynhneigðir þessa lands sig að því hvaða hvaða flugelda megi vænta úr skotfærakassa biskupsstofu á þrettándanum.

–ÞK

Leave a Reply