Skip to main content
search
Fréttir

Stöndum vörð um starf Samtakanna ´78 – Munið félagsgjöldin 2002

By 26. janúar, 2001No Comments

Tilkynningar Nú stendur yfir innheimta félagsgjalda í Samtökunum ´78 eins og venjulega í byrjun árs. Þau eru 3000 kr. á ári, en námsmenn, öryrkjar og ellilífeyrisþegar greiða 75% þeirrar upphæðar eða 2250 kr. Í janúar eru sendir út gíróseðlar til allra félaga í Samtökunum ´78 á liðnu ári og þeir hvattir til þess að greiða.

Að gerast félagi og greiða félagsgjöld er grundvöllur þess að hægt sé að sinna daglegum rekstri í félaginu og halda úti menningar- og félagsstarfi. Það kostar rúmlega eina milljón króna að reka félagsmiðstöðina á ári og er þá átt við afborganir af lánum, hita, rafmagn og fasteignagjöld. Markmiðið er að félagsgjöldin standi fyllilega undir þessum kostnaði. Húsnæði félagsins er hreyfingu okkar ótrúlega þýðingarmikið, það er grundvöllur alls okkar starfs, enda býður það allar hreyfingar og félagasamtök samkynhneigðra velkomin til fundarhalda á sínum vettvangi.

Félagar njóta ýmissa fríðinda í þeirri þjónustu sem Samtökin ´78 bjóða upp á. Þeir fá Samtakafréttir sendar heim eins og aðrir áskrifendur, þeir greiða lægra gjald en aðrir á bókasafni fyrir útlán og fá félagsafslátt af ýmiss konar annarri þjónustu á vegum Samtakanna, t.d. viðtölum hjá félagsráðgjafa.

Nýir félagar geta skráð sig í Samtökin ´78 með því að fylla út eyðublað næst þegar þeir heimsækja félagsmiðstöðina. Einnig er hægt að hringja og fá umsóknareyðublað og gíróseðil sent heim í pósti. Skrifstofan er opin daglega milli kl. 14-16. Munum að án þess stuðnings sem felst í félagsgjöldunum er ekki hægt að reka húsnæði, halda úti félagsmiðstöð, bókasafni og aðstöðu fyrir margvíslega þjónustu. Hreyfing okkar er orðin ótrúlega öflug en styrkur hennar felst í samábyrgð okkar allra.

Leave a Reply