Skip to main content
search
Fréttir

MANNRÉTTINDAVERÐLAUN SAMTAKANNA ´78 VEITT Í ANNAÐ SINN

By 28. júní, 2008No Comments

Haldið var upp á þrjátíu ára afmæli Samtakanna ´78 í Hafnarhúsinu í gær. Fjölmennt var og mikil gleði og litadýrð og fjölmargir listamenn tróðu upp í tilefni dagsins. Meðal atriða kvölsins var afhending Mannréttindaverðlauna Samtakanna ´78, en þau voru veitt í annað sinn og hlutu þau Böðvar Björnsson, séra Bjarni Karlsson og félagið Siðmennt þau að þessu sinni.

Haldið var upp á þrjátíu ára afmæli Samtakanna ´78 í Hafnarhúsinu í gær. Fjölmennt var og mikil gleði og litadýrð og fjölmargir listamenn tróðu upp í tilefni dagsins. Meðal atriða kvölsins var afhending Mannréttindaverðlauna Samtakanna ´78, en þau voru veitt í annað sinn og hlutu þau  Böðvar Björnsson, séra Bjarni Karlsson og félagið Siðmennt þau að þessu sinni.

Hér að neðan er ræða Kristínar Viðarsdótur og Hilmars Magnússonar sem flutt var við varðlaunaafhendinguna.

MANNRÉTTINDAVERÐLAUN SAMTAKANNA ´78

Mannréttindaverðlaun Samtakanna ´78 eru í kvöld veitt í annað sinn. Verðlaunin eru hugsuð sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framlag í þágu jafnréttis og mannréttinda, því þó svo að Samtökin´78 hafi verið áberandi í íslensku þjóðlífi síðustu 10-15 árin hefur það ekki alltaf verið svo og hér áður fyrr mátti hinsegin fólk verma jaðar þjóðfélagsins. Í dag hefur jaðarinn í síauknum mæli flust til og segja má að hann sé kominn inn á miðjuna. Samt megum við ekki gleyma andstreymi liðinna ára. Þekking og virðing fyrir hinu liðna er lykilinn að velsæld okkar í nútímanum og fortíðinni megum við því alls ekki gleyma.

Á þeim 30 árum sem liðin eru frá stofnun Samtakanna 78 hefur ótrúlega margt áunnist á Íslandi í málefnum hinsegin fólks. Fjölmargir einstaklingar, innan og utan félagsins, hafa þar lagt þar gjörva hönd á plóg og tvo þeirra viljum við heiðra hér í kvöld auk einna félagasamtaka.

Einn þessara manna er Böðvar Björnsson. Á fyrstu árum félagsins var hann burðarás í starfseminni og gaf sig óskiptur í starf félagsins. Hann sinnti einnig fræðsulstarfi á vegum Samtakanna ´78 þar sem alnæmisvarnir komu mikið við sögu. Hann var einnig ötull við greinarskrif í dagblöð og gaf meðal annars árið 1993 út ljóðabókina Önnu Frík sem hverfist um líf og tilfinningar hommans. Það er mörgum í fersku minni þegar Böðvar kom fram í sjónvarpsviðtali snemma á níunda áratugnum, sallarólegur og yfirvegaður þannig að til þess var tekið. Þetta hefðu ekki allir leikið eftir á þessum tíma enda trúðu ekki allir á að með sýnileikanum myndu við vinna okkar stærstu sigra. Böðvar var einn þeirra sem gekk fram fyrir skjöldu og lagði mikilvægt lóð á vogaskálarnar til að rjúfa þagnarmúrinn sem umlukti tilvist hinsegin fólks.

Sigrar eru aldrei unnir án bandamanna. Þessi setning kemur upp í hugann þegar nafn séra Bjarna Karlssonar í Laugarneskirkju er nefnt. Bjarni er einn þeirra manna sem gert hafa sér far um að opna umræðuna á vettvangi Þjóðkirkjunnar, löngu áður en megin þorri kirkjunnar manna vildu hina bleiku Lilju kveðið hafa. Það er ekki nóg með að Bjarni hafi verið í fylkingarbrjósti þeirra afla innan kirkjunnar sem opna vildu faðm sinn fyrir öllum þeim sem undir regnboganum dvelja. Hann hefur nefnilega einnig látið að sér kveða á hinum akademíska vettvangi en hann ritaði meistaraprófsritgerð árið 2007 við Háskóla Íslands þar sem hann rökstyður að hjónabandið skuli standa öllum fullveðja einstaklingum opið. Ritgerð Bjarna ber yfirskriftina ,,Gæði náinna tengsla”. Fyrir hinsegin fólk hafa tengslin við Bjarna verið mikilvæg og fyrir þau viljum við þakka.

Viðhorf eru mikilvæg. Sennilegast hefur ekkert eitt afl öðru fremur upplýst og breytt viðhorfum vesturlandabúa meira í átt til jafnréttis og bræðralags eins og siðræn húmanismi, sú hugmyndafræði sem Siðmennt vinur eftir og stendur fyrir. Þeirra aðalsmerki er frelsi og þekking, mannvirðing og samábyrgð. Siðmennt hefur svo sannarlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar til þess að hinsegin fólk gæti notið þeirra til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Alltaf þegar orðræðan um samkynhneigða og réttindi þeirra hefur staðið sem hæst hafa Samtökin ´78 og hinsegin fólk mátt reiða sig á stuðning Siðmenntar. Og alltaf þegar lagafrumvörp um aukin réttindi samkynhneigðra hafa verið lögð fram á Alþingi hefur Siðmennt ávalt sent frá sér jákvæðar umsagnir og stuðningsyfirlýsingar. Veraldlegar athafnir hafa í auknum mæli verið vettvangur Siðmenntar og í þeim hefur félagið kappkostað að mismuna engum, hvort sem um er að ræða fermingar, nafngiftir, greftranir eða giftingar.  Nei, Siðmennt gerir ekki upp á milli ástarsambanda og leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð. Þannig verða samkynhneigð pör að hjónum í sömu stöðu og þau gangkynhneigðu í augum húmanista. Ástin ræður. Samtökin ´78 þakka nú Siðmennt fyrir áratugalangan stuðning.

Mynd: Séra Bjarni Karlsson prestur í Laugarneskirkju, Hope Knútsson formaður Siðmenntar, Bövar Björnsson og Hrafnkell Stefánsson en sá síðast nefndi hlaut þakklætisviðurkenningu frá stjórn Samtakanna ´78 fyrir störf sín sem framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, en hann lætur nú af störfum eftir fimm ára starf hjá félaginu.

 

 

 

 

Leave a Reply