Skip to main content
Fréttir

Bandaríkjaforseti bregst við nýföllnum hæstaréttardómi

By 1. ágúst, 2003No Comments

Frettir Bandarískir hægrimenn eru mjög uggandi yfir þróun mála vegna aukinna réttinda samkynhneigðra þar í landi. Nýfallinn hæstaréttardómur, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að bann við samförum samkynhneigðra karlamanna brjóti gegn stjórnarskrá landsins, kom eins og köld vatnsgusa framan í bandaríska íhaldsmenn.

Í Bandaríkjunum hefur Vermont lögleitt staðfesta samvist og Massachusetts íhugar sömu aðgerð núna. Þingmenn repúblikana í Washington D.C. hafa lagt til að ákvæðum verði aukið í stjórnarskrána sem setji bann við staðfestri samvist / hjónaböndum samkynhneigðra í gjörvöllum Bandaríkjunum þó svo að skoðanakannanir sýni að andstaðan gegn slíkum lagasetningum fari dvínandi með hverju ári sem líður. Að öðru leyti er það á valdi einstakra fylkisþinga að setja lög um slík mál. Bush forseti lýsti því yfir af þessu tilefni að lögfræðingar ríkisstjórnarinnar væru að kanna möguleika á að vernda hið hefðbundna hjónaband. Í orðum forsetans felst í rauninni andstaða við hjúskaparlög samkynhneigðra enda mun hann þar fylgja íhaldsarmi Repúblíkanaflokksins að máli. Samt veigraði forsetinn sér við því á blaðamannafundi nú á dögunum að lýsa yfir almennri andstöðu við mannréttindi samkynhneigðra en talaði í því sambandi um ?opna og vinsamlega afstöðu? gagnvart þeim. Ekki fylgir sögunni hversu langt sú vinsemd eigi að ganga.

Sjálfur sækir Bush sitt kjarnafylgi til kristilegra íhaldsmanna, enda er hann sjálfur strangtrúaður meþódisti og ?endurfrelsaður? eins og hann hefur sjálfur margsinnis lýst yfir. Bush er samt sem áður nokkur vandi á höndum, enda mun hann þurfa á stuðningi frjálslyndara fólks að halda vilji hann ná kjöri í forsetakosningunum að ári. Á umræddum blaðamannafundi reyndi hann því að sigla milli skers og báru og koma í veg fyrir að missa stuðning frjálslynds fólks. Enginn vafi er hins vegar á því að núverandi stjórnvöld í Washington eru mun fjandsamlegri í garð samkynhneigðra en stjórn Clintons sem á undan sat. Í síðustu kosningabaráttu gekk Bush jafnvel svo langt að neita að ræða við félag samkynhneigðra Repúblíkana – sína eigin flokksfélaga – sem þó vildu styðja hann til þess að ná kjöri! Frelsiselskandi fólki ætti því ekki að koma núverandi afstaða forsetans mjög á óvart, ekki frekar en fordómafullt heróp Páfagarðs gegn auknum réttindum samkynhneigðra og greint hefur verið frá í féttum.

? HTS, ? ÞK

The New York Times, BBC og Morgunblaðið

Leave a Reply