Skip to main content
Fréttir

Forval Demókrataflokksins – Stuðningur samkynhneigðra gæti ráðið úrslitum

By 7. janúar, 2004No Comments

Frettir Nú styttist óðum í að ljóst verði hver hlýtur útnefningu demókrata í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna í haust. Flest bendir til þess að Howard Dean, læknir og fyrrum ríkisstjóri í smáríkinu Vermont, verði fyrir valinu og muni etja kappi við George W. Bush í slagnum um Hvíta húsið.

Fyrir um ári síðan var Dean nær óþekktur stjórnmálamaður en hefur á aðeins örfáum mánuðum náð forystu gegn mun þekktari frambjóðendum demókrata. Hann er ekki aðeins efstur í flestum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu heldur hefur einnig náð að safna mestu fé til kosningabaráttunnar, en slíkt þykir ávalt góð vísbending um það hver muni að lokum bera sigur úr býtum. Þennan ævintýralega árangur á hann hins vegar ekki síst að þakka frjálslyndri afstöðu sinni til málefna samkynhneigðra, en sem ríkisstjóri í Vermont skrifaði hann undir lög sem heimila borgaralegar giftingar samkynhneigðs fólks.

Stuðningur samkynhneigðra skipti sköpum

?Í upphafi kosningabaráttunnar, bæði í fjársöfnunum og öðru skipulagi, var baráttan byggð á stuðningi samfélags samkynhneigðra? er haft eftir Stephanie Schiock fjármálastjóra framboðsins. Þessi stuðningur er nú talinn hafa skipt sköpum enda höfðu fáir trú á framboðinu og hinum nær óþekkta Howard Dean.

Að vonum hefur Dean uppskorið jákvæða athygli í fjölmiðlum samkynhneigðra svo sem eins og the Advocate, A&U og Lesbian News og þáði hann meðal annars að skrifa ritstjórnargrein á hina samkynhneigðu vefsíðu PlanetOut.com. Þessi mikla athygli hefur stuðlað að því að hommar og lesbíur hafa myndað óformlegt stuðningsnet um allt landið og talað fyrir framboðinu við vini og vandamenn, og ekki síst á opnum spjallrásum og heimasíðum á Netinu. Fram að þessu hefur raunar enginn frambjóðandi í sögunni náð jafn vel að virkja stuðning á Internetinu þar sem grasrótarvinna framboðsins er að mestu skipulögð. Í þeim efnum hafa samkynhneigðir verið sérlega áberandi. Ekki hefur svo heldur sakað að þekktir skemmtikraftar og stjórnmálamenn úr röðum samkynhneigðra hafa keppst við að lýsa yfir stuðningi við Dean.

Síðustu vikurnar hefur Dean snúið sér í auknum mæli að því að búa sig undir að etja kappi við George W. Bush. Stjórnmálaskýrendur eru almennt á því að í þeim slag verði Dean að sækja meira inn á miðjuna ætli hann sér að eiga raunhæfa möguleika á sigri. Ekki er víst að róttækar skoðanir hans á málefnum samkynhneigðra verði honum til framdráttar í landi þar sem almenningsálitið er víða ekki sérlega vinsamlegt samkynhneigðum. Raunar hefur Karl Roven, náinn kosningaráðgjafi forsetans, látið hafa eftir sér að Dean væri sá frambjóðandi sem hann vildi helst sjá á móti Bush, ekki síst vegna ólíkrar afstöðu frambjóðendanna tveggja til málefna samkynhneigðra. Það bendir því margt til þess að afstaðan til réttindamála homma og lesbía fái meiri athygli á næstu mánuðum en hingað til hefur sést í bandarískum stjórnmálum.

-HTS

Leave a Reply