Skip to main content
Fréttir

Heimsfrægur gestur í Regnbogasal: – Felice Picano heiðrar Samtökin ´78 á bókmenntakvöldi

By 27. ágúst, 2004No Comments

Tilkynningar Bandaríski rithöfundurinn Felice Picano er gestur Samtakanna ´78 í Regnbogasal félagsins, mánudaginn 13. september kl. 21:00. Þar mun hann ræða um líf sitt og skáldskap og lesa úr verkum sínum. Að upplestri loknum verða umræður og fyrirspurnir.

Nafn Felice Picano þekkja allir sem hafa fylgst með skáldskap samkynhneigðra í Bandaríkjunum síðustu áratugi. Hann er löngu heimsfrægur fyrir verk sín og eftir hann liggja á þriðja tug bóka. Frægustu verk hans eru án efa skáldsögurnar Like People in History og Looking Glass Lives, svo og endurminningabækurnar Ambidextrous: The Secret Lives of Children, Men Who Loved Me og A House on the Ocean, a House on the Sea. Felice Picano er einnig annar höfundur metsölubókarinnar The New Joy of Gay Sex. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, m.a. The PEN Syndicated Fiction Award fyrir smásagnagerð, en fyrir metsöluskáldsöguna Like People in History hlaut hann hin eftirsóttu The Ferro-Grumley Award. Hann hefur einnig verið tilnefndur til hinna virtu Ernest Hemingway verðlauna og þrívegis tilnefndur til The Lambda Literary Award sem veitt eru fyrir skáldskap samkynhneigðra vestan hafs.

Picano er mikilsvirtur baráttumaður fyrir málefnum samkynhneigðra. Árið 1977 stofnaði hann bókaútgáfuna Sea Horse Press, en það var eitt fyrsta forlag í Bandaríkjunum sem eingöngu sinnti samkynhneigðu efni. Síðar sameinaðist forlagið tveimur öðrum slíkum undir nafninu Gay Presses of New York. Ásamt öðrum rithöfundum, þar á meðal Edmund White og Andrew Holleran, stofnaði Felice Picano the Violet Quill Club með það að markmiði að koma samkynhneigðum rithöfundum á framfæri.

Heimsókn Felice Picano til Íslands er merkilegur viðburður sem margir hafa beðið eftir. Dagskráin í Regnbogasalnum stendur í klukkutíma og er öllum opin. Við hvetjum allt áhugafólk um bókmenntir og baráttu samkynhneigðra fyrir sýnileika og stolti að láta þetta einstæða tækifæri ekki fram hjá sér fara.

Leave a Reply