Skip to main content
search
Fréttir

Fræðsluátak Samtakanna ´78 – Hrein og bein

By 8. nóvember, 2001No Comments

Frettir Í sumar ákvað stjórn Samtakanna ´78 að hefja gerð fræðslukvikmyndar á myndbandi um líf og reynslu ungra lesbía og homma. Samtökin eru framleiðandi myndarinnar ásamt Krummafilms en að verkinu standa þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, og Þorvaldur Kristinsson. Myndin byggist á viðtölum við tólf ungar manneskjur á aldrinum 18-30 ára og verður um klukkutími að lengd. Þannig er hægt að sýna hana í tveimur samliggjandi kennslustundum.

Myndinni er ætlað að vera fyrsta umfjöllun á samkynhneigð í námsgreinum eins og lífsleikni, félagsfræði eða samfélagsgreinum, og markhópur hennar eru einkum nemendur á aldrinum 14-17 ára. Henni fylgir bæklingur sem geymir verkefni og tillögur til kennara um það hvernig nálgast megi málefnið eftir að myndin hefur verið sýnd í kennslustund. Það er Sara Dögg Jónsdóttir, fræðslufulltrúi Samtakanna ´78, sem annast gerð bæklingsins. Enn er eftir að finna nægilegt fjármagn til að ljúka verkinu en framleiðendur vona hið besta og reyna hvað þeir geta til þess að verkið strandi ekki á fjárskorti. Allar ábendingar og fyrirgreiðsla er vel þegin í því sambandi.

Persónulegar frásagnir

Kvikmyndin hefur hlotið vinnutitilinn Hrein og bein. Persónulegar frásagnir eru styrkur hennar; hér birtist ungt samkynhneigt fólk með andlit og persónuleika og lögð er áhersla á einlægar og lifandi frásagnir. Hér er spurt um margt sem höfuðmáli skiptir í hinni samkynhneigðu reynslu: Hvernig vitundin um það að vera öðruvísi en hinir vaknaði, tilfinning einangrunar og einmanaleika, ástarþráin, óttinn við höfnun, baráttan við þögnina, skorturinn á fyrirmyndum, og svo sú dýrmæta reynsla að rjúfa þennan vítahring og öðlast sátt við eigin hlut í lífinu. Lýst er viðbrögðum fjölskyldunnar, skólans, vinahópsins og hvernig þessi reynsla litar persónuleika og líf viðkomandi. Hér er reynt að gefa raunsanna mynd af hinni samkynhneigðu reynslu og gylla hana hvorki né sverta. Í myndinni fléttast saman húmor og alvara en áhersla stjórnenda er ekki síst á hinn sammannlega og tilvistarlega þátt reynslunnar – hvernig allir menn verða að mæta flóknum staðreyndum lífsins, leitast við að leysa fjötra sína og eignast virðingarvert líf.

Í takt við nýja tíma

Með fyrstu kvikmyndinni um líf samkynhneigðra á Íslandi er bætt úr brýnni þörf því að slíkt efni hefur algjörlega skort til fræðslu í íslenskum skólum. Með nýjum viðhorfum í uppeldismálum og nýjum námsgreinum hefur áhugi kennara og skólayfirvalda vaknað á slíku efni. Er þar skemmst að minnast rannsóknar Söru Daggar Jónsdóttur meðal skólastjórnenda á liðnu ári, þar sem 80% þeirra sem svöruðu töldu þörf á aukinni fræðslu um samkynhneigð til kennara í skólum sínum.

Upptökur fóru fram í ágúst og september í Reykjavík og á Akureyri, en stefnt er að því að myndin verði frumsýnd í mars eða apríl á þessu ári.

Þess má einnig geta að Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefur um árabil unnið að langri sögulegri heimildamynd um sögu samkynhneigðra á Íslandi síðasta aldarfjórðung. Hér er um að ræða langt og dýrt verk sem vonandi lítur dagsins ljós á næstu misserum ef nægilegt fjármagn fæst til verksins.

Leave a Reply