Skip to main content
search
Fréttir

Tékkar, Slóvakar og nágrannar – Samkynhneigðir í nýjum ríkjum Evrópusambandsins

By 10. júní, 2004No Comments

Frettir Með stækkun Evrópusambandsins til austurs hafa ýmsar þjóðir Austur-Evrópu orðið að taka afstöðu til þeirra kröfu sambandsins að mannréttindi lesbía og homma séu virt í aðildarríkjunum og staða þeirra treyst. Óneitanlega gengur þessum ríkjum misjafnlega að tileinka sér nútímaviðhorf þjóða í Vestur-Evrópu. Ungverjaland er hið eina af hinum nýju sambandsríkjum Evrópusambandsins í austri sem hefur lögleitt staðfesta samvist samkynhneigðra, en það gerðu þeir sama ár og Íslendingar, 1996, þó svo að hin ungverska löggjöf standi þeirri norrænu talsvert að baki.

Þó að Tékkar séu skemmra á veg komnir en Ungverjar hvað lagasetningar snertir þá þykja þeir frjálslyndari í afstöðu sinni til samkynhneigðra en flestir nágrannar þeirra. Ítök kaþólsku kirkjunnar eru mun veikari þar í landi en til dæmis í Póllandi og flest bendir til þess að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra verði samþykkt í tékkneska þinginu nú á næstunni. Verður það fjórða tilraunin til að bera málið upp á þingi. Við fyrri meðferð málsins skorti aðeins örfá atkvæði að frumvarp yrði samþykkt, en miklu máli skiptir núna að viðhorf þjóðarinnar til borgarlegra réttinda lesbía og homma hafa breyst hratt í átt til frjálslyndis, en það skapar síðan þrýsting á stjórnmálamenn. Um 77% tékknesku þjóðarinnar styðja hjúskaparréttindi til handa samkynhneigðum, refsingar við samkynhneigðum mökum voru afnumdar árið 1961 og verndarákvæðum aukið í löggjöf Tékka árið 2000.

Nú snýr sér enginn við

Um ólík viðhorf þessara þjóða til homma og lesbía segir talsmaður samtaka samkynhneigðra í Prag: ?Stuðningur hins almenna borgara vex með hverju ári hér í Tékklandi og það finnum við frá degi til dags. Nú snýr sér enginn við þótt ég kyssi manninn minn úti á götu. Fyrir nokkrum árum var hrópað á eftir okkur ef það gerðist. Og þeir hrópa enn á eftir manni í Slóvakíu, svo ekki sé talað um Pólland. En viðhorfin í Ungverjalandi eru mjög sambærileg við það sem maður á að venjast hér í Tékklandi.?

Það frelsi sem hann lýsir hér hefur þó sínar dekkri hliðar. Hvergi í Evrópu er fjöldi karlmanna sem stunda vændi jafn mikill og í Prag, og kynlífsiðnaðurinn er einn af tíu helstu gjaldeyristekjustofnum Tékka þessa dagana.

Í nágrannalöndunum, Póllandi og Slóvakíu, standa mannréttindamál samkynhneigðra nokkuð í stað og engin von talin til að lög um staðfesta samvist verði samþykkt á þingi þessara þjóða í næstu framtíð. Í Slóvakíu þykja það til dæmis mikil tíðindi að prestur nokkur, Jan Suchan, skuli nýlega hafa lýst því yfir því opinberlega að samkynhneigðum beri sama virðing og öðru fólki. Presturinn þykir hugrakkur, en í Tékklandi þykir það hins vegar ekki umtalsvert hugrekki að senda frá sér slíkar yfirlýsingar þótt viðkomandi sé prestur. Þó að kaþólska kirkjan í Tékklandi sé andsnúinn hjúskaparlöggjöf til handa samkynhneigðum boðar hún afstöðu umburðarlyndis og vísar mannréttindamálum homma og lesbía til úrskurðar þings og þjóðar.

Gjörólíkar þjóðir

Um muninn á gildismati og viðhorfum í þessum tveimur ríkjum segir Jan Suchan: ?Tékkar og Slóvakar eru gjörólikar þjóðir þó að við tilheyrðum sama ríki í rúm 70 ár. Nálægð Tékka við löndin í vestri hafa fært þeim sterka hefð frjálslyndra viðhorfa hvað sem stjórnmálasögu þessa tímabils líður. Það er þar sem hræringarnar er að finna í menningar- og stjórnmálaviðhorfum. Ég vænti ekki framfara í Slókakíu í þessum efnum fyrr en eftir 20 ár.?

Margir kunna að undrast þessi orð, enda er vel kunnugt að klámiðnaður homma er ívíða blómlegri en í Slóvakíu. Reyndar er hann rekinn af vestrænum fyrirtækjum en með innlendum leikendum. Samt er vert að muna að eitt er klámiðnaður og annað mannréttindi. Þó að samkynhneigð hafi ekki verið refsiverð í Slóvakíu í rúm 40 ár, þá hefur ekkert gerst þar í framfaraátt að mati kunnugra. Samtökin Ganymedes hafa starfað að mannréttindamálum samkynhneigðra í Slóvakíu frá 1990 og áttu þau frumkvæði að því að frumvarp til laga um staðfesta samvist var borið upp á þjóðþingi Slóvaka árið 1997 en kolfellt. Núverandi dómsmálaráðherra landsins, Ján Carnogurský, lýsti því til dæmis yfir árið 2000 að lög um staðfesta samvist yrðu aldrei að veruleika svo lengi sem hann væri við völd. Og formaður Kristilegra demókrata í landinu lýsti því yfir fyrir skömmu að ef lesbíur og hommar væru óánægð með stöðu mála á heimaslóðum, væri þeim velkomið að yfirgefa landið og setjast að annars staðar. Kynferðispólitískir flóttamenn ? við Íslendingar könnumst við það fyrirbæri frá fyrri tíð.

Kynlíf getur verið gott til síns brúks

Hommar og lesbíur í Slóvakíu eru þó síður en svo ein og yfirgefin. Síðustu misseri hafa Hollendingar beint sjónum að landinu og komið á skipulögðu hjálparstarfi við samfélag samkynhneigðra. Til dæmis hefur sendiráð Hollands í Slóvakíu veitt styrk til að koma á fót kvikmyndahátíð lesbía og homma og stutt hreyfingu þeirra með ráðum og dáð ? og umtalsverðum fjármunum.

?Án Hollendinganna hefðum við neyðst til að þiggja stuðning frá klámiðnaðinum hér í landi, með ýmsum skilyrðum, og það kærum við okkur ekki um,? segir talsmaður tímaritsins Atribút í viðtali. ?Við þurfum aðstoð til að leysa félagsleg og tilfinningaleg vandamál okkar samkynhneigða samfélags, aðstoð við að styrkja stöðu okkar á vinnumarkaðinum og raunar hvar sem er í samfélaginu. Kynlíf getur vissulega verið gott til síns brúks en það leysir ekki þau mál sem á okkur brenna.?

?ÞK

Leave a Reply