Skip to main content
search
Fréttir

HÝRA REYKJAVÍK – SÖGUGANGA

By 25. maí, 2007No Comments

Í sumar verður boðið upp á sögugöngu um staði sem tengjast lífi lesbía og homma í miðborg Reykjavíkur. Fjallað verður um menningu og mannréttindabaráttu samkynhneigðra allt frá síðari hluta 19. aldar. Næturlífi, pólitík, bókmenntum og tónlist sem tengjast samkynhneigðum í borginni verða gerð skil. Einnig verða rifjaðir upp sögufrægir atburðir í lífi einstakra samkynhneigðra Reykvíkinga.

Menning lesbía og homma í Reykjavík hefur verið hulin flestum hingað til. Markmið gönguferðanna er að varpa hulunni af þessum merkilega menningarkima borgarinnar. Fjölda markverðra staða er að finna í miðborginni þar sem líf samkynhneigðra kemur við sögu. Reykjavík er hýrari en margur heldur!

Fyrirmyndin af göngunni er sótt til stórborga erlendis þar sem víða er boðið upp á slíka leiðsögn. Gönguferðirnar eru einkum ætlaðar erlendum ferðamönnum sem vilja kynnast nýrri hlið á Reykjavík – Reykjavík fólksins og fjölbreytileikans. Leiðsögn getur bæði farið fram á ensku og íslensku og ferðin tekur um klukkustund. Fyrsta gangan var farin með hóp stúdenta úr FSS og systrafélögum þess sem staddir voru hér á landi á ráðstefnu um miðjan apríl.

Laugardaginn 26. maí verður sérstök söguganga á vegum Samtakanna ‘78. Safnast verður saman á Café Cozy í Austurstræti og lagt af stað kl. 17.00. Skipuleggjendur og leiðsögumenn eru Felix Bergsson, leikari og Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur.

Leave a Reply