Skip to main content
search
Fréttir

Kína – Mikill áhugi á námskeiði um samkynhneigð

By 16. ágúst, 2005No Comments

Frettir Morgunblaðið greinir frá því að hinn virti Fudan-háskóli í Shanghai hafi ákveðið að halda námskeið í samkynhneigðum fræðum eftir að óskum um slíkt námskeið tók að rigna yfir skólann. Háskólinn hefur ákveðið að bæta við rými fyrir nemendur á námskeiðinu eftir að eitt hundrað sæti sem í boði voru fylltust á augabragði við skráningu.

Námskeiðið þykir sæta tíðindum í Kína sem flokkaði samkynhneigð til geðsjúkdóma á sjúkdómaskrám sínum allt til ársins 2001. Samkynhneigð er sem kunnugt er ennþá mikið feimnismál þar austur frá og stafar það bæði af einangrun Kínverja, íhaldseminni sem mótað hefur kínverska menningu um aldir, svo og fordómum kommúnistastjórnarinnar gagnvart hommum og lesbíum en hún hefur löngum litið á samkynhneigð sem dæmi um vestræna úrkynjun. Reglulega berast vitnisburðir um ofsóknir vegna kynhneigðar til Vesturlanda, bæði til baráttusamtaka lesbía og homma og til Amnesty International. Ofsóknirnar felast að sögn einkum í því að þvinga fólk í geðræna meðferð sem að sögn er ætlað að breyta kynhneigð þess (það sem á íslensku alþýðumáli er stundum kallað ?afhommun? og ?aflesbun?), og lögregla er jafnframt sökuð um ofbeldi, húsrannsóknir og nauðganir á samkynhneigðu fólki. Aðeins örlítið brot af þeim sem fyrir þessu verða eru sagðir kveða upp úr um ástandið og sárafáum tekst að leita hælis sem kynferðispólitískir flóttamenn í öðrum ríkjum. Á síðustu tíu árum hafa t.d. aðeins 18 Kínverjar fengið landvistarleyfi í Bandaríkjunum af þessum sökum. Yfirvöld í Kína og kínverskir félagsfræðingar neita þó ásökunum um misrétti í garð samkynhneigðra og telja það heyra til undantekninga að þegnar Kína séu þvingaðir í geðræna meðferð vegna kynhneigðar sinnar.

Mikilvægt framfaraskref

Því er námskeiðið í Fudan-háskóla í vetur trúlega mikilvægara skref til framfara en við getum gert okkur í hugarlund. Þar verður sjónum m.a. beint að lagalegri og samfélagslegri stöðu samkynhneigðra, svo og heilsufari þeirra, en alnæmi er bæði mikið vandamál og feimnismál i Kína og tengist samkynhneigðu kynlífi í verulegum mæli rétt eins og á Vesturlöndum. ?Við vorum að þetta námskeið … muni kynna mismunandi kynhneigð fyrir sem flestum nemendum,? sagði Sun Zhongxin, aðstoðarprófessor við Fudan-háskóla.

Námskeið í Háskóla Íslands í vetur

Í framhaldi af því má minna á það að innan kynjafræði við Háskóla Íslands verður í annað sinn í vetur haldið námskeiðið Hinseginlíf og hinseginbarátta. Námskeiðið er haldið á BA-stigi og er opið öllum nemendum skólans, en kennt er á vormisseri. Þetta námskeið var fyrst haldið árið 2003 og er nú orðinn fastur liður á kennsluskrá Háskóla Íslands. Þorgerður Einarsdóttir dósent hefur umsjón með námskeiðinu en margir gestafyrirlesarar taka þátt í kennslunni. Námskeiðið fer víða í umfjöllun sinni, m.a. er þar fjallað um lagalega stöðu og þróun réttindamála, sagnfræði, bókmenntir og kvikmyndir, heilsufar og viðhorf kirkju og trúflokka svo nokkuð sé nefnt.

?ÞK

Leave a Reply