Skip to main content
Fréttir

Er enginn endir á ofbeldinu?

By 5. desember, 2005No Comments

Það er ekki laust við að setji stundum ugg að þeim sem hafa lifað sögu samkynhneigðra í áratugi. Það ógnvænlega við þessa sögu er endurtekningin, endurtekning þeirrar niðurlægingar og fólsku sem mætir lesbíum og hommum reglulega. Margar framfarir höfum við séð, mikla sigra höfum við unnið og viðurkenning samfélagsins er vissulega engin ímyndun. En ein athyglisverðasta breytingin í seinni tíð er sú staðreynd að þeir sem óttast okkur, hata og fyrirlíta hafa lært að dyljast, hafa komist upp á lag með að fága yfirbragðið. En hugsa samt eins og þeir hafa alla tíð hugsað. Og gefa okkur um leið falskt öryggi, gefa okkur þá hugmynd að við búum í nýjum heimi. Þetta eru mennirnir sem ráðast fram þegar minnst varir, oftar en ekki í skefjaleysi og æði vímunnar. Í því æði er stundum aðeins hársbreidd milli lífs og dauða. 
Síðastliðið ár hafa fjölmargar sögur og vitnisburðir af ofbeldi gagnvart samkynhneigðum borist til eyrna okkar sem störfum á vettvangi Samtakanna ´78, jafnvel svo að við spyrjum hvort nú stefni í óefni og hvort ávinningar síðustu ára hafi farið fyrir lítið. Ofbeldi gagnvart hommum á vinnustöðum, grófar líkamsárásir á almannafæri, nú síðast í Bolungarvík, ótaldar sögur af líkamsmeiðingum á skemmtistöðum. Vitnisburði um það síðastnefnda má lesa hér í blaðinu. Okkur er nauðsynlegt að draga þá staðreynd fram í dagsljósið að ofbeldi er snar þáttur í lífsreynslu okkar, stöðug ógn í lífi sumra. Fyrir þá ógn flýja sumir heimabyggðir sínar, aðrir þjást árum saman af sjúklegri hræðslu við margmenni og forðast mannamót, og þar fram eftir götunum.
Það er hægt að verjast ofbeldi á margvíslegan hátt. Miklu skiptir að vita hvaða viðbrögð beri að viðhafa þegar við verðum fyrir líkamsárás. Reglulega reynist ástæða til að endurtaka sömu leiðbeiningarnar til fólks um það hvað gera skuli andspænis ofbeldinu. Sumt af þeim leiðbeiningum birtist í þessu blaði, endurtekið efni frá fyrri árum. Mestu máli skiptir þó að við tölum opinskátt um ofbeldið í því skyni að uppræta það. Það horfir stundum til vandræða hvað samkynhneigðir eru óskipulagður herflokkur og fákunnandi þegar bregðast þarf við grimmum staðreyndum lífsins. Samt vitum við að mörgum þykir við liggja vel við höggi.
Margsinnis hafa Samtökin ´78 hvatt fólk til þess að greina frá reynslu sinni af ofbeldi og misrétti við starfsmenn félagsins svo að við getum fengið gleggri mynd af því hvað gerist frá ári til árs. En alltof oft fáum við fyrst að heyra um þessa atburði mánuðum og misserum eftir að þeir gerðust. Ekki svo að skilja að starfsmenn félagsins séu í stakk búnir til að rétta hlut einstaklinga sem fyrir ofbeldi verða, en þeir geta leiðbeint, og með heildstæða vitneskju um það sem er að gerast getum við barist gegn því á opinberum vettvangi af viti og þekkingu eftir leiðum orðræðunnar. Þá vitneskju fáum við því aðeins að félagar okkar segi frá fantaskapnum sem þeir verða fyrir.
Það er einungis í orðræðunni sem við fáum hamlað gegn ofbeldi, fávísi og grimmd.

Leave a Reply