Skip to main content
search
Fréttir

Hátíðarhöldin nálgast: – Hinsegin dagar 6. -7 ágúst

By 14. júlí, 2004No Comments

Frettir Sjötta árið í röð halda samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, transgender fólk og vinir þeirra Hinsegin daga hátíðlega í Reykjavík. Eftir undirbúning sem staðið hefur yfir allt frá því síðustu hátið lauk, fjölmenna allir sem vilja sýna samstöðu með málstaðnum í skrautlega gleðigöngu niður Laugaveg, en gangan í ár leggur af stað frá Hlemmi laugardaginn 7. ágúst klukkan 15:00. Eins og í fyrra endar hún í Lækjargötu þar sem haldnir verða glæsilegir útitónleikar. Þar koma fram söngvarar og dansarar úr Fame, Míó, Hommaleikhúsið Hégómi, Þuríður Sigurðardóttir, kvennahjómsveitin Homoz with the Homiez, Heklína, Maríus Sverrisson, að ógleymdum Tómasi Þórðarsyni Eurovision stjörnu frá Danmörku.

Á miðnætti 7. ágúst hefjast siðan Hinsegin hátíðardansleikir um alla borg; Á NASA við Austurvöll þar sem DJ Páll Óskar og DJ Flovent þeyta skífum, á Jóni forseta þar sem DJ Skjöldur sér um tónlistina, á Nelly?s við Þingholtsstræti þar sem DJ Atli heldur uppi stuðinu og á Dillon við Laugaveg með DJ Andreu Jóns.

Opnunarhátíð í Loftkastalanum

Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast degi áður með opnunarhátíð í Loftkastalanum 6. ágúst klukkan 21:00. Þar koma meðal annars fram stjörnur frá dragklúbbnum fræga, Trannyshack í San Francisco, Hommaleikhúsið Hégómi og Maríus Sverrisson ásamt fimm manna hljómsveit í tilefni fyrstu sólóplötu sinnar. Að lokinni dagskra verður Gay Pride party í boði Corona í anddyri Loftkastalans. Miðaverð er kr. 1000 og forsala hefst innan tíðar í Samtökunum ´78.

Þetta sama kvöld á miðnætti er síðan haldið Stelpnaball í Þjóðleikhúskjallaranum og Strákaball á Jóni forseta.

Dagskrárrit Hinsegin daga komið út

Glæsilegt dagskrárrit Hinsegin daga er komið út. Því er dreift í miklu upplagi um allt land og eintakið er ókeypis. Stjórnendur Hinsegin daga hvetja alla til að nálgast eintak af ritinu til að kynna sér betur það sem í vændum er. Þar eru skemmtikraftar kynntir og eitt og annað má lesa þar um Hinsegin daga og söguna hér á landi.

Þriðja stærsta útihátíð í Reykjavík

Gríðarleg vinna liggur að baki hátíðarhöldum eins og Hinsegin dögum. Um 150 manns og fimm félagasamtök koma að undirbúningnum með einum eða öðrum hætti; við fjáröflun, kynningarstarf og skipulag ? að ógleymdri þrotlausri vinnu við sýningaratriði. Árangurinn hefur haldur ekki látið á sér standa. Hinsegin dagar í Reykjavík eru fyrir löngu orðnir þriðja stærsta útihátíð borgarinnar, aðeins þjóðhátíðardagurinn 17. júní og Menningarnótt draga að sér fleira fólk. Þessi mikli fjöldi, og sú staðreynd Hinsegin dagar í Reykjavík eru fyrst og fremst fjölskylduhátíð, undirstrikar vel þann mikla árangur sem samkynhneigðir hafa náð í réttindabaráttunni á örfáum árum.

Stjórn og starfsmenn Samtakanna ?78 óska landsmönnum til hamingju með Hinsegin daga í Reykjavík 2004.

Leave a Reply