Skip to main content
search
Fréttir

Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur – Samkynhneigð, sálfræði og samfélag

By 5. janúar, 2003No Comments

Tilkynningar Árið 2003 minnast Samtökin ´78 þess að hafa starfað í aldarfjórðung og að því tilefni býður félagið upp á röð hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands í samvinnu við félagsvísindadeild Háskólans, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta, FSS.

Sex fyrirlestrar verða á dagskrá á vormisseri og hinn fyrsti er á dagskrá föstudaginn 17. janúar nk. Þar mun Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur flytja fyrirlestur sem hún nefnir Samkynhneigð, sálfræði og samfélag. Um ungt fólk í háska. Sigrún mun ræða um þekkta áhættu- og verndarþætti á viðkvæmu æviskeiði unglingsáranna og þá þögn sem fræðin sveipa upplýsta umræðu um kynhneigð manna með því að gengið er út frá gagnkynhneigð leynt og ljóst. Hún lýsir því hvernig sú persónulega reynsla að eiga son sem er hommi fyllti hana vilja til að berjast gegn ófremdarástandi sem ríkir á sviði sálar- og uppeldisfræði þar sem hvorki fjölskyldum né uppeldisstofnunum er hjálpað til þess að taka á samkynhneigð vaxandi kynslóðar á ábyrgan hátt. Stuðningur við æskuna er sem rauður þráður í allri umræðu um uppeldismál en nær þó enn að minnstu leyti til ungra homma og lesbía. Í fyrirlestrinum lýsir Sigrún ástandi mála eins og það kemur henni fyrir sjónir, rekur merki um framfarir síðustu áratuga og bendir á leiðir til útbóta.

Sigrún Sveinbjörnsdóttir nam sálarfræði við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og lauk þaðan embættisprófi í sálarfræði og síðar doktorsprófi frá La Trobe háskóla í Melbourne, Ástralíu. Hún er nú lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefst kl. 12 á hádegi. Að honum loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram fyrirspurnir og taka þátt í stuttum umræðum.

Leave a Reply