Skip to main content
Fréttir

HJÓNAVÍGSLA OG ÞJÓNUSTA KIRKJUNNAR

By 28. apríl, 2006No Comments

Nýlega héldu Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra (FAS) og Prestafélag Íslands málþing sem hafði yfirskriftina: “Getur íslenska þjóðkirkjan haft forystu í málefnum samkynhneigðra?” Þessi tvö félög hafa starfað saman síðustu misseri og var þetta þriðja málþingið sem þau halda. Í sem skemmstu máli var niðurstaða þessarar orðræðu, að mati fræðimanna, að ekkert hamlar því í raun að íslenska þjóðkirkjan geti tekið forystu meðal þjóða í málefnum samkynhneigðra. Sé hjónabandið skoðað í ljósi siðfræðilegra raka er ekkert sem hamlar því að tvær konur eða tveir karlar geti gengið í hjónaband rétt eins og karl og kona. Fram kom að litlar breytingar þarf að gera á núverandi hjúskaparlögum (nr. 31/1993) svo þau þjóni bæði gagnkynhneigðum og samkynhneigðum hvað hjónabandið varðar. Þ.e. með því einu að breyta gildissviði laganna í 1. gr. og setja að lögin gildi um hjúskap tveggja einstaklinga, en ekki karls og konu eins og nú er. Á málþinginu kom einnig fram hvað það skiptir miklu máli fyrir trúað fólk, samkynhneigt, að því bjóðist einnig hjónavígsla í kirkjunni. Málið snýst um veru lifandi fólks, líf þess og tilfinningar. Rétt er að hafa í huga að málefni samkynhneigðra snerta mikinn fjölda fólks mjög náið – og flesta landsmenn sakir frændsemi, vináttu og fjölskyldutengsla.

Eitt hjónavígsluritúal fyrir alla

Á málþinginu var lögð fram tillaga til ályktunar að stjórnir Prestafélags Íslands og Samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra skipi þriggja manna starfshóp. Hlutverk hans er að gera hjónavígsluritúal sem gildir jafnt fyrir vígslu allra hjóna, óháð því hvort um gagnkynhneigða eða samkynhneigða er að ræða. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða.

Er þá ekkert til fyrirstöðu að endurskoða og breyta aldagamalli túlkun Biblíunnar og kirkjunnar um hjónabandið? – Að það sé ekki aðeins réttur gagnkynhneigðra, karla og kvenna, heldur réttur allra þeirra sem vilja stofna frjálst samkomulag um lífssamband og verja lífi sínu saman.

Hvað um orð Biblíunnar og túlkun okkar á henni?

Rétt er að nefna, áður en lengra er haldið, að íslenskir og erlendir guðfræðingar og siðfræðingar hafa bent á að Biblían og boðskapur hennar sé ætíð markvisst túlkað með hliðsjón af félags-, menningar- og trúarlegum aðstæðum á hverjum tíma. Í því sambandi hefur dr. Björn Björnsson bent á að “kærleikurinn eflist þeim mun meira af reynslu, þekkingu og dómgreind sem hann setur sig betur inn í aðstæður sem hann er kominn til að þjóna.” (Kirkjuritið, 1999:2). Íhaldssamir guðfræðingar og prestar hafa látið þá skoðun í ljósi að þó Alþingi geti breytt lögum og viðurkennt réttindi samkynhneigðra – þá breytir það ekki Guðs lögum. Þar hefur verið minnt á að kirkjan hefur jafnan haldið fram hjúskap karls og konu og kennt að helgur sé og því til staðfestingar er texti Matteusar guðspjallamanns (Mt. 19:4-6) enn lesin fyrir öllum brúðhjónum, eins og sr. Geir Waage orðaði það í Morgunblaðinu fyrir réttu ári (6. mars 2004). Hann bendir á að: “Sambúð samkynheigðra verður að finna sér annað form en það, sem ætlað er karli og konu að skikkan skaparans og fyrirmælum Drottins Jesú.” Ég tel að þessi orð geti verið samnefnari fyrir sjónarmið þeirra sem beita biblíulegum rökum fyrir því að hjónaband og hjónavígsla sé aðeins ætluð gagnkynhneigðu fólki.

Boðar kirkjan orð Krists í hjúskaparritúalinu?

Rétt er að huga að orðum Krists sem hjónavígsluritúalið er byggt á. Það hjálpar – að bæta einu versi framan við – til að skýra og skilja “Orð Krists”. Ritningin segir (Mt. 19:3-6): “Þá komu til hans (Jesú) farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?” 4) Hann svaraði: “Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu 5) og sagði: “Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. 6) Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.”

Á þessum texta Biblíunnar er hjónavígsluritúal kirkjunnar byggt. Í versunum sem á eftir koma eru farísearnir að knýja á um hvort Kristur leggi blessun sína yfir að þeir geti skilið við konur sínar. Í svari Krists til faríseanna kemur afstaða hans skýrt fram. “Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.” Rétt er að spyrja: Eru þessi ritningarvers traustur kenningarlegur grunnur fyrir hjónavígsluritúalið? Eða er þarna skýr kenningarlegur grunnur fyrir því að kirkjunni sé óheimilt að samþykkja skilnað hjóna sem hún hefur gefið saman, nema um hórdómsbrot sé að ræða?

Velja þjónar kirkjunnar e.t.v. það sem hentar?

Þegar ég fór að kynna mér nánar þann biblíulega grunn sem ritúalið byggist á, stoppaði ég við. Á hvaða forsendu setti Kristur fram orð sín um hjónabandið – sem er – guðfræðilegur grunnur hjónavígsluritúals kirkjunnar? Það var í tengslum við spurninguna hvort karlar gætu skilið við konur sínar og tekið sér aðrar! Orð Krists er erfitt að heimfæra upp á þann tíma sem við lifum í þar sem hjónaskilnaðir eru daglegt brauð – raðhjónabönd eru viðurkennd – og fólk getur þegið þjónustu kirkjunnar í fleirgang ef það hefur löngun og vilja til. Eftir að augu mín opnuðust fyrir þessum veruleika kirkju og trúar hef ég fullar efasemdir um að kenningarlegur grundvöllur hjónavígsluritúalsins byggist á nægilega traustum biblíulegum grunni – þar hangir fleira á spýtunni!

Ég hef spurt presta að því hvernig hjónavígsluritúalið geti gengið upp í ljósi þess að hluti textans snýr að bláköldu banni við hjónaskilnaði: “það sem Guð hefur sameinað, má maðurinn ekki sundur slíta.” Það hefur ekki staðið á svörum og í öllum tilvikum eru þau á einn veg: “Þetta, við erum löngu hætt að fara með þetta yfir fólki!” Staðreynd er að hluta af hjónavígsluritúali þjóðkirkjunnar er búið að henda fyrir róða og hinum hlutanum er hangið í dauðahaldi, til að réttlæta að hjónavígsluritúalið sé einungis ætlað gagnkynhneigðu fólki, körlum og konum.

Ég fagna þeirri tillögu sem samþykkt var á málþingi FAS og Prestafélags Íslands, að endurskoða og móta eitt ritúal, sem þjónar bæði gagnkynhneigðum og samkynhneigðum. Niðurstaða umræðu um hjónabandið, bæði út frá rökum siðfræði og að skilningi laganna, voru á einn veg. Ekkert er til fyrirstöðu að hjónabandið geti þjónað bæði samkynhneigðum og gagnkynhneigðum í því lögræði hjónavígslunnar sem vígslumenn hjúskapar framkvæma, hvort sem það eru prestar, forstöðumenn trúfélaga eða borgaralegir vígslumenn. Því er tímabært að endurskoða hjónavígsluritúalið.
Höfundur er félagsfræðingur og formaður FAS.

Copyright © Morgunblaðið 2006
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply