Skip to main content
Fréttir

Conservativum papam habemus!

By 22. apríl, 2005No Comments

Frettir Kjör þýska kardinálans Josephs Ratzinger til páfa er álitið yfirlýsing af hálfu kirkjunnar um að íhaldssamri stefnu Páfagarðs skuli haldið til streitu. Gagnrýnendur segja Ratzinger standa fyrir harðlínustefnu og tala jafnvel um afturför í ýmsum siðferðilegum efnum. Þótti þó ýmsum nóg um.

Joseph Ratzinger, sem nú hefur tekið upp nafnið Benedikt XVI, fæddist í smábænum Markl am Inn í Þýskalandi árið 1927. Hann ólst upp undir oki nasismans og var fjórtan ára gamall skráður gegn vilja sínum í Hitlersæskunna. Fjölskylda hans er þó sögð hafa barðist gegn nasismanum og var Ratzinger fljótlega sleppt úr prísundinni. Hóf hann þá þegar að læra til prests og hlaut prestvígslu árið 1951 aðeins 24 ára gamall. Hann starfaði þó ekki lengi sem prestur því fljótlega var hann skipaður prófessor í kaþólskri guðfræði og starfaði hann sem slíkur við nokkra þýska háskóla næstu árin. Árið 1977 var hann skipaður biskup í Munchen og kardínáli nokkru síðar. Árið 1981 kallaði Jóhannes Páll II páfi hann til starfa í Vatíkaninu og gerði hann að yfirmanni „Trúarráðs kaþólsku krikjunnar sem vakir yfir kenningu hennar“ (Congregation for the Doctrine of the Faith) en sú stofnun er arftaki og nútíma útgáfa Rannsóknarréttarins illræmda. Síðan þá hefur Ratzinger verið einn valdamesti maður Vatíkansins og áhrifamikill hugmyndafræðingur kirkjunnar.

Sem ungur maður þótti Ratzinger ekki sérlega íhaldssamur, að minnsta kosti ekki á mælikvarða kaþólsku kirkjunnar, og talaði jafnvel fyrir því að hún þyrfti að færast nær tíðarandanum á ákveðnum sviðum. Honum virðist þó hafa snúist hugur um það leyti sem stúdentauppreisnirnar urðu og hóf þá að berjast af fullum krafti gegn „hvers kyns lausung“. Hefur Ratzinger allar götur síðan skapað sér orðstír fyrir stranga íhaldssemi í útleggingu guðsorðins.

Vildi bannfæra John Kerry

Sem yfirmaður Trúarráðsins hefur Ratzinger óspart notfært sér hræðslu kaþólskra við bannfæringar. Einkum hafa slíkar hótanir dugað vel gegn prestum sem honum hafa þótt of frjálslyndir í túlkun sinni á ritningunni. Stjórnmálamenn hafa einnig orðið fyrir barðinu á skoðunum hans. Skemmst er að minnast bréfs sem hann sendi til bandarískra biskupa í forsetakosningunum þar í landi árið 2004. Þar lagði hann áherslu á verðleika þeirra sem vildu ganga til skrifta og var sérstaklega tiltekið að ýmsir áberandi stjórnmálamenn sem styddu fóstureyðingar ættu ekki rétt á skriftun, en það jafngildir bannfæringu í kaþólskri kenningu. Duldist fáum að þar var átt við John Kerry, hinn kaþólska forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins. Aðrar skoðanir hins nýja páfa eru í takt við þetta svo sem afstaða hans til kvenréttinda, getnaðarvarna og jafnvel rokktónlistar – allt fyrirbæri sem að hans mati eru verkfæri hins illa.

Heróp íhaldsaflanna

Nokkrum sinnum á ferli Ratzingers hefur hann fyrir hönd Vatíkansins séð ástæðu til þess að senda frá sér sérstakar yfirlýsingar í baráttunni gegn samkynhneigðum. Árið 1986 sendi hann öllum kaþólskum biskupum bréf þar sem það áréttað var að samkynhneigð væri „sjúkdómur sem kominn væri frá hinu illa“. Prestar voru þar hvattir til þess að fylgjast sérstaklega með samkynhneigðum einstaklingum og vinna jafnframt gegn „sjúkdómnum” með hjálp læknavísindanna gæfist þess kostur. Að vísu var því bætt við að kirkjan myndi ekki vinna með eða styðja þá sem leynt og ljóst reyndu að grafa undan kenningum hennar svo sem ýmsum samtökum lækna eða sálfræðinga.

Sex árum eftir að fyrsta yfirlýsingin kom út, eða í júlí árið 1992, samdi Retzinger aðra yfirlýsingu sem í þetta skiptið beindist gegn hugmyndum um jafnrétti samkynhneigðra og gagnkynhneigðra fyrir lögum. Í þeirri yfirlýsingu er „svokölluðum mannréttindum samkynhneigðra” eins og þar stendur, algjörlega hafnað og raunar beinlínis tekið fram að misrétti gegn samkynhneigðum eigi fullkominn rétt á sér. Það er athyglisvert að í þessu bréfi Ratzingers er það tekið fram að ekki muni þurfa að koma á óvart þótt mannréttindabarátta samkynhneigðra muni á næstu árum leiða til aukins ofbeldis. Með öðrum orðum er fórnarlömbum stefnu kirkjunnar – hommum, lesbíum og tvíkynhneigðum – sjálfum kennt um aukið ofbeldi sem stefna hennar muni hafa í för með sér.

Fátt bendir til þess að breytinga sé að vænta

Nýjasta stóryfirlýsing Páfagarðs í baráttunni gegn réttindum lesbía og homma var send út á sjö tungumálum þann 31. júlí árið 2003. Í henni eru allir menn hvattir til þess að sameinast í baráttunni gegn hjónaböndum samkynhneigðra og ber hún því glöggt vitni hve mannréttindabáráttunni hefur miðað hratt á Vesturlöndum frá því að yfirlýsingin frá árinu 1992 leit dagsins ljós. Í henni voru hjónabönd ekki nefnd á nafn. Með þessari nýjustu herferð Vatíkansins er vonast til þess að stemma megi stigu við almennri viðurkenningu á sambúð og samlífi samkynhneigðra á Vesturlöndum en umræðan um fjölskyldulíf samkynhneigðra og nokkuð almenn viðurkenning ólíkra kynhneigða í mörgum löndum Evrópu er augljóslega kveikja hannar. Hún gengur raunar lengra en fyrri yfirlýsingar því samkvæmt henni hafa ekki aðeins kaþólskir stjórnmálamenn „siðferðilega skyldu“ til að berjast gegn lagalegum ávinningum samkynhneigðra para og vaxandi viðurkenningu á mannréttindum þeirra, heldur eru þeir sem standa utan kaþólsku kirkjunnar einnig hvattir til þess að leggja málstað páfa lið þar sem hann snúist um „almenn siðgæðislögmál“ en ekki einvörðungu kaþólskar kennisetningar svo vitnað sé til orða Ratzingers sjálfs.

Með kjöri Ratzinger á páfastól bendir ekkert til þess að afstaða Páfagarðs til samkynhneigðra og tvíkynhneigðra muni mildast á næstu árum. Papam qui nos odit habemus!

-HTS

Leave a Reply