Skip to main content
search
Fréttir

KÆRU VÍSAÐ FRÁ

By 5. júní, 2007No Comments

Samtökin ´78 og Trans-Ísland, félag transgender fólks á Íslandi kærðu í apríl tímaritið Séð & heyrt til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna umfjöllunar blaðsins um morðtilraun á hendur ungri transgender konu. Kært var á grundvelli 3. greinar siðareglna BÍ en þar segir m.a að blaðamaður skuli vanda umfjöllun sína og forðast allt sem valdið getur saklausu fólki óþarfa sársauka eða vanvirðu. Siðanefnd hefur nú endanlega vísað málinu frá án þess að taka afstöðu til umfjöllunar tímaritsins.

Í febrúar 2007 átti sér stað alvarleg líkamsárás í Hafnarfirði. Þar gerði að því er best verður séð gagnkynhneigður karlmaður tilraun til þess að myðra unga transgender konu. Hann tók hana hálstaki og reyndi að kyrkja hana er hann komst að því að hún var transgender en vinum hennar tókst að forða morði með því að berja ofbeldismanninn í höfuðið með járnstöng. Tímaritið Séð & heyrt fjallaði um málið á afar ósmekklegan hátt í tbl. nr. 7, 15. – 21. febrúar, og var sú umfjöllun blaðamannsins Eiríks Jónssonar tilefni þess að Samtökin ´78 og félagið Trans-Ísland kærðu blaðið.

Undir fyrirsögninni „Kærastan með typpi” fjallar blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson um atburðinn og lætur að því liggja að í lagi hafi verið að ráðast á konuna þar sem að hún var vaxin sem karlmaður undir pilsinu. Undirtónn umfjöllunarinnar er léttur og gert „góðlátlegt” grín að þeirri stöðu sem upp kom. Þar er talað um „kvennafar sem snérist upp í andhverfu sína”, “að konan væri karlmaður” og eftirfarandi haft eftir árásarmanninum: “Við vorum komin langt á leið þegar mér varð ljóst að þetta var karlmaður sem var með mér í rúminu. Þá reyndi ég að kyrkja hann og hefði líklega tekist það ef annað fólk sem var í samkvæminu hefði ekki gripið inn í”. Lok fréttarinnar má beinlínis túlka sem hvatningu um ofbeldi gagnvart transgender einstaklingum þar sem Eiríkur vitnar til ofbeldismansins: “Hvað hefðuð þið gert í mínum sporum? Svona sviksemi kemur öllum úr jafnvagi.” Að sama skapi er ofbeldismanninum hampað í fréttinni sem hörkutóli sem „geti verið grjótharður þegar því er að skipta” og haft eftir honum að jafnvel “Lögreglan [hafi verið] skilningsrík”.

LÖGÐ FRAM KÆRA 

Samtökin ´78 og félagið Trans-Ísland kærðu umfjöllun blaðsins á grundvelli 3. greinar siðareglna Blaðamannafélags Íslands en þar segir: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu”.  Með bréfi dagsettu 23. apríl sl. vísaði siðanefndin kærunni frá með þeim rökum að kærendur, Samtökin ´78 og Trans-Ísland, uppfylli ekki skilyrði siðareglna um hagsmunatengsl. Um hagsmunatengsl segir hins vegar í siðareglum að hver sá sem telji að brotið sé gegn þeim og eigi hagsmuna að gæta geti kært ætlað brot til nefndarinnar.

Rituðu Samtökin ´78 þá annað bréf þar sem óskað var eftir því að frávísunin yrði endurskoðuð. Í því  er bent á að samkvæmt lögum Samtakanna ´78 séu þau hagsmunasamtök samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi og að í því felist m.a að félagið vinni gegn hvers konar misrétti, fordómum og ofsóknum sem einstaklingar sem til heyra þessum hópum séu beittir vegna kynhneigðar sinnar eða vegna þess að þeir eru transgender. Þá er einnig bent að að hinn kærandinn, félagið Trans-Ísland, sé sjálfstætt hagsmunafélag transgender fólks á Íslandi sem hafi það markmið, líkt og Samtökin ´78, að standa vörð um mannhelgi transgender fólks og berjast fyrir lagalegum, félagslegum og menningarlegum réttindum þeirra. Jafnframt var það ítrekað að fórnarlamb árásarinnar og umfjöllunar Séð & heyrt stæði afar höllum fæti til þess að reka málið af eign rammleik þar sem viðkomandi væri innflytjandi sem talaði litla íslensku og hefði auk þess sætt morðtilraun vegna minnihlutastöðu sinnar. Loks er bent á að í fyrri úrskurðum siðanefndar sé gefið fordæmi fyrir því að kærur hagsmunafélaga vegna umfjöllunar um minnihlutahópa séu teknar til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni. Nægir þar að vísa til kæru Alþjóðahúss á hendur Fréttablaðinu þar sem umfjöllun blaðsins um innfytjendur var kærð (mál 7-2002-2003). Var sú kæra, líkt og kæra Samtakanna ´78 og Trans-Ísland, m.a rökstudd með þeim hætti að umfjöllunin væri byggð á ranghugmyndum og til þess fallin að ýta undir fordóma og mismunun gagnvart sérhverjum einstaklingi sem tilheyri þessum hópi. Í rökstuðningi siðanefndarinnar fyrir því að það mál var tekið upp segir m.a:

"Siðanefnd hefur áður tekið mál til meðferðar, sem kærð hafa verið til hennar af aðilum sem ekki eru beinlínis aðilar máls. Í máli siðanefndar nr. 3/2002-2003 var talið að í hlut ætti ákveðinn þjóðfélagshópur, sem ætti erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, auk þess sem umræða um hugsanlega kynþáttafordóma snerti almenna hagsmuni. Siðanefnd telur því mál þetta tækt til umfjöllunar.

Vandséð er að umfjöllun Séð & heyrt og kæra Samtakanna ´78 og Trans-Ísland falli ekki undir þennan rökstuðning siðanefndar enda gerir hún enga tilraun til þess að færa rök fyrir því hvers vegna hún telji þau félög, ólíkt Alþjóðahúsi, ekki uppfylla skilyrði um hagsmunatengsl. Í síðar nefnda kæruefninu leggst blaðamaður á sveif með með árásarmanni og fórnarlamb hans gert að sökudólgi alvarlegrar líkamsárásar vegna minnhluta stöðu sinnar. Má því auðveldlega túlka umfjöllunina sem hvatningu um ofbeldi á hendur transgender fólki almennt, auk þess sem hún sé til þess fallinn að vekja ranghugmyndir og sé fordómahvetjandi gagnvart einum þjóðfélagshópi, transgender fólki, sem er hópur sem á afar erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Þrátt fyrir rökstuddar ábendingar Samtakanna ´78 og beiðni um endurskoðun hefur siðanefnd nú endalega vísað kærunni frá án þess að taka hana til efnislegrar umfjöllunar.

Það er fágætt í íslenskri blaðamennsku að sjá blaðamenn leggjast á sveif með árásarmönnum og halda áfram að niðurlægja fórnarlömb ofbeldis í miðlum sínum. Frávísun síðanefndar, þvert á fyrri úrskurði þar sem í hlut á annars konar minnihlutahópur, ber vinnubrögðum og viðhorfum nefndarinnar sorglegt vitni, og varpar um leið ljósi á þá erfiðu stöðu og fordóma sem transgender fólk á íslandi á í höggi við.

-HTS

 

Leave a Reply