Skip to main content
search
Fréttir

Góður gestur í Reykjavík – Heimsforseti InterPride í heimsókn

By 23. maí, 2002No Comments

Frettir Í byrjun maí heimsótti annar heimsforseti InterPride Glen Paul Freedman Ísland, en Hinsegin dagar í Reykjavík hafa sótt um það að fá að halda aðalráðstefnu InterPride að tveimur árum liðnum. Í tilefni þessarar heimsóknar hélt borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forseta InterPride og aðstandendum Hinsegin daga boð í Höfða á dögunum. Þar undirritaði borgarstjóri stuðningsyfirlýsingu borgaryfirvalda við umsókn Hinsegin daga í Reykjavík um að halda aðalráðstefnu Inter-Pride árið 2004 en stuðningur borgarinnar og borgarstjóra við þessa umsókn er mjög mikilvægur. Einnig hitti Glen Paul Freedman fulltrúa Flugleiða og ferðamála í Reykjavík.

Ákvörðun um það hvaða borg fær að halda þingið verður síðan tekin á heimsþingi InterPride samtakanna í San Francisco í október. Ef það rætist að Reykjavík verði vettvangur þessarar mikilvægu ráðstefnu mun það styrkja mjög tengsl okkar við sams konar hátíðahöld á alþjóðavettvangi. Tvær aðrar borgir sækja um að halda heimsþingið 2004, St. Louis í Bandaríkjunum og Berlín í Þýskalandi.

InterPride eru heimssamtök borga sem halda Gay Pride hátíðir. Ár hvert sækja um 20 milljónir manna þær 120 hátíðir sem eiga aðild að InterPride. Borgirnar eru í 24 löndum í sex heimsálfum. Hinsegin dagar í Reykjavík hafa verið aðilar að InterPride frá árinu 1999. Á aðeins þremur árum hafa Hinsegin dagar vaxið í það að verða þriðja stærsta hátíð í Reykjavík, en í fyrra sóttu nær 20 þúsund manns hátíðahöldin. Hinsegin dagar eru því orðnir með fjölsóttustu Pride-hátíðum, ef frá eru taldar þær allra stærstu – í San Francisco, New York, London, Köln og Sidney.

Leave a Reply