Skip to main content
search
Fréttir

Sýnum stolt okkar í verki – gerumst félagar í Samtökunum 78

By 21. janúar, 2004No Comments

Tilkynningar Nú er nýtt ár gengið í garð og endurnýjun félagsskírteina hafin. Félögum Samtakanna ?78, sem og fyrrverandi félögum, hefur verið sendur greiðsluseðill fyrir árgjaldinu 2004. Það er einlæg von stjórnar og starfsmanna Samtakanna ?78 að sem flestir sjái ástæðu til þess að styðja við bakið á starfinu með því að gerast félagar. Tekjur af félagsgjöldum skipta miklu máli fyrir afkomu félagsins og eru nauðsynleg til þess að fjármagna að hluta þá margvíslegu þjónustu sem félagið veitir. Til þess að gera enn betur þarf félögum í Samtökunum hins vegar að fjölga til muna.

Félagsgjaldið í ár er 3500 kr. Námsfólk með gild skólaskírteini, svo og öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá 25% afslátt og greiða 2600 kr. Gjaldið er hið sama hvenær sem er á árinu en endurnýja þarf félagsaðild við hver áramót. Þeir sem ekki hafa fengið greiðsluseðil í hendur geta greitt gjaldið á skrifstofu félagsins á Laugavegi 3 alla virka daga frá klukkan 13:00-17:00 eða á opnu húsi á mánudögum og fimmtudögum frá 20:00-23:30. Eins getur fólk fengið umsóknareyðublað sent í pósti. Sími skrifstofunnar er 552-7878 og tölvupóstfang: skrifstofa@samtokin78.is. Þá er hægt að millifæra upphæðina beint inn á reikning Samtakanna ?78 (0101 26 030380 kt. 4501790439) en þá þarf að gæta þess vel að nafn greiðanda komi fram og skýring greiðslu.

Allir þeir sem styðja mannréttindabaráttu lesbía og homma og markmið Samtakanna ?78 geta gerst félagar.

Hver eru markmið Samtakanna ?78?

Kjarninn í mannréttindakröfu samkynhneigðra um allan heim snýst um persónulegt og tilfinningalegt frelsi ? frelsi þeirra til að haga lífi sínu í samræmi við eigin ástarhneigð. Slíkt frelsi er í eðli sínu helgur réttur hvers manns í samfélagi sem vill kenna sig við mannréttindi, ekki síður en tjáningarfrelsi eða félagafrelsi. Sú var tíðin að lesbíur og hommar á Íslandi flyktust úr landi og settust að erlendis vegna þess að þessi réttur var fótum troðinn. En nýjir tímar hafa fært þeim frelsi og öryggi umfram það sem þekkist víðast hvar í heiminum. Eftir langa baráttu virðir íslensk löggjöf nú mannréttindi samkynhneigðra í meira mæli en dæmi eru um meðal ríkja heims. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sýnir samkynhneigðum sömu mannvirðingu og öðrum íslenskum þegnum.

Markmið Samtakanna ?78 er enn sem fyrr að vinna að því að lesbíur og hommar verði sýnileg og viðurkennd og að samkynhneigðir njóti fulls jafnréttis á við aðra í íslensku samfélagi. Það er gert með því að berjast fyrir margvíslegum mannréttindum lesbía og homma og efla fræðslu um reynslu þeirra og sérkenni eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni, svo sem á vettvangi löggjafarvaldsins, í opinberu fræðslustarfi, með útgáfu og í fjölmiðlum. Frá því um áramót sinnir framkvæmdastjóri í fullu starfi þessum verkefnum, auk fræðslufulltrúa í 25% stöðu. Auk þess vinnur fjöldi sjálfboðaliða ómetanlegt starf fyrir félagið og hreyfingu samkynhneigðra á Íslandi.

Annað mikilvægt markmið félagsins er að leitast við að skapa samkynhneigðum félagslegan og menningarlegan vettvang í því skyni að styrkja sjálfsvitund þeirra, samkennd og samstöðu um sérkenni sín. Húsnæðið á Laugavegi 3 gegnir þar lykilhlutverki og mætir félagslegum þörfum hinna mörgu hópa sem starfa á vettvangi félagsins. Það er markmið stjórnar og starfsmanna á nýju ári að félagsgjöld hrökkvi til þess að standa straum af afborgunum húsnæðislána og fasteignagjöldum.

Hvað fæst með félagsaðild?

Ýmis hlunnindi fylgja félagsaðild. Félagar fá Samtakafréttir nokkrum sinnum á ári og allt annað útgáfuefni sent í pósti. Þeir njóta einnig afsláttar á þjónustu á vettvangi félagsins, til dæmis á bókasafninu, hjá félagsráðgjafa og á dansleikjum og öðrum uppákomum. Þá fá þeir sem þess óska reglulega sendar netfréttir um það sem er efst á baugi hverju sinni. Félagsaðild er Samtökunum sjálfum ómetanleg lyftistöng, því þrátt fyrir rausnarlega fjárstyrki hins opinbera er ljóst að starf félagsins er margfalt meira að umfangi. Sýnum stolt okkar í verki og gerumst félagar í Samtökunum ?78!

Leave a Reply