Skip to main content
search
Fréttir

DANMÖRK – KVIKMYNDIN UM GREGERSEN-FJÖLSKYLDUNA

By 4. febrúar, 2005No Comments

Frettir

Nú í desember var kvikmyndin Gregersen-fjölskyldan frumsýnd í Kaupmannahöfn. Hún er gerð eftir fjórum skáldsögum Christians Kampmanns sem á 8. áratug aldarinnar urðu metsölubækur í Danmörku og vöktu gríðarlega athygli um öll Norðurlönd. Þær var að finna á nánast öllum náttborðum í Danmörku þann áratug, og um söguhetjurnar var rætt fram og aftur rétt eins og nágrannana í næsta húsi. Í sögunum um Gregersen-fjölskylduna er hommi ein af aðalpersónunum og var þetta sennilega í fyrsta sinn sem samkynhneigðum var lýst á trúverðugan hátt, innan frá, í norrænum skáldskap. Kvikmyndin hefur hlotið góða dóma og endurvakið áhuga fólks á skáldskap Kampmanns sem lést 1988.

Með sögum sínum, Visse hensyn, Faste forhold, Rene linjer og Andre måder varð Christian Kampmann metsöluhöfundur í Danmörku og mun það nánast eindæmi að skáldi þar í landi hlotnuðust slíkar vinsældir á örskömmum tíma. Sögurnar fjórar segja frá auðugri góðborgarafjölskyldu í hverfi norðan Kaupmannahafnar sem greinilega hefur Hellerup að fyrirmynd. Sögur Kampmanns eru kenndar við nýraunsæi, knappar og lifandi frásagnir af fjölskyldulífi í upplausn og rótleysi, sögur af ráðvilltu fólki í leit að nýju gildismati þar sem persónurnar lýsa sér sjálfar í samtölum en sögumaður heldur sér til hlés. Einn af hinum fjórum systkinum sögunnar heitir Bo, og sagan hefst um það bil sem sem hann er að ljúka menntaskóla um 1960. Hann veit að hann er hommi en tíðarandinn og umhverfið leyfir ekki að samkynhneigð hans sé nefnd á nafn. Slíkt er ekki einu sinni haft í flimtingum þar í húsi. Það er svo margt á 6. áratugnum sem maður talar ekki um. Heimurinn á nefnilega að vera fullkominn – eða líta út fyrir að vera það að minnsta kosti.

FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Bo er ekki aðalpersóna sögunnar en höfundur og leikstjóri kvikmyndarinnar, Charlotte Sachs Bostrup, hefur sett hann í miðju atburðarásarinnar. Það þykir um margt djarft þegar í hlut á kvikmynd sem besýnilega er ætlað að höfða „til allrar fjölskyldunnar“. En leikstjórinn svarar því til að valið hafi verið nærtækt, Bo lifir sama lífi og höfundurinn sjálfur og lesandinn upplifir atburðina með hans augum. Þrátt fyrir góða dóma hafa gagnrýnendur vikið að þeirri staðreynd að þótt nóg sé um kynlífsatriði í myndinni sé ekkert slíkt að finna milli tveggja karla þó svo að lífi hommans sé að öðru leyti lýst af miklu raunsæi. Þessu svarar leikstjórinn þannig: ?Ég er kannski svona tepruleg en ég á erfitt með að þola kynlífsatriði í myndum ef þau hafa ekki ósvikinn dramatískan tilgang. Ef þau eiga að þjóna tilgangi þá verður það að vera til að lýsa átökum eða framvindu í lífi persónanna.? Ekkert þess háttar var að finna í sögu Bos. 

VIÐ ERUM KOMIN Í HRING

Christian Kampmann var meðal brautryðjenda í sögu samkynhneigðra á Norðurlöndum, einn sá allra fyrsti meðal þjóðþekktra Dana til að koma opinberlega úr skápnum. Það gerði hann í viðtali í Berlingske Tidende haustið 1975, tveggja barna faðir og nýlega skilinn við konu sína. Þetta var um það leyti og hann lauk fjórða og síðasta bindi sögunnar um Gregersen-fjölskylduna, rétt áður en hann heimsótti Ísland og ræddi hér um skáldskap sinn, vinsælasti og mest lesni höfundur þeirra ára á bókasafni Norræna hússins í Reykjavík. En sögur Kampmanns hafa margvíslegt gildi og skírskotun þeirra nær síður en svo eingöngu til samkynhneigðra. „Hann lýsir umbrotatímum í Danmörku,“ segir Charlotte Sachs Bostrup, „tímum sem voru þroska- og mótunarár svo margra Dana á okkar tímum.“

Um kvikmyndina og gildi hennar segir leikstjórinn síðan: „þegar ég byrjaði að vinna að kvikmyndinni fór ég að hugsa um það hvar við erum núna stödd. Við höfum hrokkið til baka í þá stöðu þegar allt á að vera svo fullkomið. Það eru engin takmörk fyrir því hvað við leggjum á okkur til að sýna slétt og fágað yfirborð. Þannig var þetta líka á 6. áratug aldarinnar. Þeir tímar einstaklingshyggjunnar sem við upplifum núna eru hins vegar algjör andstæða 8. áratugarins, þegar bækur Kampmanns komu út, og þá staðreynd finnst mér ástæða til að íhuga.“

MAGNAÐAR SJÁLFSÆVISÖGUR

Sem fyrr segir gerði Christian Kampmann heyrin kunnugt um samkynhneigð sína árið 1975, þá löngu kominn í röð fremstu rithöfunda Dana. Hann fæddist árið 1939 í Kaupmannahöfn, móðirin var bandarísk en faðir hans af einni ríkustu ætt Dana, sem rak m.a. verktakafyrirtækið Kampsax. Eftir að Christian sneri baki við gagnkynhneigðu lífi, hafði hann um árabil afskipti af þeirri hreyfingu danskra homma sem kallaði sig Bøssernes befrielsesfront og sat í ritstjórn tímaritsins Seksualpolitik, sem hafði mikil áhrif á þeim tíma. Eftir sögurnar fjórar um Gregersen-fjölskylduna ritaði hann á árunum 1976–1981 minningar sínar í þremur bindum, Fornemmelser, Videre trods alt og I glimt, en þar rekur hann þroskasögu sína sem homma, byrjar á æsku og unglingsárum, lýsir því næst lífi í hjónabandi með konu sinni Theresu og börnum þeirra, og loks hvernig hann brýst út úr skelinni á fertugsaldri. Þessar þrjár bækur eru almennt taldar einhverjar mögnuðustu sjálfsævisögur samkynhneigðra frá síðustu áratugum, ótrúlega vel sagðar og áhrifamiklar, sérstaklega sú fyrsta þeirra.
Í bókinni I glimt lýsir Christian því á ógleymanlegan hátt hvernig hann í Bøssernes befrielsesfront kynntist manninum sem fylgdi honum í tvo áratugi, rithöfundinum og sálfræðingnum Jens Michael Schau. Sambúð þeirra þó löngum erfið, Jens Michael var fullur afbrýðisemi og þjáðist af sjúklegum ótta við að Christian yfirgæfi hann. Allt tók það enda þegar Jens Michael myrti mann sinn að kvöldi 12. september 1988 í sumarbústað Kampmann-fjölskyldunnar á eynni Læsø.

Christian Kampmann varð 49 ára gamall.

–ÞK
Barometer o.fl.

Leave a Reply