Skip to main content
search
Fréttir

Ísland – Ríkisstjórnin heitir fullum réttarbótum

By 16. ágúst, 2005No Comments

Frettir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra lagði málefni samkynhneigðra fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun. Að fundi loknum lýsti hann því yfir að ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram frumvarp þegar Alþingi kemur saman í haust sem jafnaði að fullu réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra í fjölskyldumálum. Nokkur spenna hefur ríkt um það hvort ríkisstjórnin hygðist í frumvarpi sínu tala fyrir ættleiðingum barna af erlendum uppruna og tæknifrjóvgunum til handa lesbíum í staðfestri samvist, en forsætisráðherra tók af allan vafa þegar hann lýsti því yfir í viðtali við útvarp og sjónvarp í dag að samkynhneigðum bæri í öllu tilliti sami réttur og öðrum þegnum, þar með talinn rétturinn til ættleiðingar og tæknifrjóvgana. Sem kunnugt er klofnaði nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra í afstöðu sinni um þessi mál í skýrslu þeirri sem hún skilaði til ríkisstjórnar árið 2004.

Árið 2003 skipaði Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðra og gera tillögur um úrbætur. Nefndin lauk störfum síðasta haust en í henni áttu sæti sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta auk fulltrúa frá Samtökunum ´78. Meginniðurstaða nefndarinnar var sú að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir skyldu njóta sama réttar í hvívetna þótt ekki næðist samstaða innan hennar um tillögur varðandi tvennt: Ættleiðingar barna af erlendum uppruna og tæknifrjóvganir. Í ljósi þessa klofnings er sérstök ástæða til að fagna orðum forsætisráðherra um að ríkisstjórnin geri engar undantekningar í frumvarpi sínu hvað fjölskyldurétt varðar en hyggist fylgja röksemdafærslu og tillögum þeirra nefndarmanna sem töluðu fyrir fullum fjölskyldurétti í skýrslunni.

Áhrifamikil hátíðarræða

Síðustu vikur hefur mikil umræða farið fram um þessi mál í fjölmiðlum þegar ljóst var að unnið var að frumvarpi á vegum forsætisráðuneytisins. Segja má að Árni Magnússon félagsmálaráðherra hafi tekið af skarið á glæsilegan hátt í hátíðarræðu sinni á Hinsegin dögum í Reykjavík 6. ágúst þegar hann ávarpaði 50.000 gesti hátíðarinnar af útisviðinu í Lækjargötu og hét þar stuðningi sínum í baráttunni fyrir fullum fjölskyldurétti. Ræðu Árna er að finna hér á vefnum, sjá Greinar, þar sem hann lýsir viðhorfum sínum til málsins.

Hvað með vígslumennina?

Af orðum forsætisráðherra í fjölmiðlum virðist ljóst að það frumvarp til breytinga á lögum um staðfesta samvist sem ríkisstjórnin boðar, felur ekki í sér heimild til forystumanna trúfélaga um að gerast vígslumenn fólks sem staðfestir samvist sína, enda var þetta atriði ekki til umfjöllunar í skýrslu nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra árið 2004 sem frumvarp ríkisstjórnarinnar mun miðast við. Hins vegar mun þetta efnisatriði hafa verið haft á orði við vinnu að hinu nýja frumvarpi. Ef svo fer sem horfir að þetta atriði verði ekki að finna í frumvarpinu, hefur Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður lýst sig reiðubúna til að leggja fram breytingatillögu þar að lútandi í allsherjarnefnd Alþingis og leita um leið umsagnar þeirra sem hlut eiga að máli. Svo sem kunnugt er gera núgildandi lög um staðfesta samvist einungis ráð fyrir því að sýslumaður eða fulltrúi hans séu vígslumenn para sem vilja staðfesta samvist sína.

Viljum standa í fremstu röð

?Þetta er besta lending í mannréttindamálum á vettvangi löggjafarvaldsins sem dæmi eru um í langa tíð,? sagði Guðrún Ögmundsdóttir í samtali við vef Samtakanna ´78, en Guðrún hefur í fjögur ár unnið öðrum fremur að framgangi þessara mála á Alþingi, og var á sínum tíma fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um skipun þeirrar nefndar sem með skýrslu sinni myndaði forsendur réttarbótanna sem boðaðar eru. ?Með lögunum um staðfesta samvist 1996 komst Ísland í framvarðarsveit þeirra ríkja sem vinna að fullum jöfnuði án tillits til kynhneigðar. Það er ljóst að viljinn til að standa í fremstu röð í heiminum í þessum efnum er enn í fullu gildi hjá löggjafarvaldinu. Ég er stolt af mínu samverkafólki,? sagði Guðrún.

Í takt við þjóðarvilja

Í sama streng tók Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna ´78, sem lýsti yfir gleði sinni með yfirlýsingu forsætisráðherra í dag. ?Það er lýðræðinu ómetanlegur styrkur að ríkisstjórn Íslands skuli standa að baki svo víðtæku frumvarpi til réttarbóta án þess að skorast undan því að veita mínu fólki fullan rétt til ættleiðinga og tæknifrjóvgunar. Árið 1996 tel ég að Alþingi hafi farið fram úr þjóðinni með réttarbótum sínum, fyrir tíu árum hafði drjúgur hluti Íslendinga miklar efasemdir um og jafnvel beina andúð á hjúskaparréttinum sem fólst í lögum um staðfesta samvist. En þessi lagasetning gjörbreytti gildismati samfélagsins til góðs, það leynir sér ekki. Nú er eins og dæminu sé snúið við, ríkisstjórnin er að mæta kröfum sem nú þegar njóta stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Það er sannarlega ástæða til að þakka þennan stórhug og fagna þegar æðstu stjórnvöld starfa svo vel í takt við þjóðarvilja,? sagði Hrafnhildur.

?ÞK

Leave a Reply