Skip to main content
search
Fréttir

New York – Nýtt afbrigði HIV-veirunnar talið fundið

By 13. febrúar, 2005No Comments

Frettir Heilbrigðisyfirvöld í New York tilkynntu á blaðamannafundi föstudaginn 11. febrúar að greinst hefði afbrigði HIV-veirunnar sem væri með öllu ónæmt fyrir þeim lyfjum sem hingað til hafa dugað til að halda framrás hennar í skefjum. Ekki er vitað hver útbreiðsla þessa nýja afbrigðis er, en yfirvöld heilbrigðismála í borginni segja þessa uppgötvun ógnvekjandi þar sem hún leiði á örskömmum tíma til alnæmis. Veiran uppgötvaðist í karlmanni á fimmtugsaldri sem hafði iðulega haft samfarir við aðra karla án þess að að nota verjur, og Dr. Thomas R. Frieden, yfirmaður heilbrigðismála í borginni, telur þessi tíðindi ógna starfi að alnæmisvörnum í meira mæli en menn vita dæmi til um árabil.

Ýmsir vísindamenn annars staðar í Bandaríkjunum hafa tekið tíðindunum með fyrirvara og látið í ljósi þá skoðun að hér kunni að vera um afmarkað tilfelli að ræða sem tengist bækluðu ónæmiskerfi viðkomandi manns sem er jafnframt stórneytandi vímuefna og hefur lengi iðkað óvarið kynlíf með öðrum körlum undir áhrifum crystal methamphetamine. Dr. Frieden svarar því til að staðreyndin tali sínu máli og kalli á skýrar viðvaranir, ekki síst í ljósi þess að aðrir sjúkdómar sem smitast við kynmök, t.d. sýfilis, séu í miklum vexti þar í borg meðal karla sem hafa mök við aðra karla, einkum undir áhrifum harðra vímuefna.

Fréttir af þessu tagi er ekki nýjar af nálinni. Í seinni tíð hefur orðið vart við afbrigði HIV-veirunnar sem þekkt lyf ráða illa eða ekki við. ?En það sem er óvenjulegt við þetta tilvik er að veiran er hér ónæm fyrir fjölda lyfja og ræðst á ónæmiskerfið af meiri hraða en við höfum áður kynnst,? segir Dr. Ronald O. Valiserri, sem leiðir deild alnæmisvarna í miðstöð sjúkdómsvarna í New York, Centers for Disease Control. Hinn heimsfrægi Robert C. Gallo, sem átti þátt í fundi HIV-veirunnar á sínum tíma og stýrir deild veirurannsókna við University of Maryland, telur tíðindin þó storm í vatnsglasi. ?Þótt hyggilegt sé að kanna málið til hlítar þá er ekki ástæða til að blása í viðvörunarlúðra af þeim sökum.? Hann segir að það vel þekkt að HIV-jákvæðir sem nýlega hafi smitast, þrói alnæmi á skömmum tíma en það snúist um viðkvæmt ónæmiskerfi hvers einstaklings, ekki um eðli veirunnar.

New York Times

?ÞK

Leave a Reply