Skip to main content
search
Fréttir

GLÆSILEG FYRIRLESTRARÖÐ Í HÁSKÓLA ÍSLANDS

By 19. janúar, 2006No Comments

Í vetur bjóða Samtökin ’78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni “Kynhneigð, Menning, Saga”. Meðal fyrirlesara eru tveir heimsfrægir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir. Í vetur bjóða Samtökin ´78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni „Kynhneigð – Menning – Saga“. Meðal fyrirlesara eru tveir heimsfrægir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við félagsvísindadeild HÍ, RIKK – Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Hugvísindastofnun HÍ, FSS – Félag STK-stúdenta og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir.

HALLDÓR OG HOMMARNIR

Í fyrsta fyrirlestrinum, 27. janúar, mun Halldór Guðmundsson rithöfundur og bókmenntafræðingur fjalla um líf og skáldskap Halldórs Laxness, en erindi sitt nefnir hann Halldór og hommarnir – Pælingar Halldórs Laxness í kynhneigð á þriðja áratugnum. Þar ræðir Halldór um kynni Halldórs Laxness af hommum á þriðja áratugnum, pælingum hans þá í kynhneigð og tilbrigðum kynlífsins, en áhrifa þeirra gætir í fyrstu stóru skáldsögum hans, bæði Vefaranum mikla frá Kasmír og Sölku Völku. Einnig mun Halldór ræða um kunningsskap Halldórs Laxness og Þórðar Sigtryggssonar sem var einn af fáum sýnilegum hommum í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar og löngum talinn að einhverju leyti fyrirmynd organistans í Atómstöðinni.

GLÆPURINN KYNVILLA

Þorgerður H. ÞorvaldsdótturÍ fyrirlestri sínum, Glæpurinn kynvilla – Samkynhneigð og refsilöggjöf 1869–1992, sem haldinn er 10. febrúar, rekur Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur, hvernig íslensk refsilöggjöf tók á kynlífi samkynhneigðra frá 1869, þegar refsiákvæði um „samræði gegn náttúrlegu eðli“ var í lög leitt, til 1992 þegar sérákvæði refsilöggjafarinnar um mök fólks af sama kyni voru afnumin. Hún hugar að því menningarlega landslagi sem skóp þessi lög og skoðar íslenska laga- og dómahefð með hliðsjón af þróun mála annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma.

ÓPERUHOMMINN

Föstudagur 24. febrúar flytur Haukur F. Hannesson, tónlistarmaður og listrekstrarfræðingur, erindi sem hann nefnir Óperuhomminn – List og menningarpólitík frá samkynhneigðu sjónarhorni. Þar fjallar Haukur um það hvernig hommar og lesbíur hafa flúið til listarinnar og hvernig listin hefur flúið þau á harðahlaupum, hvött áfram af gagnkynhneigðarrembu, hómófóbíu og skipulagðri og óskipulagðri menningar¬pólitík sem í eitt skipti fyrir öll átti að koma reglu á óregluna. Hinir samkynhneigðu hafa hins vegar hangið í skottinu á listinni og ekki sleppt henni.

LÍF OG REYNSLA TRANSGENDER FÓLKS

Föstudaginn 10. mars er svo komið að Susan Stryker frá Bandaríkjunum, en fyrirlestur sinn kallar hún An Introduction to Transgender Studies – A Personal and Professional Account. Susan Stryker er heimsþekkt fyrir framlag sitt til upplýstrar umræðu um líf og reynslu transgender-fólks og hefur sent frá sér fjölda fræðigreina og ritstýrt safnritum um það efni. Eftir hana liggja tvö vinsæl heimildarit, Gay by the Bay og Queer Pulp, og hún er annar höfundur heimildamyndarinnar Screaming Queens sem sýnd er á Hinsegin bíódögum í Reykjavík í mars. Í fyrirlestri sínum fjallar Susan um reynslu sína sem yfirlýst transsexual manneskja í bandarísku fræðasamfélagi, upphaf fræðirannsókna um transgender-reynslu á síðasta áratug, samband þeirra fræða við kvennafræði og hinsegin fræði og mögulegt gildi þeirra fyrir félags- og hugvísindi framtíðarinnar.

ÖRUGG MEÐ LÍFIÐ OG VEL GIFT

Fimmti fyrirlesarinn í röðinni er Anna Einarsdóttir, félagsfræðingur, en föstudaginn 24. mars flytur hún erindi sem hún nefnir „Örugg með lífið og vel gift“ – Staðfest samvist – fyrir hverja og hvers vegna? Anna vinnur að doktorsrannsókn um það efni í London og fyrirlesturinn byggir hún á niðurstöðum rannsóknarinnar um staðfesta samvist á Íslandi. Þar fjallar hún einkum um það hvers vegna fólk giftir sig og hverju það hefur breytt fyrir þátttakendur í rannsókninni að fá formlega staðfestingu á sambandi sínu.

 
FROM QUEER TO QUEER AND BEYOND

Ken PlummerSíðastur í röð fyrirlesara er félagsfræðingurinn Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestur sinn flytur hann 7. apríl og kallar hann From Queer to Queer and Beyond – Gay Liberation in the UK over the Past Fifty Years. Þar fjallar hann um það hvernig samkynhneigður veruleiki og viðhorf hafa þróast í Bretlandi síðustu fimmtíu ár. Af sjónarhóli félagsfræði og sagnfræði leitast hann við að greina helstu áfanga og umskipti á þeirri leið, og metur söguna í ljósi eigin reynslu sem samkynhneigður fræðimaður og fyrrum baráttumaður í Gay Liberation Front. Ken Plummer er einn merkasti fræðimaður heims í rannsóknum með samkynhneigðum og hefur langan og glæsilegan fræðaferil að baki. Þá hefur hann átt stóran þátt í að móta hefð svonefndra lífssögurannsókna í félagsvísindum þar sem ekki síst er hlustað eftir röddum manna „á jaðrinum“.

Dagskrá fyrirlestraraðarinnar hefur verið gefin út. Hægt er að nálgast hana í Samtökunum ´78, Háskóla Íslands og víðar. Einnig er hægt að fá hana senda í pósti.

–ÞK

DAGSKRÁ FYRIRLESTRANNA

Föstudagur 27. janúar
HALLDÓR GUÐMUNDSSON
Halldór og hommarnir
Pælingar Halldórs Laxness í kynhneigð á þriðja áratugnum

Föstudagur 10. febrúar
ÞORGERÐUR H. ÞORVALDSDÓTTIR
Glæpurinn kynvilla
Samkynhneigð og refsilöggjöf 1869–1992

Föstudagur 24. febrúar
HAUKUR F. HANNESSON
Óperuhomminn
List og menningarpólitík frá samkynhneigðu sjónarhorni

Föstudagur 10. mars
SUSAN STRYKER
An Introduction to Transgender Studies
A Personal and Professional Account

Föstudagur 24. mars
ANNA EINARSDÓTTIR
„Örugg með lífið og vel gift“
Staðfest samvist – fyrir hverja
og hvers vegna?

Föstudagur 7. apríl
KEN PLUMMER
From Queer to Queer and Beyond
Gay Liberation in the UK over the Past Fifty Years

Leave a Reply