Skip to main content
search
Fréttir

Amnesty International – Hómófóbíu vex fiskur um hrygg

By 20. júlí, 2004No Comments

Frettir Sú bylting sem orðið hefur í réttindamálum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks víða um heim hefur á undanförnum árum snúist upp í andhverfu sína í öðrum löndum. Hómófóbía, sem meðal annars birtist í auknu ofbeldi, hatursglæpum og ofsóknum ríkisstjórna, hefur aukist um heim allan á undanförnum árum. Þeim löndum sem beita dauðarefsingum gegn samkynhneigð hefur jafnframt fjölgað, en þau eru: Íran, Saudi Arabía, Afganistan, Mauritania, Súdan, Pakistan, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Jemen og norður héröð Nígeríu. Þetta kemur fram í nýrri bók sem Amnesty International hefur gefið út: Sex, Love and Homophobia: Lesbian, Gay, Bisexual and Transgender Lives.

Desmond Tutu, Erkibiskup Suður Afríku og friðarverðlaunahafi Nóbels, skrifar inngangsorð bókarinnar. Þar líkir hann hómófóbíu heimsins við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, Apartheid, sem hann barðist svo lengi gegn: ?Mér væri ekki stætt á því að hafa barist gegn misréttinu sem fólst í Apartheid og ekki berjast nú gegn því misrétti sem samkynhneigðir mega þola?.

Svo virðist sem árangur mannréttindabaráttunnar á Vesturlöndum hafi sett málefnið í sviðsljósið í öðrum heimshlutum með mjög neikvæðum afleiðingum. Hópar sem áður hlutu litla athygli verða nú víða fyrir auknu aðkasti almennings sem og kerfisbundnum ofsóknum yfirvalda. Höfundur bókarinnar, Vannessa Bair, líkir ástandinu í löndum eins og Uganda og Zimbabwe við plágu en það hefur einnig versnað mikið í Mið- og Suður Ameríku.

Svipaða strauma má einnig greina í sumum vestrænum ríkjum, svo sem í Bandaríkjunum. Sú mikla umræða sem þar hefur átt sér stað um hjónabönd samkynhneigðra hefur blásið nýju lífi í hreyfingar sem beita sér gegn samkynhneigðum en þær eru einkum sterkar í miðvestur ríkjum landsins en fara einnig vaxandi að stærð og áhrifum víða annars staðar. Bush forseti hefur nú kosið að setja andstöðu sína við réttindi samkynhneigðra á oddinn á nýjan leik til þess að tryggja sér atkvæði þessara hópa í komandi forsetakosningum.

-HTS

Heimildir: Washingtonblade.com og Reuters.com

Leave a Reply