Skip to main content
search
Fréttir

Ástralía – Mardi Gras og dökka hliðin á Sydney

By 26. febrúar, 2001No Comments

Frettir Hin heimsfræga ganga Mardi Gras 2001 í Sidney verður haldin laugardaginn 3. mars. Saga Mardi Gras hófst 24. júní 1978 þegar hundruð lesbía og homma söfnuðust saman í Oxford Street í Sydney til mótmælagöngu (sem þá hafði ekki fengið nafnið Mardi Gras). Gangan einkenndist af átökum við lögreglu og margir voru handteknir. Tuttugu og tveimur árum síðar hefur Mardi Gras þróast í menningar- og listahátíð samkynhneigðra með sterku ívafi pólitískrar baráttu. Hátíðin stendur í heilan mánuð með ótal uppákomum og listviðburðum. Í ár hófst hún 9. febrúar og nær hámarki með sjálfri göngunni 3. mars þegar hátíðahöldin fylla götur Sydneyborgar. Þema göngunnar í ár er ?Samkynhneigðir foreldrar og börn þeirra.?

Mardi Gras er geysilega umsvifamikil hátíð og hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Sydney. Um 250.000 manns sækja hina ýmsu listviðburði og gangan sjálf dregur að 650.000 þátttakendur alls staðar að úr heiminum.

Mardi Gras og viðhorf almennings

Mardi Gras er mjög vinsæl meðal almennings í Ástralíu sem flykkist að og skemmtir sér konunglega. Göngunni sjálfri er sjónvarpað beint og er hún afar vinsælt sjónvarpsefni Í landinu. Telja margir að Mardi Gras hafi átt stóran þátt í að breyta viðhorfum almennings til samkynhneigðra í átt til aukins umburðarlyndis og viðurkenningar. Hátíðin hefur einnig gert það að verkum að Sydney hefur fengið þá ímynd í hugum fjöldans víða um heim að hún sé paradís samkynhneigðra.

Í tilefni Mardi Gras hefur hin opinbera sjónvarpsstöð Í Ástralíu sent út ýmslegt efni um samkynhneigða öðru hvoru allan febrúarmánuð. Þetta efni er að miklu leyti heimildarþættir um líf lesbía og homma víða um heim. Einn þátturinn fjallaði um dökku hliðarnar á lífi lesbía og homma í Sydney sem er í hróplegri andstöðu við hina glaðværu og jákvæðu ímynd Mardi Gras.

Hatursglæpir og ofbeldi

Þátturinn var gerður í Sydney og fjallaði um hatursglæpi og ofbeldi gagnvart samkynhneigðum þar í borg. Á yfirborðinu virðist sem umburðarlyndi, viðurkenning og jákvæð viðhorf ríki gagnvart lesbíum og hommum. Og það er engin blekking því stórir þjóðfélagshópar eru jákvæðir í garð þeirra. Hins vegar er stutt í hatrið hjá sumum, og hommar og lesbíur í Sydney mega þola margvíslega áreitni. Til dæmis er hrækt á fólk á götum úti og það kallað alls kyns ónefnum. Einnig eru nefnd dæmi um gróft líkamlegt ofbeldi. Í þættinum var því haldið fram að hatursglæpir og áreitni væru mun algengari en fólk almennt gerði sér grein fyrir.

Fram kom að þetta ofbeldi er falið vegna þess að hommar og lesbíur tilkynna yfirleitt ekki slíkar árásir. Fyrir því liggja ýmsar ástæður, m.a. treysta samkynhneigðir ekki lögreglunni og finnst það bara til að auka á vandann að kæra atburðinn, þau vilja ekki þurfa að gefa samkynhneigð sína til kynna gagnvart lögreglu, vilja ekki vekja athygli fjölmiðla á sér og atburðinum, og fleira þess háttar.

Í þættinum kom einnig fram að talsverður fjöldi lesbía og homma lifir í sífelldum ótta við ofbeldi og áreitni. Sumir hommar sem rætt var við höfðu verið barðir til óbóta oftar en einu sinni fyrir það eitt að vera hommar. Sumir höfðu naumlega lifað árásirnar af og fram kom að talsverður fjöldi samkynhneigðra karla hefur verið myrtur á undanförnum árum. Þeir sem beita ofbeldinu eru aðallega hópar ungra karlmanna sem flestir eru á aldrinum 15-25 ára. Þessir hópar taka sig þá saman og sitja fyrir hommum til að berja þá.

Hvað orsakar og réttlætir ofbeldið?

Einn af hæstaréttardómurum Ástralíu hefur nýlega lýst því opinberlega yfir að hann sé hommi og inn í sjónvarpsþáttinn var ofið áhrifamikið viðtal við hann. Hann benti á að oft væri talað um ósýnilegt glerþak sem hindraði frama kvenna í starfi. Hann sagði að slíkt glerþak væri einnig til staðar þegar samkynhneigðir ættu í hlut og að hann hefði sjálfur ekki orðið hæstaréttardómari ef hann hefði verið yfirlýstur hommi þegar hann sótti um stöðuna. Hins vegar hefði hann ákveðið að rjúfa þögnina eftir að hann var orðinn hæstaréttardómari því það væri mikilvægt að fólk vissi að lesbíur og hommar væru venjulegt fólk og alls staðar að finna. Einnig talaði hann um mikilvægi þess að ungt fók sem væri að koma úr felum ætti sér fyrirmyndir hvar sem væri í samfélaginu. Hann sagðst telja það skyldu sína við unga fólkið að koma fram opinberlega sem hommi.

Hæstaréttardómarinn benti á að misrétti gegn samkynhneigðum yrði að linna. Það væri ekki hægt að þola það lengur. Að hans áliti stafaði ofbeldið að mestu af því að foreldrar og leiðtogar í samfélaginu, ekki síst trúarleiðtogar, töluðu á neikvæðan hátt um samkynhneigða og gæfu ungu fólki þarmeð ?leyfi? til að beita þá ofbeldi. Kenning dómarans er sú að ungir karlar líti svo á að þeir séu að ?hreinsa til? í umboði samfélagsins þegar þeir leggja hendur á homma og drepa þá. Hann lagði mikla áherslu á ábyrgð fólks í leiðandi störfum í þessu sambandi. Sérstaklega talaði hann þunglega til trúarleiðtoga og lagði ríka áherslu á að þeir breyttu viðhorfum sínum og umtali um samkyhneigða.

Þetta var afar fróðlegur þáttur en jafnfram sló að óhug að mér við að horfa á hann. Mér kom á óvart hve ástandið hér er slæmt og var líka hugsað heim til Íslands. Skyldi vera meira þar um falið ofbeldi og áreitni en við gerum okkur grein fyrir?

Rannveig Traustadóttir, fréttaritari Sidney.

Leave a Reply