Skip to main content
search
Fréttir

Mikilvæg tímamót – Ný skýrsla um réttarstöðu samkynhneigðra

By 6. september, 2004No Comments

Frettir Nefnd sú sem forsætisráðherra skipaði til að kanna réttarstöðu samkynhneigðra í september 2003 hefur nú lokið störfum og sent frá sér ítarlega skýrslu. Þetta er í annað sinn sem slík skýrsla er unnin hér á landi að frumkvæði stjórnvalda, en fyrsta skýrsla um málefni samkynhneigðra kom út árið 1994 og ruddi braut dýrmætum lagabótum í þágu lesbía og homma þessa lands. Hin nýja skýrsla er ítarlegt verk, hún mun gagnast bæði löggjafarvaldi, dómsvaldi og framkvæmdavaldi í stefnumótun fyrir bættum hag samkynhneigðs fólks á Íslandi á næstu árum og í kjölfar hennar má búast við frumvörpum á Alþingi á næstu misserum.

Tildrög málsins og skipun nefndarinnar

Núverandi nefnd var skipuð í framhaldi af þingsályktunartillögu sem fulltrúar allra þingflokka fluttu undir forystu Guðrúnar Ögmundsdóttur alþingismanns og var samþykkt á Alþingi vorið 2003. Nefndinni var falið að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og gera tillögur um úrbætur og aðgerðir til að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Hún tók til starfa haustið 2003 og áttu þar sæti Anni G. Haugen, félagsráðgjafi, tilnefnd af félagsmálaráðuneyti, Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Hólmfríður Grímsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af menntamálaráðuneyti, Þorvaldur Kristinsson, bókmenntafræðingur, tilnefndur af Samtökunum ?78, og Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem án sérstakrar tilnefningar var skipuð formaður nefndarinnar.

Jafn réttur til skráðrar sambúðar

Höfuðverkefni nefndarinnar var að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð, en eins og kunnugt er geta hommar og lesbíur ekki skráð sambúð sína á Hagstofu og notið fríðinda eða mætt skyldum sem skráð sambúð felur í sér. Það var einróma álit nefndarmanna að þessari mismunun beri að eyða og er ítarlega lagt á ráðin um lausn þeirra mála í skýrslunni. Samkynhneigð pör skuli eiga sama valkost og gagnkynhneigð pör að stofna til slíkrar sambúðar með þeim réttaráhrifum sem henni fylgir. Til þess að ná megi því markmiði leggur nefndin til breytingar á lögum um lögheimili nr. 21/1990 þar sem mælt verði fyrir um að einstaklingar í óvígðri sambúð eigi sama lögheimili og geti þeir fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá að uppfylltum skilyrðum II. kafla hjúskaparlaga.

Endurskoðun laga um staðfesta samvist

Þá kannaði nefndin réttarstöðu samkynhneigðra í staðfestri samvist, gerði ítarlegan samanburð á þeim og samsvarandi lögum í Evrópu og í framhaldi af því leggur hún til breytingar á skilyrðum fyrir stofnun staðfestrar samvistar þess efnis að ákvæði um fasta búsetu hér á landi falli niður, en nægilegt sé að gera kröfu til þess að einstaklingarnir eigi búsetu í landi þar sem í gildi eru lög um staðfesta samvist sem eru hliðstæð íslenskum lögum um saman efni. Þau lönd sem nú eru viðurkennd hér á landi í þessu tilliti eru Holland og fjögur Norðurlandaríki.

Hvað varðar ættleiðingar leggur nefndin til að frumættleiðing íslenskra barna verði heimilaðar pörum í staðfestri samvist, enda eigi hún sér stað að undangengnu fóstri og lagaheimild undirstriki þar með vilja löggjafans til að tryggja þessum börnum fyllsta öryggi.

Hins vegar náðist ekki samstaða í nefndinni um þá þætti tillagnanna sem varða ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir. Skiptist nefndin í tvo jafna hluta um þau atriði. Rétt er að taka fram að enginn skoðanamunur var uppi í umræðum nefndarinnar um að samkynhneigðir einstaklingar séu jafn hæfir uppalendur og gagnkynhneigðir. Fjallaði nefndin m.a. um niðurstöður margvíslegra rannsókna sem gerðar hafa verið utanlands og innanlands varðandi börn sem alast upp með samkynhneigðum foreldrum sem styðja þá niðurstöðu. Ágreiningsefnin voru af öðrum toga.

Staðan á alþjóðavettvangi ? þróun réttarfars

Þá er í skýrslunni gerð vönduð grein fyrir alþjóðlegri samvinnu varðandi málefni samkynhneigðra og raktar úrlausnir, reglur og samþykktir á vettvangi alþjóðlegra stofnana svo sem Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Einnig er þróun réttarstöðu samkynhneigðra í nokkrum nágrannalöndum rakin vandlega. Allur sá fróðleikur sem hér er saman kominn í 4. og 5. kafla skýrslunnar mun á næstu árum reynast löggjafarvaldi og dómsvaldi, svo og íslenskri lögmannastétt, mikilvæg náma þekkingar og viðmiða um það hvert stefnir á alþjóðavettvangi í mannréttindum lesbía og homma.

Fræðsla og rannsóknir

Í 9. kafla skýrslunnar er fjallað um lagaákvæði um bann við mismunun og settar fram tillögur í þeim efnum en 10. og síðasti kafli skýrslunnar fjallar um fræðslu og rannsóknir. Þar er að finna margvíslegar tillögur um eflingu vísindarannsókna og fræðslu um samkynhneigð í því skyni að vinna gegn fordómum og treysta þjóðfélagsstöðu samkynhneigðra.

—————–

Skýrsla nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra

Samantekt um tillögur nefndarinnar

[Hér birtist einn af tíu köflum skýrslunnar, 2. kafli, en hann geymir stutta samantekt á tillögum nefndarinnar. Hafa ber í huga að tillögur og röksemdafærslur er að finna í mun ítarlegri texta í einstökum köflum skýrslunnar]

2.1. Inngangur

Skipta má viðfangsefnum nefndarinnar og niðurstöðum hennar upp í fimm meginþætti og fær hver þeirra sérstaka umfjöllun í 6.-10. kafla skýrslunnar. Þessir þættir eru eftirfarandi: Réttarstaða samkynhneigðra í sambúð (6. kafli), skilyrði og stofnun staðfestrar samvistar (7. kafli), samkynhneigðir og börn (8. kafli), lagaákvæði um bann við mismunun (9. kafli) og fræðsla og rannsóknir um samkynhneigð (10. kafli). Hér á eftir fer samantekt um niðurstöður nefndarinnar um þessa meginþætti en fyllri tillögur og ítarlegri greinargerð kemur fram í tilgreindum köflum skýrslunnar um hvern þátt.

2.2. Réttarstaða samkynhneigðra í sambúð

Nefndin leggur til að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar til þess að tryggja að samkynhneigð pör geti stofnað til sambúðar með sömu réttaráhrifum og gagnkynhneigð pör. Engin heildstæð löggjöf gildir um réttarstöðu sambúðarfólks en víða í lögum eru sérstök réttaráhrif tengd því að tveir einstaklingar búi saman í ?óvígðri sambúð? eða ?sambúð skráðri í þjóðskrá?, án þess að skilgreining þessara hugtaka liggi þó fyrir. Getur sambúðarfólk notið ákveðinna réttinda eða borið vissar skyldur sem stofnast við sambúðina, m.a. á vettvangi vinnumarkaðsréttar, skattamála, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar og er réttarstaðan þannig að nokkru leyti sambærileg og á við um hjúskap. Einnig er misjafnt hvort það er skilyrði fyrir því að réttaráhrif sambúðar stofnist að karl og kona séu skráð í óvígða sambúð í þjóðskrá, svo sem unnt er samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990.

Nefndin telur engin rök með því að samkynhneigð pör hafi lakari stöðu varðandi réttarstöðu í sambúð. Því skuli þau eiga sama valkost og gagnkynhneigð pör að stofna til slíkrar sambúðar með þeim réttaráhrifum sem henni fylgir. Til þess að ná megi því markmiði að tryggja jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra að þessu leyti leggur nefndin til breytingar á lögum um lögheimili nr. 21/1990 þar sem mælt verði fyrir um að einstaklingar í óvígðri sambúð eigi sama lögheimili og geti þeir fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá að uppfylltum skilyrðum II.
kafla hjúskaparlaga. Auk þessa telur nefndin nauðsynlegt að farið verði yfir dreifð lagaákvæði þar sem sérstök réttaráhrif eru bundin við óvígða sambúð ?karls og konu? og gerðar orðalagsbreytingar eftir því sem við á þannig að hún nái yfir sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni. Þannig verði í lögum rætt um ?sambúðarfólk í óvígðri sambúð? eða ?tvo einstaklinga í óvígðri sambúð? í stað þess að ræða um ?karl og konu í óvígðri sambúð?. Með einfaldri breytingu á nokkrum ákvæðum í núgildandi lögum við lagasetningu til framtíðar verður hægt að koma á fullu jafnrétti á þessu sviði, án þess að horfið verði frá þeirri stefnu löggjafans að skipa ekki á einum stað reglum um sambúð einstaklinga í ítarlegri heildarlöggjöf á því sviði. Eru breytingar á lögum og reglum, sem gera þarf í þessu skyni, taldar í viðauka með skýrslunni.

2.3. Skilyrði og stofnun staðfestrar samvistar

Nefndin leggur til breytingar á ákvæðum 2. gr. laga um staðfesta samvist nr. 87/1996 þannig að sérstakt skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar, þess efnis að a.m.k. annar einstaklinganna sé íslenskur ríkisborgari sem eigi fasta búsetu hér á landi, verði fellt niður. Þess í stað er lagt til að nægilegt sé að gera kröfu um að annar eða báðir einstaklingarnir eigi búsetu í landi þar sem í gildi eru lög um staðfesta samvist sem eru hliðstæð íslenskum lögum um sama efni.

Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör. Slík afstöðubreyting er að mati nefndarinnar forsenda þess að unnt verði að breyta hjúskaparlöggjöf í þessa átt.

2.4. Samkynhneigðir og börn

Nefndarmenn eru sammála um tillögur varðandi ættleiðingar íslenskra barna en náðu ekki samstöðu um þá þætti tillagnanna sem varða ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir. Skiptist nefndin í tvo jafna hluta um þau atriði. Rétt er að taka fram að enginn skoðanamunur var uppi í umræðum nefndarinnar um að samkynhneigðir einstaklingar séu jafn hæfir uppalendur og gagnkynhneigðir. Fjallaði nefndin m.a. um niðurstöður margvíslegra rannsókna sem gerðar hafa verið utanlands og innanlands varðandi börn sem alast upp með samkynhneigðum foreldrum sem styðja þá niðurstöðu.

2.4.1. Sameiginlegar tillögur nefndarinnar um ættleiðingar íslenskra barna

Nefndin leggur til að frumættleiðingar á íslenskum börnum verði heimilaðar jafnt gagnkynhneigðum og samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist og viðeigandi breytingar gerðar á 1. mgr. 6. gr. laganna í þessu skyni. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna um staðfesta samvist nr. 87/1996 getur einstaklingur í staðfestri samvist ættleitt barn hins sem hann hefur forsjá fyrir nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Er þessi réttur þannig bundinn við stjúpættleiðingar íslenskra barna en ekki frumættleiðingar. Í tilvikum þar sem um ræðir frumættleiðingu á íslensku barni á hún sér stað að undangengnu fóstri samkvæmt reglum barnaverndarlaga eða annarri umsjá barns. Samkynhneigð pör hafa tekið börn í fóstur enda eru engar takmarkanir í íslenskum lögum eða reglum hvað það varðar. Nefndin telur ekki rök standa til þess að lög girði fyrir rétt samkynhneigðra til þess að ættleiða barn við þessar aðstæður, enda fer fram ítarleg könnun í slíkum tilvikum á grundvelli ættleiðingarlaga eins og í sambærilegum tilvikum þegar gagnkynhneigðir eiga í hlut og á því byggt að ættleiðingin sé viðkomandi barni fyrir bestu. Að slík ættleiðing verði gerð möguleg sem framhald af fóstri undirstrikar vilja löggjafans til að tryggja þessum börnum fyllsta öryggi.

2.4.2. Tillögur þriggja nefndarmanna (formanns, fulltrúa dómsmálaráðuneytis og fulltrúa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis) varðandi ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir

Á undanförnum tveimur áratugum hefur fjölgað verulega á Íslandi frumættleiðingum á börnum frá Asíulöndum en þessi ríki heimila ekki ættleiðingar til samkynhneigðra. Er því ljóst að samkynhneigðum pörum myndi við þessar aðstæður ekki nýtast sú leið sem ættleiðingarlög ráðgera, að erlend ættleiðing eigi sér stað fyrir milligöngu ættleiðingafélags gagnvart þeim ríkjum sem samvinna er við um ættleiðingar.

Engar rannsóknir hafa farið fram um það hvernig erlendum ættleiddum börnum vegnar hér á landi, hvernig þau hafa aðlagast umhverfi sínu og upplifað tengslarof við heimaland sitt og uppruna. Samkvæmt erlendum rannsóknum sem nefndin kannaði og áliti sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar er ljóst að ættleiðing kjörbarna frá öðrum löndum hefur í för með sér allmikið sálrænt álag fyrir þau sem þeim gengur misjafnlega að vinna úr. Eðli málsins samkvæmt eru ekki enn fyrirliggjandi rannsóknir varðandi ættleidd börn samkynhneigðra foreldra. Rannsóknir hafa sýnt að líkur eru á því að börn samkynhneigðra foreldra verði fyrir ákveðnu félagslegu álagi einkum á fyrri hluta unglingsára. Vegna óvissu um sálræna líðan erlendra ættleiddra barna, sem skera sig m.a. frá umhverfi sínu vegna ólíks uppruna síns, auk mikilvægis þess að stefna ekki í hættu árangursríkri samvinnu sem komist hefur á við erlend stjórnvöld um ættleiðingar barna þaðan, telja þrír nefndarmenn ekki rétt að svo stöddu að heimila ættleiðingar samkynhneigðra para á erlendum börnum.

Svíþjóð hefur nú eitt Norðurlandanna veitt samkynhneigðum fullan rétt til frumættleiðinga á börnum, erlendum sem innlendum, en lög þess efnis tóku gildi 1. febrúar 2002. Þrír nefndarmenn telja rétt að fylgst verði náið með reynslunni af þeirri löggjöf, m.a. um áhrif löggjafarinnar gagnvart þeim erlendu ríkjum sem ættleitt er frá, með það í huga að fallið verði frá takmörkunum á rétti samkynhneigðra til frumættleiðinga erlendra barna.

Hvað varðar álitaefni um tæknifrjóvganir eru nefndarmennirnir þrír þeirrar skoðunar að sjónarmið hafi ekki breyst í svo veigamiklum atriðum frá setningu laga um tæknifrjóvgun nr. 55/1996 að rétt sé að falla frá skilyrði laganna um að kona, sem undirgengst tæknifrjóvgunaraðgerð, sé í hjúskap eða sambúð með karli. Skilyrðin byggjast á því markmiði að tryggja, eftir því sem kostur er, hagsmuni barns sem fæðist eftir getnað með tæknifrjóvgun þegar aðrar leiðir hjóna eða karls og konu í sambúð til að eignast barn hafa brugðist. Hefur skilyrðið um að eingöngu gagnkynhneigð pör eigi aðgang að þessari meðferð byggst á því viðhorfi að þeir hagsmunir barnsins vegi þyngra að það eigi rétt til að alast upp bæði með móður og föður frekar en að um ræði sjálfstæðan rétt einstaklings til þess að eignast barn. Með vísan til þessa sjónarmiðs hefur ekki heldur verið fallist á að tryggja beri einhleypum konum rétt til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði. Þótt lesbísk pör stofni til þungunar með þekktum sæðisgjafa og einfaldri tæknisæðingu er ekki sýnt fram á að því fylgi meiri áhætta en almennt er til staðar við venjulegan getnað barns varðandi heilbrigði kynföður. Telur nefndin ekki rétt að breyta þessari skipan og að greinarmunur, sem gerður er á milli gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para að þessu leyti, hvíli á málefnalegum sjónarmiðum og byggist á hagsmunum barns.

2.4.3. Tillögur þriggja nefndarmanna (fulltrúa félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Samtakanna ?78) varðandi ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir

Þessir þrír nefndarmenn leggja til að samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist verði með lögum heimilt að ættleiða börn af erlendum uppruna enda sýna
rannsóknir að samkynhneigðir foreldrar eru almennt ágætlega færir um að annast börn. Forsenda þess að börn séu ættleidd verður þá hin sama og í tilvikum annarra sem ættleiða börn, að gerð er ítarleg úttekt á högum og aðstæðum væntanlegra kjörforeldra. Sérstaklega þarf að gæta þess að þeir verði færir um að veita barninu umönnun og ástúð og að takast á við það álag sem ættleiðing frá framandi menningarsvæðum kallar yfir börn. Að meina samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist möguleika á að ættleiða börn af erlendum uppruna telja nefndarmennirnir stríða gegn viðteknum sjónarmiðum jafnræðis.

Nefndarmennirnir þrír telja að reglur annarra ríkja um ættleiðingar eigi ekki að hafa úrslitaáhrif á mótun íslenskrar löggjafar og vísa til þess að tveimur árum eftir að sænsk lög heimiluðu samkynhneigðum að ættleiða börn af erlendum uppruna finnast ekki dæmi þess að erlent ríki hafi séð ástæðu til að útiloka samstarf um ættleiðingar til gagnkynhneigðra þar í landi.

Nefndarmennirnir þrír telja brýnt að efla rannsóknir á högum ættleiddra barna af erlendum uppruna þar sem slík þekkingaröflun geti skipt sköpum um velferð þeirra. Skortur á slíkum rannsóknum geti þó ekki talist rök til að mismuna samkynhneigðum og gagnkynhneigðum í ættleiðingarefnum þar sem slíkt hljóti að ganga jafnt yfir alla og hafa sömu áhrif á möguleika beggja þessara þjóðfélagshópa til ættleiðinga.

Fyrrgreindir þrír nefndarmenn telja að lesbískum pörum skuli heimil aðstoð við tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum. Svo lengi sem löngun til að eignast barn er virt af löggjafanum og hún forsenda lagasetningar telja þeir það stríða gegn viðteknum jafnræðissjónarmiðum að meina lesbískum pörum rétt sem gagnkynhneigð pör njóta. Réttur barna til að þekkja faðerni sitt er mikilvægur og undirstrikaður í barnalögum. Gagnkynhneigð pör hafa engu að síður möguleika á aðstoð lækna til tæknifrjóvgunar með gjafasæði en á Íslandi er það sótt til Danmerkur þar sem nafnleynd ríkir um sæðisgjafa og það þýðir að börn, sem verða til á þennan hátt, hafa ekki möguleika á að komast að faðerni sínu. Þó að nýjar tækniaðferðir við frjóvgun hafi á síðustu árum orðið til þess að gagnkynhneigð hjón og pör leiti sjaldnar nafnlauss gjafasæðis en áður, þá er leiðin þeim samt heimil og tíðkast hér á landi. Að neita lesbískum pörum um rétt, sem gagnkynhneigðum er færður, með vísun til þess að barn hafi ekki tök á að komast að faðerni sínu, telja nefndarmennirnir ekki réttmætt.

Nefndarmennirnir þrír benda á að lesbíur stofna gjarnan til þungunar með þekktum sæðisgjafa utan sjúkrastofnana og kann það að stofna heilsu móður og væntanlegs barns í hættu þar sem heilbrigði sæðisgjafa er ekki formlega kannað. Með lagaheimild lesbískra para til tæknifrjóvgunar á sjúkrastofnunum yrði girt fyrir þennan áhættuþátt. Einnig benda þeir á að leiðir lesbía til að leita tæknifrjóvgunar erlendis eru bundnar efnahag og félagslegri stöðu þeirra. Skortur á lagaheimild til að njóta þessa réttar á Íslandi elur því á félagslegu misrétti viðkomandi para í leit að lausnum við barnleysi sínu.

2.5. Lagaákvæði um bann við mismunun

Nefndin leggur til að sett verði í lög sérstök verndarákvæði til að sporna við mismunun samkynhneigðra á vinnumarkaði. Engin heildstæð löggjöf gildir hér á landi svipað því sem finna má á Norðurlöndunum um vernd á vinnumarkaði gagnvart mismunun við ráðningu, starfsumhverfi eða uppsögn. Nefndin telur mikilvægt í undirbúningi löggjafar um réttindi launþega á vinnumarkaði að samkynhneigðir njóti sérstakrar verndar gegn mismunun að þessu leyti. Jafnframt verði lögð lagaleg skylda á vinnuveitendur á vettvangi einkaréttarins að afhenda gögn og rökstyðja ákvarðanir varðandi vinnusamband við launþega, þegar grunur leikur á að mismunun hafi átt sér stað á grundvelli kynhneigðar, en sem stendur verður slík skylda aðeins lögð á vinnuveitendur sem falla undir stjórnsýslulög.

2.6. Fræðsla og rannsóknir

Nefndin telur mikilvægt að efla fræðslu um samkynhneigð og málefni samkynhneigðra á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Er slík fræðsla að mati nefndarinnar nauðsynleg forsenda fyrir því að málefnaleg og hlutlaus umræða geti átt sér stað um málefni samkynhneigðra, hún vinnur gegn fordómum og gerir samkynhneigða sýnilegri í þjóðfélaginu.

Þótt ýmsu hafi verið áorkað á undanförnum árum telur nefndin ekki hafa verið unnið nægilega markvisst að því að efla fræðslu um samkynhneigð og málefni samkynhneigðra eins og nefnd um málefni samkynhneigðra lagði til fyrir áratug. Fræðsla um samkynhneigð hefur ekki verið sett inn á námsskrá grunn- og framhaldsskóla sem þáttur í kennslu í félagsfræði og heilsufræði og enn skortir nokkuð á að viðeigandi kennsluefni sé til á þessu sviði. Einnig bendir nefndin á mikilvægi þess að auka fræðslu í þjálfun nokkurra starfsstétta og að samtök og stofnanir, sem geta veitt samkynhneigðum ungmennum ráðgjöf og fræðslu, verði efld.

Nefndin leggur til að fjallað verði um samkynhneigð í viðeigandi köflum aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla. Mikilvægt er að þeirri umfjöllun sé ekki aðeins ætlaður staður í kynfræðslu heldur líka í öðrum greinum, svo sem lífsleikni og samfélagsgreinum. Slíkri breytingu á námskrám verði fylgt eftir með gerð námsefnis á báðum skólastigum þar sem fjallað verði um samkynhneigð í tengslum við önnur blæbrigði mannlegs tilfinningalífs. Nefndin leggur einnig til að samkynhneigð fái sérstaka umfjöllun í grunnmenntun ýmissa stétta svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga, guðfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og námsráðgjafa, lögreglumanna og fangavarða og að slíkt námsefni standi til boða í hverri grein.

Þá leggur nefndin til að verkefni sem miða að rannsóknum, fræðslu og ráðgjöf um málefni samkynhneigðra njóti aukinna opinberra styrkja. Í því sambandi telur nefndin mikilvægt að styrkja vísindarannsóknir á lífi og líðan lesbía og homma á Íslandi til þess að komast að því hvar skórinn kreppir þannig að gera megi viðeigandi ráðstafanir á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála gagnvart þessum þjóðfélagshópi.

Leave a Reply