Skip to main content
Fréttir

Alnæmisdagsins minnst á Akureyri

By 30. nóvember, 2003No Comments

Tilkynningar Alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember verður minnst á Akureyri mánudaginn 1. desember. Safnast verður saman á Ráðhústorgi klukkan 19.00 og gengið undir blysum upp að Akureyrarkirkju, þar sem alnæmisdagsins verður minnst í fáeinum orðum.

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn hefur verið haldinn 1. desember ár hvert síðan 1988, en fyrir því stendur UNAIDS, sem er samstarfsvettvangur alþjóðastofnana um alnæmismál á vegum Sameinuðu þjóðanna. Viðfangsefni alnæmisdagsins í ár er: Fordómar og útskúfun. Alnæmi er ekki einkamál neinna einstaklinga eða fjölskyldna heldur mál sem varðar allt samfélag mannanna. Þess má geta að Alnæmissamtökin á Íslandi eiga 15 ára afmæli 5. desember næstkomandi.

Það er S78N, Norðurlandshópur Samtakanna 78, sem stendur að því að minnast Alnæmisdagsins með göngu frá Ráðhústorgi að Akureyrarkirkju. Fyrst var gegnið fyrir réttu ári og þá ákveðið að gera þetta árlegan viðburð á Akureyri. Allir eru velkomnir að taka þátt í göngunni og sýna samhug með þeim milljónum manna sem kjást við þennan skæða sjúkdóm um veröld alla – og einnig hér heima.

Leave a Reply