Skip to main content
search
Fréttir

BROKEBACK MOUNTAIN: ÁSTARSAGA SEM VINNUR BUG Á FORDÓMUM

By 13. janúar, 2006No Comments

Föstudaginn 13. janúar verður kvikmyndin Brokeback Mountain eftir leikstjórann Ang Lee tekin til sýninga í Regnboganum og Smárabíói. Hún fjallar á opinskáan hátt um ástarsamband tveggja bandarískra kúreka sem hittast við störf í Wyoming-fylki í Bandaríkjunum sumarið 1963. Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda og þykir líkleg til stórræða á Óskarsverðlaunahátíðinni 5. mars næstkomandi. Hún verður sýnd á væntanlegri kvikmyndahátið, Hinsegin bíódögum, sem haldin verður í Regnboganum dagana 9. til19. mars næstkomandi. Föstudaginn 13. janúar verður kvikmyndin Brokeback Mountain eftir leikstjórann Ang Lee tekin til sýninga í Regnboganum og Smárabíói. Hún fjallar á opinskáan hátt um ástarsamband tveggja bandarískra kúreka sem hittast við störf í Wyoming-fylki í Bandaríkjunum sumarið 1963. Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda og þykir líkleg til stórræða á Óskarsverðlaunahátíðinni 5. mars næstkomandi. Hún verður sýnd á væntanlegri kvikmyndahátið, Hinsegin bíódögum, sem haldin verður í Regnboganum dagana 9.–19. mars næstkomandi.

Brokeback Mountain spannar tveggja áratuga skeið og segir frá kúrekunum Ennis Del Mar (Heath Ledger) og Jack Twist (Jake Gyllenhaal) sem starfa saman eitt sumar við að gæta búfjár bónda nokkurs (Randy Quaid) á fjallinu sem myndin dregur nafn sitt af. Þessir fámálu sveitapiltar verja löngum stundum saman fjarri mannabyggðum og með tímanum takast með þeim miklar ástir. En af ótta við þessar sterku tilfinningar sem hvorugur hefur kynnst áður og viðbrögð innan hins íhaldsama sveitasamfélags halda þeir hvor í sína áttina eftir sumarið. Báðir kvænast þeir og stofna fjölskyldu en alltaf blundar innra með þeim minningin um ógleymanlegt sumar á fjallinu góða. Til þess að halda sambandi halda þeir saman í veiðitúra með reglulegu millibili og þar, langt fjarri gagnrýnum augum annarra manna, njóta þeir samvista hvor af öðrum en gæta þess alltaf að halda því kyrfilega leyndu sem raunverulega fram fer undir yfirskini veiðiferðanna – annað gæti jafnvel kostað þá lífið.

Sem fyrr segir hefur kvikmyndin, sem byggð er á rómaðri smásögu E. Annie Proulx, hlotið mikið lof og bar meðal annars sigur úr býtum á hinni virtu Feneyjarhátíð í september síðastliðnum. Ennfremur fékk hún flestar tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna þetta árið eða sjö talsins, meðal annars sem besta mynd, fyrir besta handrit og bestu leikstjórn, auk þess sem Heath Ledger og Michelle Williams hlutu tilnefningar fyrir sinn leik í myndinni. Ang Lee, sem áður hefur gert jafnólíkar myndir sem Sense and Sensibility, The Hulk og Crouching Tiger, Hidden Dragon, hefur nú þegar hlotið minnst átta verðlaun á hinum ýmsu hátíðum í Bandaríkjunum og myndin sjálf verið valin sú besta á sjö af þessum hátíðum. Það er því ljóst að hér er á ferðinni mynd sem enginn má missa af.

En sigurganga þessarar myndar hefur síður en svo verið þrautalaus. Heil sjö ár tók að fjármagna verkið frá því að handritshöfundarnir Larry McMurtry og Diana Ossana luku við handritið árið 1997. Því ber þó að fagna að mynd sem þessi, sem hefur ástarsamband tveggja karlmanna í brennidepli, skuli framleidd í Hollywood sem yfirleitt er þekkt fyrir allt annað en að storka örlögunum með eldfimum málefnum í myndum sínum. Loksins, í fyrsta sinn síðan Making Love kom út fyrir tæpum aldarfjórðungi, lítur dagsins ljós kvikmynd um ástir samkynhneigðra sem fjallar um efnið af alúð og virðingu, en þó fyrst og fremst sem ástarsögu af sama toga og allar ástarsögur, hvort heldur hýrar eða ekki.

Það er fyrst og fremst áhersla höfundanna og leikstjórans á þennan sammannlega þátt, ástina, sem hefur gert það að verkum að fjölmargir virtir kvikmyndagagnrýnendur vestra, og aðrir áhorfendur sömuleiðis, hafa hrósað myndinni fyrir það að vera svo vel unnin og áhrifarík ástarsaga að þeir sem áhorfendur hafi jafnvel gleymt því um stund að um ástir tveggja karlmanna væri að ræða. Það einfaldlega skipti ekki máli. Ástin ristir dýpra en svo að kynhneigðin verði afgerandi þáttur. Og með þessari mynd er sannarlega stigið skref fram á við hvað varðar fordómalausa umfjöllun um samkynhneigð í svokölluðum „mainstream“ kvikmyndum, stórmyndum Hollywood.

Í tilefni af sýningu Brokeback Mountain hafa Samtökin ’78 tekið saman höndum með Regnboganum sem ætlar að bjóða 20 frímiða á myndina til meðlima félagsins. Það eina sem þarf að gera er að senda tölvupóst á office@samtokin78.is og munu tuttugu fyrstu vinna miða á myndina.

-BKS

Leave a Reply