Skip to main content
Fréttir

TÍMAMÓT Í RÉTTINDABARÁTTU ÍSLENSKRA LESBÍA OG HOMMA

By 30. júní, 2006No Comments

Það var sannkölluð hátíðarstund þann 27. júní þegar á vel á fjórða hundrað manns komu saman á alþjóðlegum baráttudegi lesbía og homma í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Tilefni hátíðarsamkomunnar var gildistaka nýrra laga sem marka tímamót í réttindabaráttu lesbía og homma á Íslandi. Raunar marka lögin einnig tímamót á alþjóðavettvangi enda skipar Ísland með þeim í fremstu röð ríkja hvað varðar mannréttindi samkynhneigðra.

Það var sannkölluð hátíðarstund þann 27. júní þegar á vel á fjórða hundrað manns komu saman á alþjóðlegum baráttudegi lesbía og homma í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Tilefni hátíðarsamkomunnar var gildistaka nýrra laga sem marka tímamót í réttindabaráttu lesbía og homma á Íslandi. Raunar marka lögin einnig tímamót á alþjóðavettvangi enda skipar Ísland með þeim í fremstu röð ríkja hvað varðar mannréttindi samkynhneigðra.

Meðal gesta sem ávörpuðu samkomuna voru þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Guðrún Ögmundsdóttir alþingiskona, auk Hrafnhildar Gunnarsdóttur formanns Samtakanna ‘78. Þá flutti kynnir kvöldsins, Viðar Eggertsson, kveðju forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar og frúar.

Andrea Gylfadóttir og hljómsveit tóku nokkur lög fyrir hátíðargesti og kór skipaður meðlimum Samtakanna ’78 tók lagið Ég er eins og ég er ásamt félögum úr Léttsveit Reykjavíkur undir styrkri stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur kórstjóra.

Löggjöf er eitt – viðhorf annað

Geir H. Haarde forsætisráðherra rakti í stuttu máli aðdraganda lagasetningarinnar en hana má rekja til samþykktar þingsálykturnar vorið 2003 sem flutt var af fulltrúum allra þingflokka. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, skipaði í kjölfarið nefnd til að kanna ítarlega réttarstöðu samkynhneigðs fólks og gera tillögur um úrbætur. Í nefndinni átti sæti fulltrúi Samtakanna ’78. Nefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu rúmu ári síðar og er hún grundvöllur þeirra réttarbóta sem sakynhneigðir og fjölskyldur þeirra hafa nú öðlast. Nefndin náði hins vegar ekki samstöðu um tvö mál, það er annars vegar rétt lesbískra para til þess að gangast undir tæknifrjóvgu og hins vegar rétt samkynhneigðra para til þess að frumættleiða börn. Í máli forsætisráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefði vegið og metið ólík rök og sjónarmið í þessu sambandi en loks komist að þeirri niðurstöðu að að krafan um jafnrétti vægi í öllum tilvikum þingra.

Þá rakti forsætisráðherra önnur ákvæði lagasetningarinnar en með henni er tekið af skarið um að samkynhneigð jafnt sem gagnkynhneigð pör geti fengið sambúð skráða í þjóðskrá, auk þess sem fjölmörg önnur lög hafa nú verið leiðrétt þar sem réttindi sambúðarfólks koma við sögu. Forsætisráðherra tók þó skýrt fram, líkt og formaður Samtakanna ‘78 gerði í sínu ávarpi, að löggjöf er eitt en viðhorf í samfélaginu annað. Nú legði Alþingi hins vegar sitt af mörkum til að stuðla að umburðarlyndi og viðurkenningu á fjölbreytni mannlífsins.

Guðrúnu Ögmundsdóttur var vel fagnað þegar hún steig í pontu enda hefur hún staðið í eldlínunni og barist lengi fyrir því að samkynhneigðir standi jafnfætis öðrum. Guðrún var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þeirrar sem leiddi til þess að nefnd um réttartöðu samkynhneigðra var skipuð árið 2003. Hún áréttaði í sínu ávarpi, líkt og forsætisráðherra gerði í sinni ræðu, að um þetta mál hafi ríkt þverpólitísk samstaða.

Réttindunum fylgja líka skyldur sem ber að fara vel með

Hrafnhildur Gunnardóttir formaður Samtakanna 78 óskaði í ræðu sinni Íslendingum til hamingu með að búa í þjóðfélagi sem lætur jafnrétti sig máli skipta, en einnig með að eiga stjórnmálamenn sem þora að taka af skarið og útrýma óréttlæti. Nú stæðu samkynhneigðir á Íslandi nær jafnrétti en nokkru sinni fyrr og hefðu lykilinn í höndunum að möguleikanum að skapa eigin hamingju. Hrafnhildur minnti samkynhneiðga einnig á fara vel með hin nýju réttindi, sem líkt og öllum öðrum réttindum fylgi einnig skyldur.

27 júní 2006 verður án efa minnst sem einum markverðasta áfanga í sögu mannréttinda á Íslandi. Að baki er löng og ströng baráttusaga og ómæld vinna sem hefur lýst sér í þeim óþrjótandi vilja samkynhneigðra að fá að “leita hamingjunnar á eigin forsendum” svo vitnað sé í lokaorð forsætisráðherra.

-FJ og HTS

Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á hátíðarsamkomu Samtakanna ’78

Ávarp Guðrúnar Ögmundsdóttur alþingismanns á hátíðarsamkomu Samtakanna ’78

Nokkrar myndir frá hátíðinni


 

Leave a Reply