Skip to main content
search
Fréttir

ÚTILEGA KMK 28. – 29. JÚLÍ

By 20. júlí, 2006No Comments

Þá er komið að seinni útilegu KMK. Ætlunin er að skella sér annað hvort að Laugum í Sælingsdal eða að Leirubakka í Landsveitum.  Það mun fara eftir veðri hvor staðurinn verður fyrir valinu og því gott að fylgjast vel með á umræðusíðu http://www.kmk.is/  en þar munu allar upplýsingar verða settar inn eins fljótt og auðið er.

Endilega látið okkur vita fyrir 25. júlí ef þið hafið áhuga á að koma.

Vonandi mun einhver koma með gítar sem kann kannski líka að spila eitthvað á hann því þá getum við tekið lagið!

Hér að neðan eru staðarlýsingar:

Laugar í Sælingsdal eru á Vesturlandi í um 16 km frá Búðardal.

Á Laugum er ágætis tjaldstæði en fyrir þær sem eru t.d. bakveikar eða lítið fyrir að kúldrast í tjaldi þá er Eddu Hótel á svæðinu.

Þetta er mjög fallegur og skemmtilegur staður og geta gestir fundið sér ýmsa afþreyingu á svæðinu og í nágrenni þess.

Á Laugum er mjög fín sundlaug með heitum potti og einnig Byggðarsafn Dalamanna en það geymir ýmsa merka muni úr héraðinu. Eiríksstaðarsafn í Haukadal er einnig áhugavert sögusafn, en þar fundust rústir af bæ Eiríks Rauða á þar síðustu öld og byggður hefur verið tilgátubær sem er nákvæm eftirmynd skálans sem rústirnar fundust af.

Möguleiki er á tveimur stuttum gönguleiðum. Báðar eru þær frá Laugum og liggur önnur upp að Tungustapa sem sagður er vera álfakirkja (c.a. ½ tíma ganga) og hin að Svörtuklettum sem eru ofan við Laugar (c.a. 2 tímar).

Síðan má auðvitað skella sér í bíltúra t.d. fyrir Strandir þ.e. um Fellsströnd út Klofning og Skarðsströnd til baka um Svínadal.

Auk þess er líka hægt að leika sér t.d. í ýmsum boltaleikjum, hlaupaleikjum, þrautaleikjum eða hverju öðru sem konum og fjölskyldum dettur í hug.

http://www.dalabyggd.is/default.asp?sid_id=16911&tId=1

Leirubakki í Landsveit er með ferðaþjónustu við rætur Heklu og er aðeins 100 km frá Reykjavík.

Á Leirubakka eru góð tjaldstæði með fullkominni hreinlætisaðstöðu og leiktækjum fyrir börnin. Grillaðstaða er fyrir gesti tjaldsvæðisins í hlöðnum tóftum, þar sem söngurinn ræður oft ríkjum. Þá bíður Víkingalaugin úti í hrauninu, upplýst þegar kvölda tekur. Á staðnum er bensínsala en þar má einnig kaupa ýmsar nauðsynjar fyrir ferðamenn, mat, góðgæti, gos, einnota grill og ýmislegt annað sem þarf í útileguna. Að sjálfsögðu er hluti af tjaldsvæðinu fyrir tjaldvagna og húsbílar eru einnig velkomnir. Þar er einnig hótel fyrir þær sem eru lítið fyrir tjöldin eða tjaldvagnana.
Á Leirubakka eru skemmtilegar gönguleiðir rétt við bæinn, til dæmis niður með Vatnagarðslæk og Ytri-Rangá, sem rennur í sveig umhverfis land Leirubakka á nærri þriggja km kafla. Þá er fallegt, kjarri vaxið hraun á stórum hluta landareignarinnar, og víða á landareigninni má sjá minjar um búsetu fólks í Leirubakkahverfinu á liðnum öldum.

Í næsta nágrenni Leirubakka eru einnig fjölmargir áhugaverðir staðir. Þar má til dæmis nefna hinar fornu réttir Landmanna, Landréttir í Réttarnesi. Þá er ekki langt að fara í skóginn í Lambhaga og Skarfanesi, sem er ótrúleg náttúruperla. Skammt undan eru Þjófafossar og Tröllkonuhlaup, Galtalækjarskógur og Rangárbotnar. Þá er heldur ekki langt að aka í Landmannalaugar, Áfangagil, Hrafntinnusker, Landmannahelli og Veiðivötn, svo fátt eitt sé talið. Ekki má gleyma Heklu, einu frægasta eldfjalli veraldar, en margir ganga á tind hennar á hverju ári. Þá er Leirubakki í þjóðbraut þeirra sem fara norður Sprengisand, aka um Fjallabaksleið eða ganga Laugaveginn og áætlunarbílar koma við á Leirubakka tvisvar á dag á leið til og frá Landmannalaugum.

Einnig er hestamiðstöð, þar sem er starfandi hestaleiga. Hestaferðir um nágrennið eru rómaðar og upplifun hinnar einstöku náttúrufegurð, slíkar ferðir eru öllum minnisstæðar sem reynt hafa.
http://www.leirubakki.is/

 

KMK – Konur í kúlutjaldi

 

Leave a Reply