Skip to main content
search
Fréttir

HÁTÍÐ AÐ VORI Í MOSKVU

By 23. desember, 2005No Comments

Lesbíur og hommar í Moskvu minnast þess í vor að þrettán ár eru liðin frá því að refsingar við samkynhneigðum mökum voru afnumdar í Rússlandi. Efnt verður til mikilla hátíðahalda 25.-27. maí og meginþema þeirra er baráttan gegn hómófóbíu í Rússlandi. Búist er við miklum fjölda erlendra gesta á þessa veislu til verndar mannréttindum og meðal annars verður haldin stór ráðstefna um mannréttindi á Alþjóðadegi gegn hómófóbíu, IDAHO, en hún er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Fyrirhuguð hátíðahöld samkynhneigðra í Moskvu hafa valdið nokkru fjaðrafoki og mætt andstöðu borgaryfirvalda og þingmanna, en fjölmiðlar fjalla í fyrsta sinn um málefni þeirra á hlutlægan og jákvæðan hátt. BARÁTTAN GEGN HÓMÓFÓBÍU ÞEMA HÁTÍÐARINNAR

Hinn 27. maí 2006 eru þrettán ár liðin frá því að refsiákvæði í lögum við samkynhneigðu athæfi, hin illræmda § 121, var afnumin í Rússlandi. Lesbíur og hommar í Moskvu minnast dagsins með því að efna til fyrstu hátíðahalda samkynhneigðra þar í borg. Meginþema hátíðarinnar í maí er baráttan gegn hómófóbíu í Rússlandi.

Dagsetning göngunnar sem fer um stræti Moskvu í vor hefur sérstaka þýðingu í hugum lesbía og homma í Rússlandi. Það var 27. maí 1993, í forsetatíð Borisar Yeltsin, að rússneska þjóðþingið, Dúman, afnam þau lög sem Jósef Stalín og félagar settu á þriðja áratugnum og kváðu á um refsingar ef samkynhneigt athæfi sannaðist á mann. Lögin notaði Stalín meðal annarra vopna til að berja á hvers kyns andstæðingum á tímum ógnarstjórnar sinnar. Ein af dæmigerðum aðferðum einræðisins var að væna andstæðinga þess um samkynhneigð til að ryðja þeim úr vegi. Að því leyti gekk stefna hans í berhögg við stefnu við forverans, Leníns, en á upphafsárum sovétstjórnarinnar eftir byltinguna 1917 ríkti framsækið og um margt merkilegt frjálslyndi í fjölskyldumálum og pólitík einkalífsins sem varð til þess að öll eldri refsiákvæði sem vörðuðu samkynhneigð voru afnumin.

Í MINNINGU OSCARS WILDE

Hátíðin í Moskvu stendur í þrjá daga. Dagskráin er fjölbreytt og búist er við fjölda gesta utan úr heimi. Talsmenn hátíðahaldanna, Evgenia Debrianskaja og Nikolaj Alekseev, leggja áherslu á að hér sé ekki dæmigert Gay Pride á ferðinni heldur sannkölluð veisla til að vernda og hylla mannréttindi. Sem dæmi má nefna að 25. maí eru 111 ár liðin frá því að Oscar Wilde var dæmdur til refsivistar fyrir sódómíu á Englandi, og þann dag mun einn afkomenda hans, Merlin Holland, flytja fyrirlestur um þennan fræga forföður sinn. Sama dag koma tvær bækur út í Moskvu, tengdar minningu Oscars Wilde, önnur um réttarhöldin yfir honum 1895, en hin geymir minningar sonar hans í rússneskri þýðíngu.

ALÞJÓÐADAGUR GEGN HÓMÓFÓBÍU

Dagana 26.–27, maí verður svo efnt til ráðstefnu með þátttakendum víða að úr heiminum á Alþjóðadegi gegn hómófóbíu, IDAHO, en í henni taka þátt margir fremstu talsmenn mannréttinda í heiminum ræður. Enn mun vera hægt að skrá sig til þátttöku á ráðstefnuna í Moskvu á contacts@gayrussia.ru Þegar ráðstefnunni lýkur hefst fyrsta baráttuganga samkynhneigðra um stræti Moskvu, og hátíð að kvöldi með ræðufólki og skemmtikröftum víða að úr heiminum.

BORGARSTJÓRI Í UPPNÁMI

Fyrirhuguð hatíðahöld hafa valdið kostulegu fjaðrafoki meðal afturhaldsmanna í Moskvu. Borgarstjórinn, Yun Luzhkov, lýsti því yfir daginn eftir blaðamannafund samkynhneigðra að hann myndi neita skipuleggjendum um gönguleyfi þegar þar að kæmi. Fjölmiðlar blésu upp heilmiklu moldviðri við þessa yfirlýsingu gegn borgarstjóra en skipuleggjendur hátíðahaldanna sögðust ekki trúa því að hann neitaði þeim um rétt sem verndaður er af stjórnarskrá ríkisins og stríðir ekki gegn lögum. Láti Luzhkov borgarstjóri ekki af hótuninni segjast samtök homma og lesbía munu vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þau Evgenia Debrianskaja og Nikolaj Alekseev benda líka á að mikil þátttaka mannréttindasinna, þingmanna og frægs fólks úr Vestur-Evrópu muni gera Luzhkov erfitt um vik, en það hafi hann alls ekki séð fyrir á degi yfirlýsingar sinnar.

HVENÆR ERU MÓTMÆLAGÖNGUR SIÐLAUSAR?

Þegar ljóst var að Yun Luzhkov átti í vök að verjast barst honum óvæntur stuðningur frá hópi þingmanna. Einn ötulasti andstæðingur samkynhneigðra í þeirra röðum, Alexander Chuev, lagði fram frumvarp þess efnis að skipuleggjendur „ósiðlegra“ viðburða á almannafæri skyldu með látnir sæta sektum. 94 af 450 þingmönnum Dúmunnar greiddu frumvarpinu atkvæði sitt við fyrstu umferð og er það úr sögunni í bili. Þótt langur vegur sé frá Síberíuvist fortíðar til hugmynda um fjársektir nú á dögum sýnir þessi uppákoma að róðurinn er þungur og enn eiga hommar og lesbíur í Rússlandi langt í land til að eignast þá mannvirðingu þjóðarinnar sem þeim ber.

Átökin hafa þó skilað sínu. Fjölmiðlar hafa fjallað um málið á hlutlægan og jákvæðan hátt síðustu mánuði og jafnvel gula pressan, síðdegisblöðin, hafa ekki séð ástæðu til að úthella hefðbundinni lágkúru sinni yfir þjóðina að þessu tilefni. Það þykir einfaldlega ekki lengur markaðsvænt í hinu markaðsglaða Rússlandi okkar daga að leggja opinberlega fæð á hinn samkynhneigða hluta þjóðarinnar.

NIKOLAJ GENGUR EKKI FRAMAR EINN

Árum saman hefur einn maður, Nikolaj Baev, gengið einn sína baráttugöngu undir regnbogafánanum um stræti Moskvuborgar 27. júní, deginum sem kenndur er við átökin í Christopher Street í New York 1969 og mörkuðu upphaf nútíma í sögu homma og lesbía. Þegar baráttuhópar yngri kynslóðanna fréttu af þessu, ákváðu þau að leggja honum lið en skipuleggja liðsinni sitt á alþjóðlegan mælikvarða svo að eftir er tekið um allan heim, því eins og þau segja: „Við þurfum að ná saman öllu baráttufúsu fólki í Rússlandi og nágrannalöndum á einn stað, kalla til samræðu við erlent baráttufólk og stjórnmálamenn til að finna okkar eigin leið til að afla mannréttinda og læra að lifa í Rússlandi.“

–ÞK

ILGA-Europe Newsletter / www.gaytimes.co.uk / www.gayrussia.ru

Leave a Reply