Skip to main content
Fréttir

Enn einn áfangasigur – Þingsályktunartillaga samþykkt einróma á Alþingi

By 13. mars, 2003No Comments

Frettir Að kvöldi hins 11. mars var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og gera tillögur um úrbætur. Tillagan var samþykkt með 43 samhljóða atkvæðum en enginn sat hjá eða greiddi atkvæði á móti. 21 þingmaður var fjarstaddur atkvæðagreiðsluna. Hér er stigið mikilvægt skref í þá átt að vinna áfram að réttarbótum til handa samkynhneigðum en nú er rúmur áratugur liðinn síðan hliðstæð þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi, en skýrsla þeirrar nefndar, sem þá var skipuð, myndaði kjarnann í röksemdafærslu við þau frumvörp sem litu dagsins ljós á þingi veturinn 1995-1996, og urðu síðar að lögum árið 1996, lög um staðfesta samvist og verndarákvæði í almenn hegningarlög.

Undanfarin þrjú ár hefur stjórn Samtakanna ´78 vakið athygli þingmanna á réttarstöðu sambúðarfólks og unnið að því að tiltekin atriði sem varða fjölskyldurétt lesbía og homma verði tekin upp á Alþingi með úrbætur í huga. Þetta hefur borið þann árangur að í haust var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að ríkisstjórnin skipi nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks (128. löggjafarþing, 132 mál). Gert er ráð fyrir að í þessari nefnd sitji fulltrúar fimm ráðuneyta auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum samkynhneigðra. Gert er ráð fyrir að sérstakur starfsmaður verði nefndinni til aðstoðar og að hún skili Alþingi skýrslu og tillögum ári eftir samþykkt tillögunnar á Alþingi.

Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Guðrún Ögmundsdóttir en tillagan er borin fram af fulltrúum allra stjórnmálaflokka á þingi og meðflutningsmenn eru Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Sverrir Hermannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Jónína Bjartmarz, Ögmundur Jónasson og Guðjón A. Kristjánsson.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er hlutverki nefndarinnar lýst. Þar er lögð áhersla á að gerður verði samanburður á réttarstöðu sambúenda í óvígðri sambúð tveggja af gagnstæðu kyni annars vegar og óstaðfestri sambúð tveggja af sama kyni hins vegar. Ljóst er að þar hallar á hina síðarnefndu og verkefni nefndarinnar er að fara í saumana á lagagreinum og reglugerðum og gera tillögur það um hvernig jafna megi réttarstöðu. Það er vel kunnugt að samkynhneigðir sambúendur njóta ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir sambúendur, t.d. hvað varðar skattalög, erfðafjárlög, lögheimilislög, lög um almannatryggingar og lög um lífeyrissjóði.

Ekki er kunnugt um að samkynhneigðra sambúenda, sem ekki hafa staðfest samvist sína, sé getið í lögum á Norðurlöndum nema í Svíþjóð þar sem til eru tveggja áratuga gömul lagaákvæði um réttindi og skyldur samkynhneigðs sambúðarfólks, ákvæði sem urðu til löngu fyrir daga staðfestrar samvistar. Ef Alþingi nær bráðlega að veita samkynhneigðum sambúendum sem ekki hafa staðfest samvist, heildstæða réttarbót hefur Ísland tekið forystu á Norðurlöndum í þessum málum.

Í seinni hluta greinargerðar með þingsályktunartillögunni er vikið að þeim takmörkunum sem eru á lögum um staðfesta samvist hvað varðar bann við frumættleiðingu og tæknifrjóvgun. Nefndinni er falið að kanna nýorðnar breytingar á lögum erlendra ríkja svo og allar þær röksemdafærslur sem mættu þoka þessum málum áfram. Þannig eru vinnubrögð Alþingis, leitað er röksemdafærslna í löggjafarvinnu nágrannaþjóða okkar og niðurstöður nefndavinnu mynda síðan rökstuðning við væntanleg lagafrumvörp.

Umsögn allsherjarnefndar

Allsherjarnefnd Alþingis fjallaði um þingsályktunartillögunar og lagði til að hún yrði samþykkt óbreytt. Í umsögn nefndarinnar segir m.a.:

?Með skipun nefndarinnar er stigið mikilvægt skref í því að fá heildarsýn hvað stöðu þessa hóps varðar, en eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni sést afar skýrt hversu réttarstaða samkynhneigðra er slæm þegar hún er borin saman við réttarstöðu sambúðarfólks og þeirra sem eru í hjónabandi.

Til grundvallar tillögunni liggur skýrsla frá mars 2001 sem unnin var í dómsmála ráðuneytinu um réttarstöðu fólks í sambúð og hjónabandi. Samkynhneigðir eiga ekki þann valkost að geta skráð sig í sambúð eins og aðrir heldur einungis að fara í staðfesta samvist. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum og er í skýrslunni gerð grein fyrir lagaákvæðum á fjölmörgum réttarsviðum sem sett hafa verið um réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort og þá hvernig rétt væri að setja einstök lagaákvæði um réttarstöðu samkynhneigðra í óstaðfestri samvist. Nú er því mikil réttaróvissa um hvort og á hvaða réttarsviðum unnt er að leggja að jöfnu sambúð gagnkynhneigðra og sambúð samkynhneigðra og rétt er að leggja áherslu á að þetta snertir bæði réttindi og skyldur samkynhneigðra í sambúð.

Mikil þróun og umræða hefur átt sér stað á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu um þessi mál, og margar breytingar hafa verið gerðar á lögum til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Mikilvægt er að skoða þessi mál heildstætt, bæði stöðuna hér heima og í öðrum löndum og verður það m.a. hlutverk þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um.?

Litið til framtíðar

Forysta Samtakanna ´78 hefur á undanförnum árum stundum leitt getum að því að því sögulega skeiði væri brátt að ljúka sem einkenndist af harðri og snúinni baráttu fyrir dýrmætum réttarbótum á vettvangi löggjafarvaldsins og að löggjafarstarfið væri farið að bera æ meiri svip af eins konar ?leiðréttingarstarfi? þegar það rennur upp fyrir fulltrúum löggjafarvaldsins að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir sitja ekki við sama borð. Sennilega á þessi lýsing við um þann þátt réttarbótanna sem lúta að jöfnun á stöðu sambúenda en hins vegar má gera ráð fyrir að tekist verði á um þau bönn sem hvíla á samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist, rétti þeirra til frumættleiðinga og þó einkum rétti lesbískra kvenna til tæknifrjóvgunar. Því má búast við nokkrum átökum þegar lögin um staðfesta samvist koma næst til endurskoðunar.

Sjá einnig frétt hér á vefsíðunni 10. október 2002.

Leave a Reply